Sveitarstjórn - 8. jan. 2008
Ár 2008 þriðjudaginn 8. janúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Daði Guðjónsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 7 töluliðum, sem var eftirfarandi:
1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Tillögur Þjóðtrúarstofu um starfsemi upplýsingamiðstöðvar og tjaldsvæðis fyrir árið 2008.
3. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 11. desember 2007.
4. Ályktun frá samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 7. desember 2007.
5. Beiðni frá Landgræðslu ríkisins um styrk vegna samstarfsverkefnisins "Bændur græða landið".
6. Erindi frá Umhverfisstofnun um endurgreiðslur vegna refa- og minkaveiða fyrir tímabilið september 2006-ágúst 2007.
7. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 7. desember 2007.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Skýrsla sveitarstjóra.
Í skýrslu sveitarstjóra er fjallað um beiðni frá Viðari Guðmundssyni um að fá Broddanesskóla leigðan og fallið verði frá sölu hans þar með í bili. Sveitarstjórn sér ekki ástæðu til að falla frá sölu Broddanesskóla og er sveitarstjóra falið að svara erindi Viðars.
Þá er greint í skýrslu frá skemmdum á hafnarsvæði vegna mikils sjógangs 30. desember sl. Kristján Guðmundsson hjá Siglingamálastofnun hefur skoðað skemmdirnar og telur brýnt að farið verði í að styrkja sjóvarnagarða við bryggjur og athafnasvæði hafnarinnar.
Að endingu er greint frá endurgreiðslum ríkisins vegna refa- og minkaveiða og hver kostnaður sveitarfélagsins er vegna málaflokksins. Ljóst má vera að kostnaður ríkisins vegna þessa er enginn þar sem endurgreiðslur nema samtals 300.742 kr. en greiddur virðisaukaskattur vegna veiðanna nam 394.119 kr. fyrir sama tímabil. Samþykkt var að ítreka kröfu Strandabyggðar til Umhverfisráðherra um aukna þátttöku ríkisins vegna þessa kostnaðar sökum nálægðar sveitarfélagsins við friðland á Hornströndum..
2. Tillögur Þjóðtrúarstofu um starfsemi upplýsingamiðstöðvar og tjaldsvæðis fyrir árið 2008.
Borist hafa tillögur Þjóðtrúarstofu um starfsemi upplýsingamiðstöðvar og tjaldsvæðis á Hólmavík fyrir árið 2008. Er skýrslan afar ítarleg og lagðar fram fjölmargar tillögur vegna starfseminnar árið 2008. Sveitarstjórn þakkar fyrir skýrsluna sem er í senn afar fróðleg og stefnumarkandi. Samþykkt var með þremur atkvæðum að hafa óbreyttan opnunartíma á upplýsingamiðstöðinni, frá 08:00 til 17:00 og að opnað verði 1. júní og opið til 31. ágúst 2008. Þá var einnig samþykkt með þremur atkvæðum að miðstöðin verði áfram til húsa í félagsheimilinu líkt og undanfarin ár og samið verði áfram við Þjóðtrúarstofu um umsjón hennar. Tillögu um að gjaldskrá verði vísað til fjárhagsáætlunar ársins 2008 er samþykkt samhljóða en fyrri umræða fer fram 22. janúar n.k. Þá er samþykkt samhljóða að farið verði í að afla frekari fjármagns til reksturs upplýsingamiðstöðvarinnar og leitað til ríkisins sem og sveitarfélaga í Strandasýslu í því sambandi.
3. Fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga dags. 11. desember 2007.
Borist hefur bréf dags. 18. desember 2007 ásamt fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 11. desember 2007. Lagt fram til kynningar.
4. Ályktun frá samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 7. desember 2007.
Borist hefur ályktun frá samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga frá 7. desember 2007 þar sem skorað er á samgönguráðherra að fylgja eftir samþykktum vestfirskra sveitarstjórnarmanna í vegamálum. Lagt fram til kynningar.
5. Beiðni frá Landgræðslu ríkisins um styrk vegna samstarfsverkefnisins "Bændur græða landið".
Borist hefur erindi frá Landgræðslu ríkisins dags. 29. nóv. 2007 þar sem farið er fram á styrk að fjárhæð 36.000 kr. vegna samstarfverkefnisins "Bændur græða landið" en átta þátttakendur eru í Strandabyggð. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
6. Erindi frá Umhverfisstofnun um endurgreiðslur vegna refa- og minkaveiða fyrir tímabilið september 2006-ágúst 2007.
Borist hefur bréf frá Umhverfisstofnum dags. 14. desember 2007 þar sem tilgreind er endurgreiðsla ríkissjóðs til sveitarfélagsins vegna refa- og minkaveiða, alls 300.442 kr. Lagt fram til kynningar.
7. Fundargerð heilbrigðisnefndar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða dags. 7. desember 2007.
Borist hefur erindi frá Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða dags. 11. desember 2007 ásamt fundargerð heilbrigðisnefndar frá 7. desember 2007. Lagt fram til kynningar.
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 18:30.