A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn Strandabyggðar - 2. nóvember 2010

Þann 2. nóvember 2010 var fundur nr. 1170 haldinn í sveitarstjórn Strandabyggðar. Hann var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Hafnarbraut 19 á Hólmavík og hófst kl. 18:15.  Jón Gísli Jónsson oddviti sveitarstjórnar tók við fundarstjórn, bauð fundargesti velkomna og setti svo fundinn. Auk hans sátu fundinn Jón Jónsson, Ásta Þórisdóttir, Bryndís Sveinsdóttir og Katla Kjartansdóttir. Einnig sat fundinn Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri sem jafnframt ritaði fundargerð.  Dagskrá fundarins var í 9 liðum:

 

1. Skýrsla sveitarstjóra

2. Viðgerð á körfuboltavelli á skólalóð, erindi frá nemendum Grunn- og Tónskólans, dags. 13. okt. 2010

3. Ávextir í nestistíma í Grunn- og Tónskólanum, erindi frá Jóhönnu Guðbrandsdóttur, dags. 22. okt. 2010

4. Ljósgildra til að fylgjast með fiðrildafjölda, erindi frá Náttúrustofu Vestfjarða, dags. 22. okt. 2010

5. Styrkbeiðni vegna rotþróar, erindi frá Guðmundi Má Björgvinssyni og Jan Agnari Ingimundarsyni, dags. 22. okt. 2010

6. Styrkbeiðni vegna Steinshúss, dags. 12. okt. 2010

7. Framkvæmdir við veiðivötn, erindi frá Fiskistofu lagt fram til kynningar, dags. 15. september 2010

8. Stefnumótun í ferðaþjónustu og/eða atvinnumálum á Ströndum og Reykhólahreppi, erindi frá Atvinnuþróunarfélaginu, dags. 27. okt. 2010

9. Fundargerð Íþrótta- og tómstundanefndar, dags. 1. nóv 2010

 

1. Skýrsla sveitarstjóra

Unnið er að uppsetningu stoðveggs við Borgabraut 4 í samvinnu við eigendur. Í undirbúningi er úttekt á viðhaldsþörf á öllu íbúðarhúsnæði í eigu sveitarfélagsins.

 

Sveitarfélögin Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur hafa öll samþykkt að stofna sameiginlega félagsmálanefnd með 5 nefndarmönnum þar sem Strandabyggð verður með 2 fulltrúa og hin sveitarfélögin 1 hver. Undirbúningshópur vinnur nú drög að samningi um nefndina ásamt starfslýsingu, starfshlutfalli og menntunarkröfum sameiginlegs starfsmanns.

 

Víða um land stuðla sveitarfélög að virkni þeirra sem standa frammi fyrir atvinnuleysi með fríu eða niðurgreiddu aðgengi að sundlaugum og íþróttamannvirkjum. Sveitarstjórn leggur til  að atvinnuleitendur í Strandabyggð fái frítt í sundlaugina, þreksal og opna íþróttatíma í íþróttahúsinu.

 

Unnið er áfram að endurbótum á leikvöllum á Hólmavík í samræmi við úttekt BSÍ á Íslandi. Pöntuð hafa verið útileiktæki fyrir yngstu börnin á leikskólanum Lækjarbrekku.

 

Strandabyggð bauð starfsfólki stofnanna sveitarfélagsins og foreldrum grunnskólabarna upp á ferð með skólabílnum á ráðstefnu um einelti í Borgarnesi 21. október s.l. Með þessu vill sveitarfélagið leggja áherslu á mikilvægi uppbyggilegra samskipta og taka þátt í landsátaki gegn einelti.

 

Ársfundur Náttúruverndarnefnda og Umhverfisstofnunar var haldinn í Borgarnesi föstudaginn 29. október 2010 og sat formaður Umhverfis- og náttúruverndarnefndar, Sigurður Atlason, ársfundinn fyrir hönd Strandabyggðar. Hann kynnir niðurstöður fundarins fyrir nefndarmönnum.


Sveitarfélagið Strandabyggð hvatti konur til að ganga út frá störfum sínum kl. 14:25 á kvennafrídaginn og stóð fyrir dagskrá í Upplýsingamiðstöðinni. Karlar sem starfa hjá Strandabyggð sýndu starfssystrum sínum stuðning í verki með því m.a. að ganga í störf þeirra í leikskólanum Lækjarbrekku. Fjöldi kvenna tók þátt í deginum en í ár var haldið upp á kvennafrídaginn í 35. sinn.


Karlar á Ströndum tóku sig saman og breyttu götuheitum á Hólmavík í kvenmannsnöfn  til heiðurs konum í tilefni dagsins. Gjörningurinn fékk þó nokkra fjölmiðlaumfjöllun og vakti jákvæða athygli á sveitarfélaginu. Sveitarstjórn þakkar fyrir gott framtak og lýsir fullum stuðningi við jafnréttisbaráttu kynjanna.

Fyrirhugaður er starfsdagur sveitarstjórnar Strandabyggðar í byrjun nóvember þar sem meðal annars verður fjallað um stefnumótun, fjárhagsáætlanagerð fyrir árið 2011, vinnulag  og brýn verkefni.

 

2. Viðgerð á körfuboltavelli á skólalóð, erindi frá nemendum Grunn- og Tónskólans, dags. 13. okt. 2010.
Sveitarstjórn þakkar nemendum Grunn- og Tónskólans kærlega fyrir erindið og undirskriftarlistann og samþykkir að skoða kostnað við viðgerð á körfuboltavellinum.

 

3. Ávextir í nestistíma í Grunn- og Tónskólanum, erindi frá Jóhönnu Guðbrandsdóttur, dags. 22. okt. 2010.
Jóhönnu Guðbrandsdóttur er þakkað fyrir hugmyndina. Sveitarstjórn samþykkir að kynna sér málið hvað varðar kostnað og fyrirkomulag. 

 

4. Ljósgildra til að fylgjast með fiðrildafjölda, erindi frá Náttúrustofu Vestfjarða, dags. 22. okt. 2010.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að leyfa ljósgildru við dæluskúr vatnsveitunnar í Stakkamýri og að sveitarfélagið veiti aðgang að rafmagni vegna gildrunnar.

 

5. Styrkbeiðni vegna rotþróar, erindi frá Guðmundi Má Björgvinssyni og Jan Agnari Ingimundarsyni, dags. 22. okt. 2010.
Sveitarstjórn samþykkir að hafna erindinu. Samkvæmt lögum ber sveitarfélögum ekki skylda til að taka þátt í framkvæmdum við vatnsveitur eða fráveitur í dreifbýli.

 

6. Styrkbeiðni vegna Steinshúss, dags. 12. okt. 2010.
Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið og vísar því til menningarmálanefndar til umsagnar.

 

7. Framkvæmdir við veiðivötn, erindi frá Fiskistofu lagt fram til kynningar, dags. 15. september 2010.
Bréf lagt fram til kynningar og samþykkir sveitarstjórn að birta erindið á vefsvæði sínu íbúum til upplýsingar.

 

8. Stefnumótun í ferðaþjónustu og/eða atvinnumálum á Ströndum og Reykhólahreppi, erindi frá Atvinnuþróunarfélaginu, dags. 27. okt. 2010.
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að óska eftir kostnaðaráætlun frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða varðandi stefnumótun í atvinnumálum á svæðinu til næstu 5 ára. Strandabyggð lýsir yfir áhuga á að þetta verði gert í samstarfi við Árneshrepp, Kaldraneshrepp og Reykhólahrepp. 

 

9. Fundargerð Íþrótta- og tómstundanefndar, dags. 1. nóv 2010.
Sveitarstjórn samþykkir fundargerðina einróma og vill taka fram varðandi lið 1 að hún hyggst fara í frekari vinnu varðandi skilgreiningu á fyrirhuguðu starfi Íþrótta- og tómstundafulltrúa á starfsdegi sveitarstjórnar 13. nóvember n.k.

 
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 20:00.

 

Jón Gísli Jónsson (sign)

Jón Jónsson (sign)

Ásta Þórisdóttir (sign)

Bryndís Sveinsdóttir (sign)

Katla Kjartansdóttir (sign) 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón