A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórn - 25. nóv. 2008

Ár 2008 þriðjudaginn 25. nóvember var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Jón Stefánsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

Oddviti bar upp afbrigði við boðaða dagskrá um að 11. liðurinn um skipun varaslökkvistjóra í Strandabyggð yrði tekinn á dagskrá og var það samþykkt samhljóða. Oddviti kynnti þá dagskrá fundarins í  11 töluliðum, sem var eftirfarandi:


1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Erindi frá Thorp ehf. vegna Gamla skólans á Hólmavík.
3. Fundargerð og ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga.
4. Erindi frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem send voru ráðuneytum.
5. Fundargerð samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga.
6. Ályktun frá Vinnumálastofnun Vestfjarða.
7. Erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.
8. Erindi frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
9. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfirðinga frá 31.10.2008.
10. Erindi frá Ríkiskaupum um kauptilboð í Broddanesskóla.
11. Skipun varaslökkviliðsstjóra í Strandabyggð.

Þá var gengið til dagskrár.


1. Skýrsla sveitarstjóra. 
Greint er frá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var dagana 13. og 14. nóvember og sagt frá helstu áherslum sem fram komu þar er lúta að rekstri sveitarfélaga. Þar flutti Halldór Halldórsson setningarræðu þar sem m.a. kom fram að tryggja þurfi grunnþjónustu sveitarfélaga við gerð fjárhagsáætlana og forgangsröðun verkefna. Í vinnslu séu laga- og eða reglugerðarbreytingar til að auðvelda sveitarfélögum til að takast á við vandann s.s. að heimilt verði að leggja fram fjárhagsáætlun með halla, að forgangskrafa fasteignaskatts lengist úr tveimur árum í fjögur, að endurskoða reglur um endurgreiðslu lóðagjalda og að heimild til að leggja B-gatnagerðagjöld verði framlengd. Þá kom einnig fram í máli hans að það væri lykilatriði að sveitarfélög stilltu saman strengi sína í gjaldskráarmálum og væru samstíga við ríkið í þeim efnum. Einnig lagði hann mikla áherslu á að veitt yrði viðbótarframlag til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fjölmörg sveitarfélög væru háð því framlagi. Ítrekaði Halldór nauðsyn þess að ítrasta aðhaldi yrði beitt í rekstri enda mikil tekjuskerðing fyrirsjáanleg fyrir sveitarfélögin. 

Á eftir Halldóri hélt Árni Mathiesen fjármálaráðherra erindi þar sem fram kom breytingar á stöðu ríkissjóðs úr því að skulda nánast ekki neitt yfir í að skulda meira en 120% af árstekjum ríkisins ársins 2008 á sama tíma og gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist saman um 25% milli ára. Verið væri að endurskoða fjárlögin, ekki til að bæta inn í þau heldur til að skera niður sem þegar er komið. Viðbótarframlagið væri og yrði ekki í fjárlögum ársins 2009 auk þess að vænta megi verulegrar skerðingar á framlögum til hinna ýmsu mála á næstu árum. Vaxtabyrði ríkissjóðs verður himinhá fram til ársins 2015 auk þess sem endurgreiðslur lána, sem fyrirhugað er að taka vegna fjármálakreppunnar. Taldi Árni engar líkur á að ríkissjóður kæmi inn í vinnu við að greiða niður skuldir sveitarfélaga, eins og til stóð, heldur yrðu sveitarfélögin að setja sér fjármálareglur sem kvæðu á um að þegar hagur þeirra vænkaðist eftir einhver ár ætti batinn að vera notaður til að greiða niður skuldir en ekki til framkvæmda. 

Þá tók Karl Björnsson til máls um hvert stefnir í fjármálum sveitarfélaga og var sú samantekt ekki jákvæð.  Er spáð 15,5% lækkun tekna milli áranna 2008-2009 og verðbólga verði 23% í upphaf árs 2009. Útsvar lækki um 10% og framlög jöfnunarsjóðs um 13% að því gefnu að aukaframlagið væri inni en búið er að fella út sameiningarframlagið. Launakostnaður hækki um 5% og annar rekstrarkostnaður um 10% og fjármagnsgjöld hækki einnig um 10%. Að endingu fór hann yfir hvað gerist þegar sveitarfélag lendir í fjárhagserfiðleikum en eftirlitsnefnd er gert viðvart og gerður samningur milli sveitarfélagsins og nefndarinnar um úrbætur. Gangi það ekki getur ráðuneytið lagt fyrir sveitarstjórn að leggja 25% álag á útsvar og fasteignaskatt, svipt sveitarstjórn fjárforræði, beitt sér fyrir greiðslustöðvun og nauðasamningum og selt eigur og leitað samninga við nágrannasveitarfélög um sameiningu. 

Að endingu talaði Óttar Guðjónsson um stöðu Lánasjóðs sveitarfélaga og hugsanlega fjármögnun hans. Talið er að tapist hafi um tvö þúsund milljarðar á skráðum verðbréfum á Íslandi og þar af hafi lífeyrissjóðir tapað 450 milljörðum kr.  Eiga verðbréfasjóðir í miklum erfiðleikum vegna taps og aðgangur að erlendu lánsfé sé ekki til staðar. Ráðlagði hann að ekki væri farið af stað með framkvæmdir fyrr en búið væri að ganga frá fjármögnun. Þar sem skortur á lánsfé verður fyrirsjáanlegur næstu ár mun ávöxtunarkrafan hækka sem þýðir hærri vexti.

