Valgreinaskólinn
Skólaþjónustan Ásgarður og fjórtán grunnskólar hafa í vetur unnið að því að skipuleggja valgreinar fyrir unglingastig þvert á skóla, þvert yfir landið.
Upphaf þessarar vinnu var rausnarlegur styrkur til Ásgarðs og Skóla í skýjunum síðastliðið haust frá samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra SSNV. Styrkurinn var meðal annars nýttur til að þróa miðlægt tvær valgreinar. Nemendur í níu skólum tóku þátt í náminu á netinu sem heppnaðist afar vel og framhaldsstyrkur varð svo til þess að farið var í að þróa valgreinaval í samstarfi við fleiri skóla.
Í samráði við skólastjórnendur í fjórtán skólum var nemendum gefinn kostur á að koma með tillögur að valgreinum og taka þátt í forvali. Að öllum líkindum verður hægt að bjóða upp á allt að fjórtán valgreinar í Valgreinaskólanum næsta haust. Meðal valgreina í boði verða Kökuskreytingar, íþróttaval, eðlis- og efnafræðival, kvikmyndagerð, franska, þýska, hljóðblöndun, kynjafræði, rafíþróttir, tölvuleikjahönnun og leiklist.
Samstarfsskólarnir eru: Reykhólaskóli, Patreksskóli, Bíldudalsskóli, Tálknafjarðarskóli, Grunnskóli Bolungarvíkur, Grunnskólinn á Hólmavík, Hríseyjarskóli, Stórutjarnaskóli, Þingeyjarskóli, Reykjahlíðarskóli, Öxarfjarðarskóli, Grunnskóli Raufarhafnar, Skóli í skýjunum og Þórshafnarskóli.
Valgreinarnar verða settar upp á Námsgagnatorgi í Valgreinaskólanum. Kennarar koma úr þátttökuskólunum. Þetta er þess vegna tækifæri í starfsþróun fyrir kennara í Valgreinaskólanum auk þess sem þekking þeirra og hæfni nýtist fleirum. Þetta er líka tækifæri fyrir nemendur í fámennum skólum sem fá þá aðgang að fjölbreyttum valgreinum í samræmi við áhugasvið sitt og efla tengslanet sitt með því að kynnast nemendum úr öðrum skólum. Annað eins framboð af valgreinum er ekki mögulegt að bjóða án þessa samstarfs.