A A A

Valmynd

Viðmið um hlutfall kennsluhátta og námsmats

Viðmið um hlutfall kennsluhátta og námsmats

Starfsfólk Grunnskóla Hólmavíkur hefur sett sér það markmið að bjóða upp á framúrskarandi skólastarf og tryggja meðal annars að fjölbreyttir kennsluhættir og námsmat birtist með skýrum hætti í skólastarfinu. Kennarar hafa sett sér viðmið um hlutfall kennsluhátta og námsmats til að koma sem best til móts við fjölbreyttar þarfir nemendanna.


Kennsluaðferðir

Kennara hafa einsett sér að kennsluaðferðir séu fjölbreyttar. Kennsluaðferðir við Grunnskólann á Hólmavík  teljast fjölbreyttar þegar aðferðir aðrar en bekkjarkennsluaðferðir eru markvisst notaðar 75% af náms og kennslutíma nemenda. Bekkjarkennsluaðferðir séu ekki notaðar í meira en 25% af náms og kennslutíma allra árganga.

Hér fyrir neðan er listi með hugmyndum að kennsluaðferðum, hann er ekki tæmandi og verður endurskoðaður reglulega.


Bekkjarkennsluaðferðir, bein kennsla

Bekkjarkennsluaðferðir (bein kennsla, útlistunarkennsla kennslu­bókar­kennsla og umræðu­aðferðir) eiga við þegar kennarinn stendur fyrir framan nemenda­hópinn og kynnir, útskýrir, sýnir myndband, heldur fyrirlestur, skrifar á töflu, tekur nemendur upp að töflu, stjórnar umræðum og fleira. Nemendur sitja í sætum sínum og fylgjast með, vinna í vinnubókum, vinna verkefni eða taka þátt í umræðum. Allir eru að fást við sömu viðfangsefnin.


Innlifunaraðferðir:

Leikræn tjáning er samheiti yfir aðferðir sem byggja á því að nemendur sjái fyrir sér hluti, lifi sig inn í aðstæður eða setji sig í spor annarra. Þessar aðferðir byggja á því að nemendur tjái sig með myndrænum eða leikrænum hætti og lifi sig inn í líf fólks, til dæmis landnámsmanna. Verkefni sem byggja á annarri listrænni úrvinnslu og sköpun falla einnig hér undir. (Hlutverkaleikir (Role Play, Sagnalist)


Leitaraðferðir

Með leitaraðferðum er átt við aðferðir þar sem leitast er við að líkja eftir fræðilegum vinnubrögðum. Markmið er að virkja nemendur í að vinna vísindalega, afla upplýsinga í viðtölum, með vettvangsathugunum og náttúruskoðunum, tilraunum, heimildavinnu, greiningu á gögnum o.fl. Kennari leiðir kennsluna áfram með hliðsjón af því hver viðbrögð nemenda verða.


  • Efniskönnun (Project-Based Learning)

  • Heimildavinna (Resource Based Learning)

  • Lausnaleitarnám (Problem-Based Learning, skammstafað PBL)

  • Phenomenon based learning

  • Vefleiðangrar (WebQuest)

  • Leitarnámsaðferðir (Inquiry)

  • SOLE - Stórar spurningar.

Sjálfstæð skapandi verkefni

Með sjálfstæðum skapandi verkefnum (t.d. þemanám, söguaðferðin, landnámsaðferðin) er átt við þegar nemendur vinna upp á eigin spýtur (eða í hópum) að skapandi verkefnum sem þeir eiga verulegan þátt í að skapa og þróa. (Landnámsaðferðin (kennsluaðferðir Herdísar Egilsdóttur, Söguaðferðin (Storyline).


Hópvinnuaðferðir:

Með hópvinnubrögðum er átt við þegar nemendum hefur verið skipt í hópa. Hóparnir vinna að hvers konar verkefnum sem kennarinn hefur skipulagt. Kennarinn fer á milli hópanna og aðstoðar eftir þörfum. Samvinnunám og markviss samvinna er mikilvæg aðferð við að ná fram árangri umfram væntingar (Púslaðferðin (Jigsaw, Samvinnunám (Cooperative Learning).


Aðrir flokkar:

  • Einstaklingskennsla / einstaklingsmiðað nám

  • Fjölþrepakennsla (Multilevel Instruction)

  • Kennsluaðferðir í anda fjölgreindarkenningarinnar

  • Kennsluaðferðir byggðar á niðurstöðum heilarannsókna (Brain Based Instruction)


Námsmat


Samhliða viðmiðum um fjölbreyttar kennsluaðferðir hafa kennarar sett viðmið um fjölbreytt námsmat. Gengið er útfrá að leiðsagnarmat sé almennt nýtt til þess að leggja mat á þau fjölbreyttu verkefni sem verða til með fjölbreyttum kennsluaðferðum enda er kennsla og námsmat órjúfanleg heild. Leiðsagnarmat á að stuðla að því að nemendur læri af áhuga og nám snúist ekki um ytri umbun eða samkeppni. Nemendur fái tækifæri til að vera virkir þátttakendur í eigin námi og beri mikilvæga ábyrgð. Samvinna er í fyrirrúmi á milli nemenda, foreldra og kennara.


Gert er ráð fyrir að námsmatið fari fram jafnt og þétt yfir allan veturinn og lítil áhersla sé lögð á lokamat. Miðað er við að að minnsta kosti 75% alls námsmats fari fram með fjölbreyttum aðferðum sem falla undir leiðsagnarmat - til einföldunar, aðferðum sem gera öllum nemendum kleift að ná markmiðum sínum með tímanum. Kennarar hafa sett sér að leggja sig fram um að byggja upp markvisst og fjölbreytt safn sönnunargagna um samfelldar framfarir á mörgum sviðum.

Lokamati verði ekki meira en 25% af því mati sem fram fer í skólanum.


Hér fyrir neðan eru skýringar á helstu hugtökum og aðferðum sem tengjast námsmati í Grunn og tónlistarskóla Hólmavíkur. Listinn er ekki tæmandi og verður endurskoðaður ár hvert.


Lokamat

Verkefni og próf sem fela í sér fjölvalsspurningar, rétt eða rangt, spurningar og eyðufyllingar. Kaflapróf, eyðufyllingar, skrifleg próf eða lokaverkefni af öðru tagi, skrifleg, munnleg eða verkleg. Matsaðferðir við lokamat byggjast á settum markmiðum en matið krefst jafnan einhvers konar hlutlægra mælinga sem felast í hefðbundnu námsmati eins og skriflegum prófum eða lokaverkefnum af öðru tagi, skriflegum, munnlegum eða verklegum.

Lokamat er fyrst og fremst notað til að gefa nemendum einkunnir og staðfesta hvort þeir hafi náð settum markmiðum sem námið beindist að, oft þekkingarmarkmiðum.


Nemendamöppur

Sýnismöppur, verkmöppur eða ferilmöppur þar sem verkum nemenda er safnað markvisst með það að meginarkmiði að fylgjast með framförum nemenda. Nemendamöppur geta verið mappa í tölvu, vefsíða, blogg eða tímaritabox. Safnið er getur samanstaðið af verkum sem nemandinn velur, forsjáraðili eða kennari. Meginþráðurinn í safni nemandans er oftast skipulagt af kennara og ákveðin verkefni lögð fram til að fylgjast markvisst með framförum nemandans.


Víðtækt frammistöðumat

Víðtækt frammistöðumat getur verið öflugt leiðsagnarmat og mikilvægt þegar verið er að meta hvernig nemendur beita þekkingu sinni og leikni, sýna hvað þeir hafa raunverulega lært og að þeir geti sett það fram hugmyndir sínar og kunnáttu á mismunandi hátt.

Í frammistöðumati eru fjölbreytt verkefni mátuð við ákveðin viðmið - fyrirfram ákveðin og segja til um hvort og hversu vel nemanda hefur tekist til við verkefnið miðað við þau. Verkefnin geta bæði verið einstaklingsverkefni og hópverkefni, samræður, upplestur, kynningar, listaverk eða tilraunir með raunveruleg úrlausnarefni.


Uppskeruhátíðir

Sýningar, kynningar, gestakvöld, foreldrakvöld, hátíðir, ráðstefnur, málstofur, málþing. Meginatriði er að nemendur taki virkan þátt í að móta það sem í boði er. Hægt að meta með frammistöðumati.


Marklistar - sóknarkvarðar

Marklista má nota til sem grundvöll fyrir því að nemandinn sjálfur geti mátað sig sjálfur við skýr viðmið um stöðu sína. Einföld leið er að umorða hæfniviðmið á marklistum sem nemendur hafa til hliðsjónar og leggja jafnharðan mat á sína eigin getu. "Ég get túlkað, greint frá og lagt mat á..."  og svo hengja nemendur við verkefnin sín - eða sönnun á því að viðkomandi viðmiði hafi verið náði. Góð leið til þess að kenna nemendum að leggja mat á sína eigin hæfileika.


Foreldraviðtöl sem nemendur stjórna (
Student-led Conferences).

Regluleg aðkoma foreldra að námi barnanna sinna er bæði lýræðisleg og nauðsynleg. Foreldrar eru sérfræðingar í að þekkja börnin sín og foreldraviðtöl sem nemendur stjórna eru skemmtilegt tæki til þess að byggja upp jákvætt og nauðsynlegt samstarf nemenda, kennara og forsjáraðila.


Fleiri námsmatstæki

  • Sjálfsmat margvíslegt

  • Jafningjamat

  • "Game based assessment"

  • Atvikaskráningar

  • Gátlistar og margt fleira.


Einstaklingsmiðað nám


Kennarar í Grunnskóla Hólmavíkur hafa einnig einsett sér að skara fram úr við útfærslu einstaklingsmiðaðs náms. Fámennur skóli hefur þá sérstöðu að hafa árum saman kennt árgöngum saman og tekið mið af þörfum hvers og eins þó það hafi ekki verið formlega sett fram til þessa.

  • Flestir eða allir nemendur setja sér áætlanir í samvinnu við kennara og forsjáraðila með markmiðum fyrir námslotu eða tímabil.

  • Sama þema fyrir stærri hópa en viðfangsefnin eru mismunandi ýmist eftir áhuga eða getu.

  • Námsaðferðir eru í takt við markmið hvers og eins nemanda og nemendur þekkja smán saman sinn námsstíl.

  • Hópaskipting er fjölbreytt og áhersla lögð á samvinnu jafnt sem sjálfstæð vinnubrögð.

  • Námsmat er einstaklingsmiðað og nemandinn er virkur þátttakandi í því.

  • Sérstaklega er fylgst með framförum hvers og eins og brugðist við ef framgangur framfara breytist.


(Byggt á Matstæki um þróun skólastarfs í anda hugmynda um einstaklingsmiðað nám, lýðræðislegt og nemendamiðað skólastarf og lærdómssamfélag)

 

Kennslufræðileg stefna

Bekkjavefir

Atburðadagatal

« Janúar 2025 »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Næstu atburðir