A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggðar - 19. okt. 2010

Þann 19. október 2010 var fundur  nr. 1169 haldinn í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst kl. 20:00. Jón Gísli Jónsson oddviti sveitarstjórnar setti fundinn, bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og stjórnaði fundi. Auk hans sátu fundinn Jón Jónsson og Bryndís Sveinsdóttir sveitarstjórnarmenn og Viðar Guðmundsson og Ingibjörg Benediktsdóttir varamenn. Einnig sat fundinn Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð. Á dagskrá voru eftirtalin mál:

 
1. Skýrsla sveitarstjóra
2. Aðalskipulag Strandabyggðar árin 2010-2022
3. Erindi frá safni Jóns Sigurðssonar um 200 ára afmæli 17. júní 2011, dags. 21. september 2010
4. Þátttaka í húsfélagi að Víkurtúni 1 - 11
5. Stoðveggur við Borgabraut 4
6. Hugmyndir og ábendingar um endurbætur og þróun tjaldsvæðisins á Hólmavík
7. Fundargerð Umhverfis- og náttúruverndarnefndar, dags. 11. okt. 2010

 

 

Þá var gengið til dagskrár.

 

1. Skýrsla sveitarstjóra


Um þessar mundir er unnið að teikningum á fræðslumiðstöð og skrifstofum á neðstu hæð Þróunarsetursins í samvinnu við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og Verkalýðsfélag Vestfirðinga.

Einnig er unnið að endurbótum á  leiksvæðum á Hólmavík í kjölfar úttektar BSI á Íslandi sem gerð var í lok ágúst. Lokið hefur verið að tengja vatn og holræsi við nýbyggingu við Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík. Þá er búið að hreinsa öll niðurföll og helstu lagnir í bænum.

Fyrirhugað er átak við að flytja gáma á nýgert gámasvæði í Skothúsvík utan við Víðidalsá.


Unnið er áfram að flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaganna. Andrea Björnsdóttir, varaoddviti Reykhólahrepps, er fulltrúi Stranda og Reykhólahrepps í gerð samnings  um byggðasamlag á Vestfjörðum um málefni fatlaðra.

 

Jón Jónsson, varaoddviti, sat fjarfund með Fjárlaganefnd Alþingis 13. október þar sem rætt var um brýnustu mál Strandabyggðar. 

 

Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Jón Jónsson varaoddviti sátu Fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna 14. og 15. október. Sveitarstjóri sat einnig ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og aðalfund Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum þann 15. október.

 

Guðjón Ólafsson, sérkennslufræðingur, var með opinn fræðslufund fyrir íbúa Strandabyggðar um einelti þann 19. október n.k. 

 
Strandabyggð styður íþróttaiðkun 4-5 ára barna á vegum Umf. Geislans með endurgjaldslausum íþróttatímum í íþróttahúsinu. Þá er félag eldri borgara að skoða möguleika á að nýta lausa tíma í húsinu fyrir iðkun Boccia.


Því miður hefur engin umsókn borist um stöðu leikskólastjóra leikskólans Lækjarbrekku. Tímabundnar lausnir koma í veg fyrir röskun á daglegri starfsemi á deildum leikskólans.

 

Umsjónarmaður félagsmiðstöðvarinnar Ozon, Bjarni Ómar Haraldsson, hefur sagt upp starfi sínu í félagsmiðstöðinni frá og með næstu áramótum.


Sveitarfélagið Strandabyggð er komið með síðu á facebook þar sem gestum gefst kostur á að fylgjast með fréttum úr sveitarfélaginu og senda inn fyrirspurnir. 

 

2. Aðalskipulag Strandabyggðar árin 2010-2022

 

Aðalskipulag Strandabyggðar árin 2010 - 2022 lagt fram til afgreiðslu. Sveitarstjórn hefur farið yfir framkomnar athugasemdir. Afgreiðsla Byggingar-, umferðar og skipulagsnefndar dags. 13. september 2010 liggur fyrir fundinum ásamt endurskoðaðri greinargerð dags. 19. október 2010 og fylgiskjal með athugasemdum.

 

Liður 1 í fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar um athugasemdir við aðalskipulag Strandabyggðar árin 2010 - 2022 var tekinn fyrir. Sveitarstjórn gerir eftirfarandi athugasemdir við þennan lið í fundargerðinni: (Sjá til skýringar)

 

Undirliðir 1-7 og 13 eru flokkaðir undir nýrri fyrirsögn: Umsagnir lögformlegra umsagnaraðila.

 

Liðir 8-12 og 14-16 eru endurnúmeraðir 1-8 og flokkaðir undir fyrirsögninni: Athugasemdir við auglýsta aðalskipulagstillögu. 

 

Umsagnir lögformlegra umsagnaraðila

 

Neðst í lið 1.4.1 undir umsagnir lögformlegra umsagnaraðila, í svörum við umsögn Siglingarstofnunar bætir sveitarstjórn eftirfarandi kafla við:

 

Í aðalskipulagstillögunni var svæðið þar sem Galdrasafnið er í dag og næsta nágrenni breytt úr iðnaðarsvæði (skv. þágildandi skipulagslögum voru iðnaðarsvæði jafnframt hafnarsvæði) í svæði fyrir verslun og þjónustu. Í staðinn fyrir það svæði var gert ráð fyrir stækkun á hafnarsvæði á fyllingum til norðurs þannig að nægt landrými verði til fyrir hafnsækna starfsemi. Hafnarsvæðið milli Rifshaus og Árnaklakks er hins vegar breytt frá auglýstri tillögu þannig að ekki er gert ráð fyrir auknum landfyllingum þar. 

 

Við lið 1.6 undir umsagnir lögformlegra umsagnaraðila, umsögn Fornleifaverndar Ríkisins er bætt við eftirfarandi bókun:

 

Í markmiðum aðalskipulagsins í kafla 7.3.3 Þjóðminjavernd segir „Stefna ber að því að fram fari fornleifaskráning samkvæmt þjóðminjalögum á næstu árum". 

 

Ennfremur er gerður eftirfarandi fyrirvari; „Á deiliskipulagsstigi verða fornminjar staðsettar í nákvæmum mælikvarða en allar helstu fram­kvæmdir eru deiluskipulagsskildar, s.s. svæði fyrir heilsársbyggð, frístundabyggð, iðnaðar­starf­semi o.fl. Á einstökum svæðum þar sem sérstakar aðstæður krefjast fari fram nákvæm skrán­ing og kortlagning fornminja. Þá ber að leggja fram yfirlit yfir fornleifar í tengslum við skóg­rækt­aráætlanir sbr. kafla 4.1.10. Einnig eru stór­framkvæmdir umhverfis­mats­skyldar sbr. kafla 2.10.2, s.s. vega­gerð, háspennulínur, virkjanir og efnisnámur".

 

Í framhaldi af umsögn Fornleifaverndar ríkisins var gert óformlegt samkomulag við Minjavörð Vestfjarða að fornleifaskráning fari fram í samræmi við þau markmið og fyrirvara sem hér hefur verið lýst.

 

 

Athugasemdir við auglýsta aðalskipulagstillögu. 

 

Við lið 1.2.1, athugasemd við auglýsta aðalskipulagstillögu, athugasemd Þorsteins Sigfússonar og Sævars Benediktssonar, dags. 20. júlí 2010, samþykkir sveitarstjórn eftirfarandi bókun:

 

Sveitarstjórn tekur undir að æskilegt er að færa þungaflutninga út fyrir gamla bæinn en jafnframt er ljóst að framkvæmdin er mjög kostnaðarsöm og því óvíst hvenær af henni gæti orðið. Sveitarstjórn leggur því til að aðalskipulagstillagan geri ekki ráð fyrir breytingu í samræmi við athugasemdina. Jafnframt er sveitarstjórn sammála um að ekki verði farið í framkvæmdir sem komi í veg fyrir þennan möguleika verði ákveðið að fara í þessar framkvæmdir síðar.  

 

Í lið 1.2.2, athugasemd við auglýsta aðalskipulagstillögu, athugasemd Þorsteins Sigfússonar og Sævars Benediktssonar, dags. 20. júlí 2010, er vísað í umsögn við athugasemd 1.4. sem er eftirfarandi:

 

Í aðalskipulagstillögunni var svæðið þar sem Galdrasafnið er í dag og næsta nágrenni breytt úr iðnaðarsvæði (skv. þágildandi skipulagslögum voru iðnaðarsvæði jafnframt hafnarsvæði) í svæði fyrir verslun og þjónustu. Í staðinn fyrir það svæði var gert ráð fyrir stækkun á hafnarsvæði á fyllingum til norðurs þannig að nægt landrými verði til fyrir hafnsækna starfsemi. Hafnarsvæðið milli Rifshaus og Árnaklakks er hins vegar breytt frá auglýstri tillögu þannig að ekki er gert ráð fyrir auknum landfyllingum þar. 

 

 

Í lið 1.3., athugasemd við auglýsta aðalskipulagstillögu, athugasemd Drífu Hrólfsdóttur, Haraldar V.A. Jónssonar, Guðjóns Magnússonar, Hrafnhildar Guðbjörnsdóttir og Þórólfs Guðjónssonar bætir sveitarstjórn við:

 

Hægt er að stunda allan venjulegan landbúnað á nær- og fjarsvæðinu sé varúðar gætt með áburðargjöf og meðferð mengandi efna, svo sem olíu. Allar meiriháttar framkvæmdir verða að vera í fullu samráði við viðkomandi heilbrigðiseftirlit og sveitarstjórn. Takmarkanir á landnoktun er mest innan brunnsvæðis þar sem ekki er heimilt að vera með aðra starfsemi en þá sem er nauðsynleg vegna vatnstöku. Um er að ræða mjög lítið afgirt svæði (2500 m2) og ætti því ekki að hafa áhrif á ákvarðanir um umgengni á landi. Öll hefðbundin landnotkun sem fram hefur farið á grann- og fjarsvæði vatnsverndar er heimil og ætti því ekki að skerða réttindi landeiganda. Æskilegt er þó að áburðargjöf á túnum sem liggja næst vatnsbólinu verði undir eftirliti Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða.

