Sveitarstjórnarfundur 1325 í Strandabyggð 9.nóvember 2021
Sveitarstjórnarfundur nr. 1325 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 9. nóvember 2021 í Hnyðju, Höfðagötu 3 á Hólmavík, og hófst fundurinn kl. 16:00. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Jón Gísli Jónsson oddviti, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Ásta Þórisdóttir, Pétur Matthíasson og Jón Jónsson sem jafnframt ritaði fundargerð. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn.
Fundardagskrá er svohljóðandi:
1. Fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, fyrri umræða
2. Útsvarsprósenta ársins 2022
3. Fasteignagjaldaálagning 2022 og reglur um afslætti eldri borgara
4. Gjaldskrár Strandabyggðar 2022
5. Ályktun frá stjórn foreldrafélags leik- og grunnskóla
6. Kynning Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á dreifnámi í Strandabyggð
7. Breyting á samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar
8. Samningur um yfirfærslu Hólmavíkurvegar frá Vegagerð ríkisins til Strandabyggðar
9. Beiðni skipulagsfulltrúa til Umhverfisráðuneytis um undanþágu v. uppbyggingar á frístundasvæði í Strandabyggð
10. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, úttektarskýrsla v. grunnskóla
11. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, fundargerð ársfundar frá 11. október 2021
12. Laugarhóll ehf. boð á hluthafafund 18. nóvember og tilboð í hlut Strandabyggðar
13. Forstöðumannaskýrslur
14. Reykhólahreppur, ósk um umsögn Strandabyggðar v. vinnslutillögu aðalskipulags
15. Fjórðungssamband Vestfjarða, breytingar á samþykktum frá 66. Fjórðungsþingi
16. Fjórðungssamband Vestfjarða, ályktanir frá 65. og 66. Fjórðungsþingi
17. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, fjárhagsáætlun og skipting kostnaðar
18. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð 135. fundar
19. Félagsmálaráðuneyti, tilnefning fulltrúa sveitarfélags vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna
20. Hafnasamband Íslands, fundargerð nr. 438
21. Samband sveitarfélaga, erindi vegna lista um störf sem eru undanþegin verkfallsheimild
22. Samband sveitarfélaga, fundargerð nr. 901 og 902
23. Samband sveitarfélaga, ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólamál
24. Samband sveitarfélaga, verkefni v. innleiðingar hringrásarkerfis
25. Samband sveitarfélaga, boð um þátttöku í námskeiðinu Loftslagsvernd í verki
Oddviti bauð fundarmenn hjartanlega velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðið. Ekki voru gerðar athugasemdir. Oddviti óskar eftir að þrjú mál verði tekin fyrir sem afbrigði á fundinum og var það samþykkt samhljóða.
26. Viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2021.
27. Erindi frá Arnkötlu – lista- og menningarfélagi um Skúlptúraslóð
28. Erindi frá Ísafjarðarbæ um breytingu á aðalskipulagi
Þá var gengið til dagskrár:
1. Fjárhagsáætlun ársins 2022 og 3ja ára áætlun 2023-2025, fyrri umræða
Sveitarstjórn leggur fram eftirfarandi greinargerð um hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í á árinu 2021 og í tenglum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár:
„Greinargerð við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Strandabyggðar fyrir 2022
Strandabyggð hefur með samningi við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirrituðum 30. mars síðastliðnum skuldbundið sig til að gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja að ákvæðum sveitarstjórnarlaga um fjármál sé fylgt í hvívetna. Samkvæmt verkefnaáætlun sem skilað var til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 17. maí var rekstur ársins 2020 skoðaður ofan í kjölinn með það að markmiði að draga fram þá þætti sem gætu leitt til betri niðurstöðu en áætlun gerði ráð fyrir. Meðal annars var leitað svara við þeirri spurningu hvort hagræðingaraðgerðir sem ákveðið var að fara í fyrir ári hefðu skilað sér á árinu 2021. Þegar átta mánuðir voru liðnir af árinu 2021 var ljóst að þær aðgerðir sem áður hafði verið gripið til, myndu ekki duga til að loka áætluðu 53 milljóna króna gati í rekstri sveitarfélagsins á næsta ári. Tekjur sveitarfélagsins eru einfaldlega ekki nægar miðað við þjónustustigið í þessu fámenna sveitarfélagi.
Á síðustu árum hefur verið hvað eftir annað verið gripið til hagræðingar í Strandabyggð, auk þess sem nýframkvæmdir og viðhald hafa verið í algjöru lágmarki. Svigrúm til frekari sparnaðar er því lítið, án þess að það bitni á þjónustu. Áður hafa einnig verið teknar ákvarðanir um skerðingu á þjónustu, til dæmis hvað varðar styttingu á opnunartíma Hólmavíkurhafnar og Íþróttamiðstöðvarinnar á Hólmavík. Samið var um lækkun mötuneytiskostnaðar þegar samningur við Café Riis var endurnýjaður vegna skólaársins 2021-22. Ýmsum nauðsynlegum framkvæmdum hefur verið frestað. Sveitarstjórn afþakkaði launahækkanir sem áttu að verða á árinu sem er að líða og ákveðið var að ráða ekki í starf sveitarstjóra út kjörtímabilið, eftir að sveitarstjóra var sagt upp störfum síðastliðið vor.
Í lögum um opinber fjármál er lögð áhersla á að fjárhagsáætlanir séu byggðar á traustum forsendum um efnahagsmál. Í reglugerð um bókhald, fjárhagsáætlanir og ársreikninga sveitarfélaga segir með beinum hætti í 17. gr. að við vinnslu fjárhagsáætlana skuli sveitarfélög styðjast við þjóðhagsspár Hagstofu Íslands þar sem við á. Samband íslenskra sveitarfélaga gefur árlega út minnisblað til sveitarstjórna og þeirra starfsmanna sveitarfélaga sem vinna að gerð fjárhagsáætlana. Í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 er einnig kveðið á um þann ramma sem unnið skal eftir við undirbúning og afgreiðslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Ákvörðun sem sveitarstjórn tekur um fjárhagsáætlun komandi árs er bindandi fyrir allar fjárhagslegar ráðstafanir sveitarfélagsins eins og kveðið er á um í 63. gr. sveitarstjórnarlaga. Með lögum um opinber fjármál er aukin áhersla lögð á áætlanagerð opinberra aðila til lengri tíma. Þriggja ára áætlun er stefnumörkun sveitarstjórnar út frá bestu fáanlegum heimildum, en felur ekki í sér skuldbindandi fjárheimildir. Þó er mikilvægt að hafa í huga við gerð þriggja ára áætlunar að taka mið af því ef vitað er um breytingu sem áhrif hefur á rekstrartekjur og -gjöld sveitarfélagsins að öðrum kosti munu liðir taka mið af áætlaðri þróun verðlags.
Á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar þann 29. september síðastliðinn var farið yfir og samþykktar hagræðingaraðgerðir til þess að draga enn frekar úr rekstrarútgjöldum með það að markmiði að hagræða til lengri tíma. Samþykktar aðgerðir voru bókaðar sem trúnaðarmál og verður í þessari greinargerð aflétt trúnaði um þær aðgerðir sem þegar eru komnar til framkvæmda.
Hér er lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2022 og þriggja ára áætlun fyrir 2023-2025 og byggir hún á eftirfarandi forsendum.
Almennar forsendur:
Hér að neðan má sjá hvernig Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands lítur út til ársins 2025. Hún gerir ráð fyrir því að hagvöxtur muni aukast á næstu árum, en sú spá byggir m.a. á því að gert er ráð fyrir fjölgun ferðamanna til landsins. Þá gerir hún ráð fyrir að vísitala neysluverðs muni haldast nokkuð stöðug og einungis hækka um 0,1% á síðari hluta áætlunartímabilsins. Þá gerir spáin ráð fyrir því að launavísitala hækki um 5,4% á næsta ári, en fari lækkandi eftir það. Hér er vakin athygli á því að stór hluti kjarasamninga sem sveitarfélög eru aðilar að eru lausir. Þar sem stærsti hluti útgjalda Strandabyggðar eru laun og launatengd gjöld verður að taka það skýrt fram að áætlun áranna 2023-2025 byggir einungis á forsendum Hagstofunnar um þróun launavísitölu. Annar rekstrarkostnaður styðst við þróun á vísitölu neysluverðs.
Staðbundnar forsendur:
Almenn þróun sveitarfélagsins
Fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2022 er unnin undir þeirri kvöð sem samningur sveitarfélagsins við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið segir til um. Þar er m.a. kveðið á um að sveitarfélagið fái utanaðkomandi ráðgjöf og var samið við fyrirtækið Ráðrík ehf. um að greina rekstur sveitarfélagsins og voru ráðgjafarnir einnig innan handar við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2022-2025. Þá liggja einnig til grundvallar þau gögn sem búið var að vinna og drógu fram þá erfiðu fjárhagsstöðu sem steðjar að sveitarfélaginu. Þar má nefna skýrslu KPMG og minnisblað Strandabyggðar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, frá því í desember 2020. Eins og fram kom hér að framan var rekstur sveitarfélagsins fyrir árið 2020 skoðaður ofan í kjölinn sem og rekstur þessa árs. Í þeirri vinnu varð ljóst að grípa þurfti til frekari hagræðingaaðgerða.
Á áætlunartímabilinu 2022-2025 verður í dag ekki séð að miklar breytingar muni eiga sér stað hvað varðar efnahagsskilyrði, uppruna útsvarstekna, atvinnuástand og mannfjöldaþróun í Strandabyggð.
Á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga er aðgengileg tölfræði sem sýnir launagreiðslur í atvinnugreinum eftir sveitarfélögum, þar má sjá hver uppruni útsvarstekna hjá Strandabyggð er. Þar sést glöggt að opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta er langstærsta undirstaða útsvarstekna.
Útsvarstekjur
Samband íslenskra sveitarfélaga gefur út áætlað útsvar fyrir sveitarfélögin í landinu, en í þeirri áætlun hafa útsvarstekjur Strandabyggðar verið undir raunverulegum útsvarstekjum hvers árs. Nú þegar hefur útsvar skv. viðauka I við fjárhagsáætlun 2021 verið hækkað um 17 milljónir króna og er nú áætlað kr. 250.200.000.- Útsvar ársins 2020 var kr. 251.648.000.- Það er óraunhæft að útsvar ársins 2021 verði lægra en á því ári. Því er gert ráð fyrir að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2022 að útsvar verði eftirfarandi:
Áætlað útsvar 2022 m.v. 14,52% álagningu kr. 263.710.000.-
Tekjuaukning vegna hækkunar í 14,95% kr. 7.800.000.-
Samtals áætlað útsvar 2022 kr. 271.510.000.-
Fasteignaskattur
Fasteignamat fasteigna í Strandabyggð hækkar um 7% við álagningu fasteignagjalda. Álagning á A-lið fasteignaskatts (á íbúðarhúsnæði) hækkar úr 0,5% í 0,625%, álagning á C-lið fasteignaskatts (á atvinnuhúsnæði) hækkar úr 1,51% í 1,65%. Álagning B-liðar (á opinberar byggingar) verður óbreytt 1,32% þar sem heimildir varðandi þann lið eru þegar fullnýttar.
Áætlaður fasteignaskattur án breytinga kr. 38.416.210.-
Tekjuaukning vegna hækkunar á álagningu kr. 6.807.138.-
Samtals áætlaður fasteignaskattur kr. 45.223.348.-
Framlög Jöfnunarsjóðs
Strandabyggð er háð framlögum frá Jöfnunarsjóði, framlög sjóðsins hafa verið að jafnaði 45-50% af tekjum sveitarfélagsins þegar þróun þeirra á tíu ára tímabili árin 2010-2020 er skoðuð. Áætluð framlög Jöfnunarsjóðs til Strandabyggðar á árinu 2022 eru áætluð kr. 205.500.000.- til viðbótar kemur framlag Jöfnunarsjóðs vegna hækkunar á fasteignaskatti um kr. 6.360.000.-
Samtals áætluð framlög Jöfnunarsjóðs eru kr. 211.860.000.-
Í áætlun sjóðsins er gert ráð fyrir fólksfækkunarframlagi upp á rúmar 7 milljónir króna sú tala er reiknuð út frá íbúafjölda þann 1. júlí síðastliðinn. Endanlegur útreikningur á þessu framlagi miðast aftur á móti við íbúafjölda þann 1. janúar 2022. Því er ekki gert ráð fyrir því í áætlun ársins 2022.
Aðrar tekjur
Gjaldskrár taka almennt breytingum og eru uppreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs, með tveim undantekningum. Á aukafundi sveitarstjórnar þann 29. september síðastliðinn var ákveðið að frá 1. janúar 2022 verði rukkað fyrir máltíðir í grunnskóladeild samkvæmt mánaðargjaldi en ekki per máltíð eins og verið hefur og að gjaldskrá tónskóla verði endurskoðuð og hækkuð.
Launakostnaður
Það er staðreynd að meira en helmingur útgjalda sveitarfélaga eru laun og launatengd gjöld og er Strandabyggð þar engin undantekning.
Fræðslumál
Það er einnig staðreynd að rekstur grunn- og leikskóla er stærsta einstaka verkefni sveitarfélaganna, því verður að vanda vel til verka við mat á þróun og breytingum í rekstri þeirra. Grunn-, leik- og tónskóli Strandabyggðar var sameinaður í einn rekstur í ársbyrjun 2020 og því komin reynsla á fyrirkomulag samreksturs. Sú krafa sem á sveitarfélagið er lögð með samningi við Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gerir að verkum að velta þarf við öllum steinum og eins og greint var frá hér í byrjun er launakostnaður stærsti útgjaldaliður Strandabyggðar. Því samþykkti sveitarstjórn að fá Ásgarð til að gera úttekt á starfsmannaþörf í sameinuðum skóla. Það var gert með það að markmiði að lögbundin þjónusta grunnskóla og þjónusta á leikskóla yrði ekki skert. Úttektin leiddi í ljós að mönnun við kennslu í grunnskóladeild væri í samræmi við þörf, en hægt væri að fækka stöðugildum annarra starfa við skólann og lækka stjórnunarhlutfall.
Á grundvelli tillagna frá ráðgjöfum Ásgarðs og Ráðrík ehf ákvað sveitarstjórn á aukafundi sínum þann 29. september síðastliðinn að hagræða í fræðslumálum og rekstri sameinaðs grunn-, leik- og tónskóla Strandabyggðar. Tekin var ákvörðun um að minnka stjórnunarhlutfall innan skólans og leggja niður stöður aðstoðarskólastjóra í grunnskóla, leikskóla og tónskóla. Í stað þeirra eru nú deildarstjórar yfir sérkennslu, leikskóla og tónskóla. Varðandi stöðugildi annars starfsfólks varð niðurstaðan sú að stöðugildum fækkar samtals um tæplega þrjú.
Íþrótta- og æskulýðsmál
Á aukafundi sveitarstjórnar þann 29. september síðastliðinn var ákveðið að gera þá skipulagsbreytingu að sameina störf forstöðumanns íþróttamiðstöðvar og tómstundarfulltrúa frá og með 1. febrúar 2022. Samningur við tómstundafulltrúa rann út í október og var ekki endurnýjaður, en ákveðið að semja við hann um að gegna áfram starfinu í 25% stöðu til áramóta. Nýtt starf verður auglýst.
Samtals áætluð lækkun launakostnaðar nemur kr. 24.500.000.-
Félagsþjónusta
Sveitarstjórn hefur óskað eftir endurskoðun á samstarfssamningi sveitarfélaganna Árneshrepps, Kaldrananeshrepps, Strandabyggðar og Reykhólahrepps um skipan, rekstur og starfsemi sameiginlegrar félagsmálanefndar.
Brunavarnir DSR bs og Samningur um skipulags- og byggingafulltrúa.
Verið er að fara yfir fyrirkomulag og skipulag brunavarna og slökkviliðs til framtíðar í samvinnu þau sveitarfélög sem standa að byggðasamlaginu. Ljóst er að þörf er á ýmsum umbótum í þessum málaflokki frá því sem verið hefur. Einnig er samstarf sveitarfélaganna varðandi skipulag- og byggingarmál til skoðunar.
