Menningarferð til Reykjavíkur
Þann 6. mars síðastliðinn fóru nemendur 8., 9. og 10. bekkjar í mikla reisu til Reykjavíkur. Ákveðið var að sameina ferð félagsmiðstöðvarinnar Ozon á Samfés þá um helgina og menningarferð unglinganna í Grunnskólanum á Hólmavík og Grunnskólanum á Drangsnesi. Menningarferðin stóð yfir fimmtudaginn 6. mars og þann 7. mars, eða allt þar til Samfés stuðið tók við seinni partinn 7. mars!
Í þessari menningarferð byrjuðum við á því að fara í leikhús á fimmtudeginum. Fyrir valinu varð forsýning leikverksins „Furðulegt háttalag hunds um nótt“ sem sýnt er í Borgarleikhúsinu. Áður en við fengum að njóta sýningarinnar bauð starfsfólk Borgarleikhússins okkur að skoða leikhúsið, þar sem við fengum bókstaflega að „skyggnast á bak við tjöldin“! Bæði sýningin og þessi kærkomna skoðunarferð voru býsna lærdómsrík fyrir unglingana, enda margir þeirra á kafi í leikverksuppsetningu um þessar mundir.
Föstudaginn 7. mars tókum við snemma og hittumst öll á Austurvelli fyrir framan Alþingi Íslendinga. Þar fórum við saman í húsnæði þar sem búið er að setja upp leik sem nefnist Skólaþing, þar sem nemendur eru settir í hlutverk Alþingisfólks og fá að leysa úr krefjandi viðfangsefnum. Sumir voru e.t.v. skeptískir á þennan hluta ferðarinnar, enda algengasta ímynd Alþingis sú að þar séu allir alltaf að rífast og þrátta! En reyndin var sú að flestum fannst þetta skemmtilegt, krefjandi og áhugavert í flesta staði, þrátt fyrir að leikurinn hefði tekið eina 3 klukkustundir! Í kjölfarið fengu nemendur að skoða sjálft Alþingi og kanna aðstæður áður en þau munu sjálfir taka þar við völdum J
Eftir hádegi heimsóttum við Þjóðminjasafn Íslands, þar sem rölt var um sali safnsins, undir leiðsögn Eiríks sem starfaði þar um árabil.
Þegar hér var komið við sögu var ekki laust við að fiðringur hafi verið kominn í nemendur enda Samfésballið og önnur gleði rétt handan við hornið. En þessi menningarferð tókst afar vel, enda er þetta unga Strandafólk hvert öðru frambærilegra og skemmtilegra! Takk fyrir frábæra ferð J