Þá er lögð fram tillaga sveitarstjóra um aðhaldsaðgerðir fyrir sveitarfélagið en samkvæmt spám má gera ráð fyrir að tekjur dragist saman milli ára um tæpar 40 millj. kr. og er þá eingöngu átt við framlög úr jöfnunarsjóði þar sem útsvarstekjur ættu að vera svipaðar.  Þá má gera ráð fyrir að launakostnaður hækki um tæpar 8 millj. kr., rekstrarkostnaður um tæpar 12 millj. kr. og fjármagnskostnaður um tæpar 3 millj. kr. 

Leggur sveitarstjóri því til að rekstur sveitarfélagsins verði skoðaður með það fyrir augum hvort leggja eigi þjónustu niður sem ekki flokkast til grunnþjónustu og er ekki lögbundin. Að allra leiða til hagræðingar sé leitað og dregið úr launakostnaði, jafnt hjá yfirstjórn sem annars staðar. Að ekki verði farið í neinar framkvæmdir á árinu 2009, ekki verði ráðið í stöður sem losna og rekstur Íþróttamiðstöðvar endurskoðaður m.t.t. opnunartíma. Að endingu að fylgja eftir tillögum um að hækka ekki álögur á íbúa til að byrja með og vera þannig samstíga öðrum sveitarfélögum. Sveitarstjórn samþykkir það að farið verði í fjárlagagerð og gætt ítrasta aðhalds.


2. Erindi frá Thorp ehf. vegna Gamla skólans á Hólmavík. 
Borist hefur erindi frá Thorp ehf. dags. 19. nóvember 2008 þar sem falast er eftir að taka yfir Gamla skólann með það í huga að endurgera húsið og nýta undir menningartengda ferðaþjónustu. Sveitarstjórn þakkar Thorp ehf. erindið en ekki verður tekin ákvörðun um framtíð skólans fyrr en deiliskipulag af svæðinu liggur fyrir.


3. Fundargerð og ályktun stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga. 
Borist hefur fundargerð Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 7. nóvember 2008 ásamt ályktun vegna þeirrar stöðu sem skapast hefur í efnahagslífi þjóðarinnar við hrun fjármálakerfisins. Telur stjórnin það nauðsynlegt að veitt verði áfram 1.400 millj. kr. aukaframlag til jöfnunarsjóðs og að aflaheimildir, sérstaklega á þorski, verði teknar til endurskoðunar. Lagt fram til kynningar.


4. Erindi frá þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem send voru ráðuneytum. 
Borist hafa afrit af sjö erindum dags. 5. nóvember 2008 frá Sturlu Böðvarssyni 1. þingmanni Norðvesturkjördæmis f.h. þingmanna kjördæmisins þar sem helstu hagsmunamál sveitarfélaga þess eru send tilheyrandi ráðuneytum. Lagt fram til kynningar.


5. Fundargerð samráðsnefndar á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga. 
Borist hefur fundargerð samráðsnefndar sem sett var á laggirnar í kjölfar efnahagskreppunnar og í eiga sæti fulltrúar frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, lánasjóði sveitarfélaga og aðilum úr röðum verkalýðsfélaga og samtaka atvinnulífsins. Lagt fram til kynningar. 


6. Ályktun frá Vinnumálastofnun Vestfjarða. 
Borist hefur ályktun sem samþykkt var á fundi vinnumarkaðsráðs Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum mánudaginn 27. október 2008 og er ályktunin eftirfarandi: „Vinnumarkaðsráð Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum skorar á sveitarstjórnir á Vestfjörðum og ríkisvaldið að halda sig við þær framkvæmdaáætlanir sem samþykktar hafa verið til næstu ára." Lagt fram til kynningar.


7. Erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga.
 
Borist hefur erindi frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga dags. 5. nóvember 2008 þar sem beint er tilmælum um að stjórnendur fyrirtækja/stofnana reyni eftir fremsta megni að forðast uppsagnir starfsfólks og leiti allra leiða til að skapa sátt um aðgerðir á vinnumarkaði. Lagt fram til kynningar.


8. Erindi frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. 
Borist hefur erindi frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands dags. 14. nóvember 2008 þar sem beðið er um að staðinn verði vörður um þá miklu uppbyggingu og þær framfarir í starfi íþróttafélaga um land allt. Lagt fram til kynningar.


9. Fundargerð Heilbrigðisnefndar Vestfirðinga frá 31.10.2008.
 
Lögð er fram til kynningar fundargerð Heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 31. október 2008 og til samþykktar fjárhagsáætlun fyrir árið 2009. Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir samhljóða að hafna fjárhagsáætluninni og telur eðlilegt að nefndin sýni aðhald og sparnað í rekstri miðað við það efnahagsástand sem ríkjandi er.


10. Erindi frá Ríkiskaupum um kauptilboð í Broddanesskóla. 
Borist hefur erindi dags. 18. nóvember 2008 frá Ríkiskaupum þar sem greint er frá tveimur tilboðum í Broddanesskóla, Strandabyggð. Hljóðar hærra tilboðið upp á kr. 2.100.000 en það lægra kr. 350.000. Í viðtali við Hermann Jóhannesson hjá menntamálaráðuneytinu kom fram vilji um að taka hærra tilboðinu. Einnig taldi hann til greina koma að báðum tilboðum yrði hafnað en sveitarfélagið keypti í stað þess hlut ríkisins í skólanum á sambærilegu verði. Samþykkt var að taka hærra tilboðinu með þremur atkvæðum, einn greiddi atkvæði á móti og einn sat hjá.


11. Skipun varaslökkviliðsstjóra í Strandabyggð. 
Borist hefur erindi dags. 25. nóvember 2008 frá Einari Indriðasyni slökkviliðsstjóra þar sem hann fer þess á leit við sveitarstjórn að hún skipi Sigurð Marinó Þorvaldsson sem varaslökkviliðsstjóra í stað Ingimundar Jóhannssonar. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að skipa Sigurð sem varaslökkviliðsstjóra.


Fleira ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:20.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón