Valmynd

Fréttir

Barnasáttmálinn - styttri útgáfa

Inngangur

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn eins og hann er oft kallaður, var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989. Barnasáttmálinn hefur verið staðfestur af 192 aðildarríkjum og er hann sá mannréttindasamningur sem hefur verið staðfestur af flestum þjóðum. 
Barnasáttmálinn var fullgiltur fyrir Íslands hönd árið 1992.  Fullgilding hans felur í sér að Ísland er skuldbundið að þjóðarétti til að virða og uppfylla ákvæði samningsins. Lög og reglur sem gilda hér á landi ættu því að vera í samræmi við Barnasáttmálann.
Samningurinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum.

I. hluti

1. grein    Hugtakið barn
Barn er einstaklingur undir 18 ára aldri, nema lög heimalands þess segi annað.

2. grein    Jafnræði — bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

3. grein    Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

4. grein    Ábyrgð aðildarríkja
Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um eftir því sem þau framast geta, m.a. með lögum og reglum. Ríkin skulu hjálpast að þannig að öllum börnum verði tryggð þessi réttindi.

5. grein    Ábyrgð foreldra
Aðildarríki eiga að virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra.

6. grein    Réttur til lífs og þroska
Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

7. grein    Réttur til nafns og ríkisfangs
Börn skal skrá við fæðingu. Þá eiga þau einnig rétt á nafni og ríkisfangi og að þekkja og njóta umönnunar foreldra sinna eftir því sem unnt er.

8. grein    Réttur til að halda persónulegum auðkennum
Aðildarríkjum er skylt að virða rétt barns til að halda persónulegum auðkennum sínum svo sem ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum.

9. grein    Aðskilnaður frá foreldrum
Aðildarríki skulu tryggja að börn verði ekki skilin frá foreldrum sínum nema  ef velferð barnanna verður ekki tryggð með öðru móti. Barn sem ekki elst upp hjá báðum foreldrum á rétt á að umgangast þá báða reglulega nema það sé andstætt hagsmunum þess.

10. grein    Endurfundir  fjölskyldu 
Barn sem á foreldra búsetta í mismunandi ríkjum á rétt á að halda persónulegum tengslum við þá báða ef mögulegt er. Aðildarríkjum ber að stuðla að sameiningu eða endurfundum sundraðra fjölskyldna með því að auðvelda ferðir milli ríkja.

11. grein    Vernd gegn brottnámi
Aðildarríkin skulu tryggja það að börn séu ekki flutt ólöglega úr landi og haldið erlendis og skulu gera um það samninga við önnur ríki. 

12. grein    Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

13. grein    Tjáningarfrelsi
Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

14. grein    Skoðana- og trúfrelsi
Aðildarríki skulu virða rétt barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Aðildarríkjum ber að virða rétt og skyldur foreldra til að leiðbeina börnum sínum í þeim efnum.

15. grein    Félagafrelsi
Börn eiga rétt á að mynda félög og koma saman með friðsömum hætti nema það brjóti gegn réttindum annarra  eða ógni öryggi þjóðarinnar.

16. grein    Friðhelgi fjölskyldu og einkalífs
Börn eiga rétt á vernd gegn gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, heimili, bréfum og gegn árásum á mannorð.

17. grein    Aðgangur að upplýsingum
Börn skulu hafa aðgang að innlendum og erlendum upplýsingum og öðru efni sem stuðlar að alhliða þroska þeirra og sem þau njóta góðs af félagslega og menningarlega. Aðildarríkjum ber jafnframt skylda til að vernda börn fyrir efni sem skaðað getur velferð þeirra.

18. grein    Uppeldi og þroski
Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á uppeldi barna sinna og skulu taka mið af því sem börnunum er fyrir bestu. Stjórnvöldum ber að veita foreldrum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og þjónusta veitt til umönnunar barna.

19. grein     Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.

20. grein    Umönnun utan fjölskyldu
Barni sem getur ekki búið hjá fjölskyldu sinni, tímabundið eða til framtíðar, skal tryggð önnur umönnun, s.s. fóstur, ættleiðing eða vistun á stofnun sem annast börn.

21. grein    Ættleiðing
Þegar börn eru ættleidd innanlands eða á milli landa skal það gert með leyfi stjórnvalda. Alltaf skulu hagsmunir barnanna hafðir að leiðarljósi. 

22. grein    Börn sem flóttamenn
Börn sem telja sig vera eða eru talin flóttamenn eiga rétt á vernd og stuðningi hvort sem þau eru ein eða í fylgd foreldra eða annarra. Jafnframt skal börnunum tryggð aðstoð við að leita uppi foreldra eða fjölskyldu.

23. grein    Fötluð börn
Andlega eða líkamlega fötluð börn eiga að búa við aðstæður sem tryggja virðingu þeirra og stuðla að sjálfsbjörg þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu. Þau skulu njóta sérstakrar umönnunar, eiga aðgang að menntun, þjálfun, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingu, starfsundirbúningi og tómstundaiðju.

24. grein    Heilsuvernd barna
Börn eiga rétt á njóta besta mögulegs heilsufars sem hægt er að tryggja, s.s. með læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að draga úr barnadauða, berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, stuðla að fræðslu um heilbrigt líferni og reyna að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilsu barna. Barnshafandi konur og mæður ungbarna eiga rétt á heilsugæslu.

25. grein    Eftirlit með vistun utan heimilis
Barn sem vistað er utan heimilis síns og fjarri fjölskyldu sinni, til þess að vernda líkamlega eða andlega heilsu þess,  á rétt á því að stjórnvöld hafi reglulega eftirlit með meðferð og aðstæðum á stofnuninni eða heimilinu sem barnið dvelst á. 

26. grein    Félagsleg aðstoð
Börn eiga rétt á félagslegri aðstoð og bótum, ef við á, og skulu yfirvöld tryggja þann rétt.

27. grein    Lífsskilyrði
Börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslueyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.

28. grein    Menntun
Börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds og skulu eiga kost á framhaldsmenntun og upplýsingum og ráðgjöf um nám og störf.  Aðildarríkjum ber að koma á skólaskyldu, gera ráðstafanir sem stuðla að reglulegri skólasókn og reyna að draga úr brottfalli nemenda. Agi í skólum skal samrýmast mannlegri reisn barnsins og vera í samræmi við sáttmála þennan.

29. grein    Markmið menntunar
Menntun á gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins. 

30. grein    Minnihlutahópar
Börnum sem tilheyra minnihlutahópum skal ekki bannað að njóta eigin menningar, iðka eigin trú eða nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.

31. grein    Hvíld og tómstundir
Börn eiga rétt á hvíld, tómstundum, leikjum og skemmtunum sem hæfa aldri þeirra og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

32. grein    Vinnuvernd
Börn eiga rétt á vernd gegn arðráni og vinnu sem spillir eða hindrar nám þeirra eða skaðar heilsu þeirra og þroska. Ríki skulu setja lög um vinnuvernd barna. 

33. grein    Ávana- og fíkniefni
Börn eiga rétt á vernd gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og gegn því að þau séu notuð við ólöglega framleiðslu slíkra efna og verslun með þau. 

34. grein    Kynferðislegt ofbeldi
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns kynferðislegu ofbeldi, s.s þátttöku í hvers kyns kynferðislegri háttsemi, vændi eða klámi.

35. grein    Brottnám, sala og verslun með börn
Aðildarríki skulu gera allt sem við á til að koma í veg fyrir brottnám barna og verslun með börn í hvaða tilgangi sem er.

36. grein    Önnur misnotkun
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns annarri misnotkun sem á einhvern hátt getur stefnt velferð þeirra í hættu.

37. grein    Frelsissvipting, ill meðferð og refsingar
Börn sem svipt eru frelsi sínu eiga rétt á mannúðlegri meðferð, lögfræðilegri og/eða annarri aðstoð til að fá mál sitt borið undir dómstól eða stjórnvald og rétt á að fá skjótan úrskurð í málinu. Ekki má beita börn pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Ekki skal dæma börn til dauða eða í lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn. Börn í fangelsum eða sambærilegum stofnunum eiga rétt á að halda sambandi við fjölskyldur sínar.

38. grein    Vopnuð átök
Tryggja skal börnum á átakasvæðum vernd og umönnun. Börn yngri en 15 ára eiga ekki að taka þátt í vopnaviðskiptum eða sinna herþjónustu.

39. grein    Bati og aðlögun
Tryggt skal að börn sem sætt hafa vanrækslu, misnotkun, grimmilegri eða vanvirðandi meðferð eða eru fórnarlömb átaka fái viðeigandi meðferð til að ná bata og aðlagast samfélaginu.

40. grein    Afbrot og málsmeðferð
Barn sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um afbrot á rétt á réttlátri málsmeðferð sem styrkir vitund þess um manngildi, virðingu fyrir mannréttindum og tekur tillit til aldurs þess. Börn sem brjóta af sér eiga rétt á viðeigandi lögfræðiaðstoð, meðferð og endurhæfingu. Aðildarríkin skulu lögbinda sakhæfisaldur.

41. grein    Betri réttur gildir
Ef  lög og reglur aðildarríkja eða alþjóðalög tryggja börnum betri rétt en segir til um í Barnasáttmálanum skulu þau gilda framar honum. 


II. hluti


42. – 45. grein        Kynning og eftirlit
Aðildarríki skuldbinda sig til að kynna meginreglur og ákvæði Barnasáttmálans víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fylgist með að aðildarríkin framfylgi Barnasáttmálanum. Aðildarríkin gefa Sameinuðu þjóðunum skýrslur um hvað þau hafa gert til þess að uppfylla sáttmálann. 

47. – 54. grein        Undirritun og fullgilding
Öll ríki mega gerast aðilar að Barnasáttmálanum. Í þessum hluta er fjallað um undirritun, fullgildingu og endanlegan frágang Barnasáttmálans, hvernig ber að framfylgja honum og ýmis tæknileg atriði er lúta að honum.

Þessi útgáfa er fengin af heimasíðunni http://www.barnasattmali.is/ og þar er hægt að nálgast frekari upplýsingar um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Vefumsjón