 

Í lið 1.3., athugasemd við auglýsta aðalskipulagstillögu, athugasemd Drífu Hrólfsdóttur, Haraldar V.A. Jónssonar, Guðjóns Magnússonar, Hrafnhildar Guðbjörnsdóttur og Þórólfs Guðjónssonar er einnig eftirfarandi athugasemd:

 

„Með vísan til framangreinds gera undirritaðir eigendur Ósjarðanna fyrirvara við Aðalskipulag Strandabyggðar 2010-2022 og áskiljum okkur rétt til þess að setja fram frekari athugasemdir á síðari stigum. Áskiljum við okkur jafnfram rétt til málshöfðunar til að sækja um bætur vegna hugsanlegrar skerðingar á athafnafrelsi og möguleikum til uppbyggingar sem auk þess rýrir verðgildi jarðanna Innri Óss og Ytri Óss."

 

Sveitarstjórn samþykkir að bæta eftirfarandi bókun framan við umsögn:

 

Umsögn:  Sveitarstjórn bendir á að með afmörkun vatnsverndarsvæðis sé ekki verið að skerða athafnafrelsi landeiganda enda sé öll almenn landbúnaðarstarfsemi heimil á fjarsvæði vatnsverndar eins og verið hefur. Sveitarstjórn bendir ennfremur á 33. gr. Skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um bætur vegna skipulags og yfirtöku eigna en þar segir:

 

Í lið 1.6., athugasemd við auglýsta aðalskipulagstillögu, athugasemd Þorbjargar Stefánsdóttur og Unnar Ragnarssonar, hefst umsögn á eftirfarandi setningu:

 

,,Umsögn:  Afmörkun lóðar verður leiðrétt m.t.t. athugasemdar. Nefndin mælir með að leikskólabrekka verði lokuð".

 

Sveitarstjórn bætir við eftirfarandi bókun:

 

Sveitarstjórn vill taka fram að lokunin komi ekki til framkvæmdar fyrr en endurbætur verða gerðar á Borgabraut miðað við fyrirliggjandi teikningar.

 

 

Liður 1 í fundargerð Byggingar-, umferðar- og skipulagsnefndar frá 13. september 2010 er samþykktur samhljóða með framangreindum breytingum. Aðalskipulagstillaga Strandabyggðar með áðurnefndum breytingum samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að svara athugasemdum við auglýst aðalskipulag. Sveitarstjórn samþykkir að Skipulagsstofnun verði send aðalskipulagstillagan til afgreiðslu og staðfestingar umhverfisráðherra og afgreiðsla sveitarstjórnar auglýst.

 

3. Erindi frá safni Jóns Sigurðssonar um 200 ára afmæli 17. júní 2011, dags. 21. september 2010

Sveitarstjórn fagnar erindinu og þakkar gott boð um að vera þátttakendur í hátíð í tilefni af því að 200 ár eru liðin frá fæðingu Jóns Sigurðssonar.

 

4. Þátttaka í húsfélagi að Víkurtúni 1 - 11

Sveitarstjórn samþykkir þátttöku í húsfélagi að Víkurtúni 1 - 11 og felur sveitarstjóra að staðfesta þátttökuna.

 

5. Stoðveggur við Borgabraut 4

Sveitarstjórn samþykkir byggingu á stoðvegg við Borgabraut 4. í samvinnu við húseigendur.

 

6. Hugmyndir og ábendingar um endurbætur og þróun tjaldsvæðisins á Hólmavík.

Sveitarstjórn þakkar allar þær góðu hugmyndir og ábendingar sem bárust um endurbætur og þróun tjaldsvæðisins á Hólmavík. Hugmyndunum og ábendingunum er vísað til skrifstofu til samantektar og flokkunar og þaðan til viðeigandi nefnda. 

 

7. Fundargerð Umhverfis- og náttúruverndarnefndar, dags. 11. okt. 2010

Sveitarstjórn tekur eindregið undir hugmyndir nefndarinnar um aukna fræðslu og bætta upplýsingagjöf frá Sorpsamlaginu. Fundargerð Umhverfis- og náttúruverndarnefndar dags. 11. okt. 2010 er samþykkt samhljóða.

 
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 21:35.

 

Jón Gísli Jónsson (sign)

Jón Jónsson (sign)

Ingibjörg Benediktsdóttir (sign)

Viðar Guðmundsson (sign)
Bryndís Sveinsdóttir (sign)

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón