Sveitarstjórn - 29. jan. 2008
Ár 2008 þriðjudaginn 29. janúar var haldinn fundur í sveitarstjórn Strandabyggðar. Fundurinn var haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins og hófst hann kl. 17:00. Valdemar Guðmundsson oddviti setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Gísli Jónsson, Már Ólafsson og Daði Guðjónsson. Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
Oddviti kynnti dagskrá fundarins í 9 töluliðum, sem var eftirfarandi:
1. Skýrsla sveitarstjóra.
2. Fjárhagsáætlun ársins 2008 og þriggja ára áætlun, seinni umræða.
3. Skipun nýrra fulltrúa í skólanefnd og landbúnaðarnefnd Strandabyggðar og tilnefningu fulltrúa í stjórn Sorpsamlags Strandasýslu.
4. Erindi frá slökkviliðs- og varaslökkviliðsstjóra Strandabyggðar um brunavarnir.
5. Beiðni frá kvennakórnum Norðurljósum um styrk vegna útgáfu hljómdisks í sumar.
6. Beiðni frá Leikfélagi Hólmavíkur um styrk vegna sýningahalds og ljósakaupa.
7. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um boðun fundar með launanefnd sveitarfélaga á Ísafirði þann 8. febrúar 2008.
8. Beiðni um leyfi til áfengisveitinga fyrir Café Riis og Braggann.
9. Erindi frá Ungmennafélagi Ísland um auglýsingu á umsóknum frá sambandsaðilum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 13. Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2010.
Þá var gengið til dagskrár.
1. Skýrsla sveitarstjóra.
Í skýrslu sveitarstjóra er sagt frá óformlegum fundi á Nauteyri sem haldinn var að beiðni Einars V. Kristjánssonar og Kristjáns Jóhannssonar f.h. Gunnvarar hf. um áframhaldandi starfsemi þorskeldis. Eru uppi áform um að auka eldið en til að leggja út í fjárfestingar þurfa þeir að vera öruggir um að aðstaðan og aðgengi að heitu vatni breytist ekki þó svo jörðin væri seld. Er fyrirtækið tilbúið til að leigja eða kaupa núverandi aðstöðu til að tryggja áframhaldandi rekstrur.
Þá er einnig greint frá skýrslu frá Kristjáni Helgasyni hjá Siglingastofnun um skemmdir á bryggjum í Hólmavík þann 30. desember sl. Telur hann að heildartjón nemi a.m.k. 8,8 millj. kr. en þar af er hlutur Siglingastofnunar 7,5 millj. kr. Einnig er líklegt að Viðlagatrygging bæti tjón á þekju bryggjunnar að einhverju leyti.
2. Fjárhagsáætlun ársins 2008 og þriggja ára áætlun, seinni umræða.
Lögð er fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun ársins 2008 ásamt þriggja ára áætlun. Ein breyting hefur verið gerð milli umræðna þar sem laun og launatengd gjöld vegna stöðu forstöðumanns félagsmiðstöðvarinnar Ozon hækka um 243 þús. kr. á árinu. Fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun með áorðnum breytingum er samþykkt samhljóða.
3. Skipun nýrra fulltrúa í skólanefnd og landbúnaðarnefnd Strandabyggðar og tilnefningu fulltrúa í stjórn Sorpsamlags Strandasýslu.
Skipa þarf tvo nýja aðalmenn og nýjan varamann í landbúnaðarnefnd í stað Ólafar Jónsdóttur, Þórðar Halldórssonar og Guðfinns Finnbogasonar. Þá þarf að tilnefna tvo fulltrúa í stjórn Sorpsamlags Strandasýslu og ákveða hver situr boðaðan aðalfund þann 4. febrúar nk. Gerð er tillaga um að Marta Sigvaldadóttir taki sæti sem aðalmaður í landbúnaðarnefnd og Ragnar Bragason og Torfi Halldórsson verði varamenn í nefndinni. Er tillagan samþykkt samhljóða. Þá er gerð tillaga um að Jóhanna Ragnarsdóttir verði varamaður í skólanefnd. Er tillagan samþykkt samhljóða. Þá er gerð tillaga um Valdemar Guðmundsson og Már Ólafsson í stjórn Sorpsamlags Strandasýslu og Bryndísi Sveinsdóttur sem varamann. Er tillagan samþykkt samhljóða. Þá er samþykkt að Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sitji aðalfund Sorpsamlagsins og fari með umboð sveitarstjórnar.
4. Erindi frá slökkviliðs- og varaslökkviliðsstjóra Strandabyggðar um brunavarnir.
Borist hefur erindi frá slökkviliðs- og varaslökkviliðsstjóra Strandabyggðar dags. 15. maí 2007 um brunavarnir í sveitarfélaginu. Vill sveitarstjórn biðjast velvirðingar á því hversu seint bréfið er tekið fyrir en áréttar þó að brugðist var strax við erindi bréfsins og heimiluð voru kaup á búnaði í samráði við slökkviliðsstjóra fyrir tæpar 600 þúsund kr. á síðasta ári og aftur árið 2008 og að endingu fyrir rúm 300 þús. kr. árið 2009.
5. Beiðni frá kvennakórnum Norðurljósum um styrk vegna útgáfu hljómdisks í sumar.
Borist hefur beiðni dags. 16. janúar sl. frá kvennakórnum Norðurljósum um styrk vegna fyrirhugaðrar útgáfu hljómdisks í sumar. Samþykkt er samhljóða að styrkja kórinn um 50 þús. kr.
6. Beiðni frá Leikfélagi Hólmavíkur um styrk vegna sýningahalds og ljósakaupa.
Borist hefur beiðni dags. 16. janúar sl. frá Leikfélagi Hólmavíkur um styrk að fjárhæð 200 þús. kr. vegna fyrirhugaðrar sýningar á Dýrunum í Hálsaskógi í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík. Samþykkt var samhljóða að verða við erindinu.
7. Erindi frá Fjórðungssambandi Vestfirðinga um boðun fundar með launanefnd sveitarfélaga á Ísafirði þann 8. febrúar 2008.
Borist hefur erindi dags. 24. janúar sl. ásamt boðun fundar með launanefnd sveitarfélaga á Ísafirði 8. febrúar 2008. Lagt fram til kynningar.
8. Beiðni um leyfi til áfengisveitinga fyrir Café Riis og Braggann.
Borist hefur umsókn um leyfi til áfengisveitinga fyrir Café Riis og Braggann. Samþykkt var samhljóða að veita leyfið til eins árs, frá 1. mars 2008 til 28. febrúar 2009.
9. Erindi frá Ungmennafélagi Íslands um auglýsingu á umsóknum frá sambandsaðilum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 13. Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2010.
Borist hefur erindi frá Ungmennafélagi Íslands um auglýsingu á umsóknum frá sambandsaðilum um að taka að sér undirbúning og framkvæmd 13. Unglingalandsmóts UMFÍ árið 2010. Lagt fram til kynningar.
Fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 18:30.