Danskir nemendur í heimsókn
Í morgun lauk þriggja daga heimsókn nemenda frá Årslev í Danmörku. Komin er hefð fyrir samskiptum á milli skólanna en síðastliðið haust heimsóttu gestgjafarnir, 10. bekkur og nemendur útskrifuðir síðastliðið, sömu nemendur í Årslev. Í vetur hafa þau flest byggt upp ómetanleg vinasambönd með aðstoð tækinnar. Gestgjafarnir buðu upp á skemmtilega dagskrá með ferð í Skagafjörðinn og sprelli hér heima. Gist var á Bakkaflöt í Skagafirði þar sem farið var í litbolta, slappað af í heitum pottum og farið í flúðasiglingu í Vestari Jökulsá. Símon Ingi, sem flutti til Sauðárkróks í vor, bauð hópnum heim til sín í veitingar að lokinni dvöl í Skagafirðinum þaðan sem haldið var til Hólmavíkur. Á Hólmavík heimsóttu Danirnir Galdrasafnið, skoðuðu risa skjaldbökuna og Sauðfjársetrið. Á Sævangi fór hópurinn í ýmsa leiki í anda furðuleikanna. Hefð er fyrir að halda fótboltamót en það voru Danirnir sem sigruðu Íslendingana 2-1. Eftir viðburðarríkan dag var haldin grillveisla í Félagsheimilinu með fjölskyldum íslensku nemendanna. Kvöldinu lauk með sundlaugarpartý og dynjandi tónlist. Síðustu nóttina var gist í skólanum en sögur herma að lítið hafi verið sofið en þeim mun meira spjallað. Í morgun buðu foreldrar öllum hópnum upp á glæsilegan morgunverð í Félagsheimilinu.
Það voru glaðir og ánægðir Danir sem kvöddu Íslendingana á mjög eftirminnilegan hátt en þeir heldu til Reykjavíkur þar sem þeir munu skoða sig um og m.a. skoða Gullfoss og Geysi ásamt því að lauga sig í Bláa Lóninu.
Aðkoma foreldra er lykillinn að því að svona viðamiklar heimsóknir takist vel og á foreldrahópurinn sem kom að undirbúningi að þessu sinni hrós skilið fyrir dugnað og hjálpsemi.