Sorpsamlag Strandasýslu ehf
Stjórn Sorpsamlags Strandasýslu ehf, hefur til skoðunar framtíðarskipan sorpmála. Sú vinna tekur tíma og ljóst er að starfsemi Sorpsamlagsins mun haldast óbreytt fyrst um sinn. Það er ljóst að einn starfsmaður mun ekki geta sinnt þeim verkefnum sem Sorpsamlagið þarf að leysa af hendi. Því munu starfsmenn áhaldahúss Strandabyggðar ganga í þau störf sem þarf til að halda þjónustustiginu óbreyttu, á meðan unnið er að framtíðarskipan mála.
Þjónustu- og styrktarsamningar
Á aukafundi sveitarstjórnar þann 29. september síðastliðinn var ákveðið að segja upp þjónustusamningi við Tröppu og gera nýjan samning með þrengri fjárhagsramma. Þá var ákveðið að virkja ákvæði í samningum um beina fjárstyrki til menningarstofnana, íþrótta- og félagasamtaka og segja þeim upp með þriggja mánaða fyrirvara. Uppsögnin tekur gildi um áramótin, en félögunum hefur verið boðið að gera nýjan samning til eins árs með lægri upphæðum.
Framkvæmdir
Ákvörðun um framkvæmdir á árinu 2022 mun verða tekin við 2. umræðu um fjárhagsáætlun. Þá mun væntanlega einnig liggja fyrir hvort framhald verður á sérstökum stuðningi ráðuneytisins við sveitarfélagið.
Að lokum
Ljóst er að rekstrargrundvöllur fámennra sveitarfélaga þar sem gerðar eru sjálfsagðar kröfur um góða þjónustu er mjög erfiður. Stjórnvöld verða að grípa til sértækra aðgerða og uppbyggingar sem hefur jákvæð áhrif til lengri tíma, aðgerða sem hafa í för með sér fjölgun starfa og innspýtingu í atvinnulíf á svæðum sem eiga í vök að verjast. Nauðsynlegt er að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð með þetta í huga. Það er bæði eðlileg og sjálfsögð krafa íbúa sveitarfélagsins og sveitarstjórnar Strandabyggðar að sveitarfélaginu verði gert mögulegt að ná vopnum sínum til framtíðar.“
Fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2022 var lögð fram og kynnt af Salbjörgu Engilbertsdóttur skrifstofustjóra. Sveitarstjórn ræddi áætlunina og samþykkti samhljóða að vísa henni til seinni umræðu. Þriggja ára fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árin 2023-2025 lögð fram og rædd. Eftir umræður samþykkti sveitarstjórn samhljóða að vísa áætluninni til seinni umræðu.
2. Útsvarsprósenta ársins 2022
Samþykkt var á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 29. september síðastliðinn að útsvarsprósenta ársins 2022 verði 14,95%.
3. Fasteignagjaldaálagning 2022 og reglur um afslætti eldri borgara
Samþykkt var á aukafundi sveitarstjórnar Strandabyggðar 29. september síðastliðinn að álagningarprósenta A-liðar fasteignaskatts yrði 0,625%, B-liðar yrði 1,32% og álagningarprósenta á C-lið yrði 1,65%. Lagt er til að viðmiðunarupphæðir um afslátt fyrir eldri borgara verði hækkaðar um 2,5%. Samþykkt samhljóða.
4. Gjaldskrár Strandabyggðar 2022
Gjaldskrár fræðslustofnana, bókasafns, íþróttamiðstöðvar, tjaldsvæðis og áhaldahúss Strandabyggðar fyrir árið 2022 lagðar fram til samþykktar. Einnig gjaldskrár fyrir skrifstofuþjónustu og húsaleigu á samkomuhúsum og fundarsölum. Gjaldskrár eru að jafnaði hækkaðar um 2,5%. Gjaldskrá tónskóla hækkar sérstaklega og verður hún kynnt nánar fyrir foreldrum skólabarna og birt á vef sveitarfélagsins. Gjaldskrárnar samþykktar samhljóða.
5. Ályktun frá stjórn foreldrafélags leik- og grunnskóla
Lögð er fram ályktun dags. 1. nóvember frá stjórn sameinaðs foreldrafélags leik- og grunnskóla. Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið. Umfang tónlistarskólans er minna eftir hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í, en áfram er stefnt að öflugri starfsemi skólans. Eftir breytingarnar er boðið upp á gjaldfrjálsa hóptíma fyrir þrjá yngstu bekkina, ásamt elsta árgang í leikskóla. Hins vegar verða ekki í boði einkatímar fyrir börn í yngstu bekkjum grunnskólans.
6. Kynning Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra á dreifnámi í Strandabyggð
Tekið fyrir bréf frá Atla Má Atlasyni, dagsett 1. nóvember 2021, um kynningu á starfinu í dreifnáminu. Sett er fram sú hugmynd að bjóða einnig fólki úr nærliggjandi sveitarfélögum á slíka kynningu. Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið og tekur vel í hugmyndina og vill gjarnan taka þátt í slíkum viðburði í samvinnu við umsjónarmann dreifnámsins og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
7. Breyting á samþykktum um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar
Lögð fram svohljóðandi breytingatillaga á Samþykkt um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar, til fyrri umræðu. Lagt er til að 14. grein hljóði svo:
Tillagan rædd og samþykkt samhljóða að vísa henni til annarrar umræðu.
8. Samningur um yfirfærslu Hólmavíkurvegar frá Vegagerð ríkisins til Strandabyggðar
Lögð eru fram drög að samningi milli Vegagerðarinnar og Strandabyggðar um yfirfærslu Hólmavíkurvegar sem lögð voru fram á fundi þessara aðila 3. nóv. 2021. Sveitarstjórn samþykkir að ganga til samninga og felur oddvita að ganga frá málinu. Sveitarstjórn óskar eftir því við Vegagerðina að löguð verði ásýnd rofvarnarinnar sem þegar er komin við Hafnarbraut. Einnig er óskað eftir að gengið verði frá rofvörn milli Furuvalla og Ásgarðs.
9. Beiðni skipulagsfulltrúa til Umhverfisráðuneytis um undanþágu v. uppbyggingar á frístundasvæði í Strandabyggð
Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa Strandabyggðar dags. 28. september til Umhverfisráðuneytisins, þar sem óskað er eftir undanþágu frá 5.3.2.14. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 varðandi fjarlægð byggingarreits frá sjó. Umrætt erindi var sent til Umhverfisstofnunar þar sem fyrirhugað frístundahús í Skeljavík er innan við 50 metra frá sjávarmáli.
Sveitarstjórn er meðvituð um að fyrirhuguð bygging er innan við 50 metra frá sjávarmáli. Því er þörf á undanþágu vegna málsins frá Umhverfisráðuneytinu. Bréf skipulagsfulltrúa er í samræmi við álit og ákvörðun sveitarstjórnar sem gerir innhald þess að sínu og skilgreinist sem umsögn hennar til handa Umhverfisráðuneytinu í málinu. Samþykkt með fjórum atkvæðum, Ásta Þórisdóttir situr hjá.
Sveitarstjórn tekur fram að gæta þurfi að því að nægt pláss sé fyrir tveggja metra breiðan göngustíg með sjónum, utan lóðar, auk þess sem gert sé ráð fyrir akvegi að húsinu.
10. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, úttektarskýrsla v. grunnskóla
Úttektarskýrsla vegna grunnskóla frá október 2021 lögð fram. Sveitarstjórn mun reyna að bregðast við eftir fremsta megni og gera nauðsynlegar úrbætur sem fyrst.
11. Brunavarnir Dala, Reykhóla- og Stranda, fundargerð ársfundar frá 11. október 2021
Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir fundargerð ársfundar Brunavarna Dala, Reykhóla- og Stranda frá 11. október 2021. Í fundargerðinni kemur fram að formennska í byggðasamlaginu verður næsta ár í Dalabyggð.
12. Laugarhóll ehf. boð á hluthafafund 18. nóvember og tilboð í hlut Strandabyggðar
Lagt fram boð dags. 3. nóvember á hluthafafund í Laugarhóli ehf. sem haldinn verður 18. nóvember næstkomandi. Einnig tekið fyrir erindi frá fyrirtækinu Remote Iceland ehf með formlegu tilboði um kaup á eignarhlut Strandabyggðar í Laugarhóli ehf. Sveitarstjórn samþykkir að ganga til samninga við forsvarsmenn fyrirtækisins. Oddvita er falið að ganga frá málinu fyrir hönd sveitarfélagsins.
13. Forstöðumannaskýrslur
Forstöðumannaskýrslur lagðar fram til kynningar. Sveitarstjórn þakkar fyrir skýrslurnar.
14. Reykhólahreppur, ósk um umsögn Strandabyggðar v. vinnslutillögu aðalskipulags
Reykhólahreppur óskar eftir umsögn Strandabyggðar vegna vinnslutillögu aðalskipulags Reykhólahrepps 2021-2033, með bréfi dags. 20. október 2021. Sveitarstjórn Strandabyggðar gerir ekki athugasemd við tillöguna.
15. Fjórðungssamband Vestfjarða, breytingar á samþykktum frá 66. Fjórðungsþingi
Breytingar á samþykktum Fjórðungssambands Vestfirðinga, frá 66. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Ísafirði 22.-23. október síðastliðinn. Lagðar fram til kynningar.
16. Fjórðungssamband Vestfjarða, ályktanir frá 65. og 66. Fjórðungsþingi
Ályktanir frá 65. og 66. Fjórðungsþingi lagðar fram til kynningar.
17. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, fjárhagsáætlun og skipting kostnaðar
Lögð fram fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða fyrir árið 2022. Fjárhagsætlunin fyrir árið 2022 og skipting kostnaðar er samþykkt. Ákvörðun um þátttöku í verkefninu Hreinir Vestfirðir er frestað, en óskað eftir frekari útlistun á verkefninu, skipulagi og ávinningi, áður en ákvörðun um þátttöku er tekin. Lítið fjárhagslegt svigrúm er hjá sveitarfélaginu til að bæta við verkefnum. Samþykkt samhljóða.
18. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð 135. Fundar
Fundargerð 135. fundar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða frá 21. okt. 2021 lögð fram til kynningar.
19. Félagsmálaráðuneyti, tilnefning fulltrúa sveitarfélags vegna innleiðingar laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna
Verkefni um innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsælda barna kynnt. Sveitarstjórn samþykkir að leita eftir því við félagsmálastjóra að verða tengiliður sveitarfélagsins við verkefnið.
20. Hafnasamband Íslands, fundargerð nr. 438
Fundargerð frá 438. fundi Hafnarsambands Íslands, frá 15. okt. 2021, lögð fram til kynningar.
21. Samband sveitarfélaga erindi vegna lista um störf sem eru undanþegin verkfallsheimild
Sveitarstjórn felur oddvita og skrifstofustjóra að útbúa lista um störf í sveitarfélaginu sem undanþegin eru verkfallsheimild, í samræmi við lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, og tilkynna um hann til viðeigandi aðila.
22. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 901 og 902
Fundargerðir frá fundum 901 og 902 hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga lagðar fram til kynningar.
23. Samband sveitarfélaga, ályktun bæjarráðs Árborgar um leikskólamál
Lagt fram til kynningar. Sveitarstjórn tekur eindregið undir ályktunina.
24. Samband sveitarfélaga, verkefni v. innleiðingar hringrásarkerfis
Lagt fram til kynningar.
25. Samband sveitarfélaga, boð um þátttöku í námskeiðinu Loftslagsvernd í verki
Boð um þátttöku í námskeiðinu Loftslagsvernd í verki lagt fram til kynningar. Samþykkt að stefna að því að halda slíkt námskeið í Strandabyggð og bjóða kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins sérstaklega.
26. Viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2021.
Tekinn fyrir viðauki III við fjárhagsáætlun Strandabyggðar fyrir árið 2021.
Tekjur:
a) Samkvæmt endurskoðaðri áætlun fyrir útgjaldajöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs hefur framlag til Strandabyggðar 2021 hækkað úr kr. 88.350.000.- í kr. 104.941.017.- Þessi aukning kemur m.a. til vegna umfangsmikilla aðgerða sem ríkið greip til vegna heimsfaraldursins. Áætlun hækkar því um kr. 16.591.017.-
b) Jöfnunarsjóður hefur úthlutað tekjujöfnunarframlagi sem var ekki á áætlun 2021 að upphæð kr. 6.836.868. -
c) Endanleg úthlutun á grunnskólaframlagi eru kr. 46.181.346.- en í er í áætlun Strandabyggðar kr. 47.200.000.- Áætlun breytist því og lækkar um 1.018.654.-
d) Í upphaflegri áætlun Strandabyggðar var gert ráð fyrir framlagi frá Byggðastofnun v. Brothættra byggða til Strandabyggðar kr. 7.000.000.- Þetta var á misskilningi byggt og tekjur lækka því um 7 milljónir.
Samtals aukning tekna er því kr. 15.409.231.-
Gjöld:
a) Félagsmálaráðuneytið greiddi til sveitarfélagsins á árinu 2020 kr. 900.000 sem var framlag v. íþrótta- og tómstundaiðkunar skv. ákveðnum skilyrðum vegna Covid-19. Alls voru greiddir út tómstundastyrkir fyrir kr. 213.000.- á árinu 2021 til foreldra barna í sveitarfélaginu. Það sem eftir stendur af styrknum skal nýttur til að auka gæði íþrótta-og tómstundastarfs í Strandabyggð. Sveitarstjórn ráðstafar eftirstöðvum styrksins til tómstundastarfs og sumarnámskeiða á árinu 2021 og er um millifærslu milli deilda að ræða.
b) Í áætlun 2021 var gert ráð fyrir að taka lán fyrir taprekstri og greiða upp yfirdrátt á bankareikningi. Lánið hefur ekki fengist afgreitt og er gert ráð fyrir auknum vaxtakostnaði og hækkar áætlun úr 1.000.000.- í 3.000.000.- eða um 2.000.000.-
c) Upphæð vaxtagreiðslna í eignasjóði frá upphaflegri áætlun breytist um kr. 7.000.000.- til lækkunar, vegna endurfjármögnunar lána.
d) Ráðgjafakostnaður vegna reksturs sveitarfélagsins hækkar um kr. 2.000.000.-
e) Launakostnaður á fræðslusviði verður hærri en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun. Bætt er við 18.000.000.- í aukinn launakostnað.
f) Áætlun Félagsþjónustu Stranda- og Reykhólahrepps fyrir 2021 hefur verið endurskoðuð og lækkar framlag Strandabyggðar um kr. 7.000.000.-
Samtals aukning gjalda er því kr. 8.000.000.-
Framkvæmdir:
a) Áætlaðar framkvæmdir við inngang við kjallara í félagsheimili frestast til ársins 2022. Framkvæmdafé að upphæð kr. 1.000.000.- færist til framkvæmda við Íþróttamiðstöð.
b) Áætlaðar framkvæmdir við leikskólalóð lækka, en framkvæmdir við skólalóð verða hærri en áætlað er. Færast eftirstöðvar framkvæmdafjár á framkvæmdir við grunnskóla, kr. 1.000.000.-
Heildaráhrif af Viðauka III er því jákvæð um kr. 7.409.231.- Gert er ráð fyrir að tap á rekstri sveitarfélagsins á árinu 2021 verði þá kr. 4.490.000.- samtals í A og B hluta. Í upphaflegri áætlun sem samþykkt var fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir tapi að upphæð kr. 63.535.000.-
27. Erindi frá Arnkötlu – lista- og menningarfélagi um Skúlptúraslóð við Hólmavík
Tekið er fyrir erindi frá Arnkötlu – lista og menningarfélagi, dags. 4. nóv., um Skúlptúraslóð við Hólmavík. Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og vísar því til Umhverfis- og skipulagsnefndar hvað varðar staðsetningar skúlptúranna. Oddvita falið að ræða við félagið um þátttöku sveitarfélagsins.
28. Erindi frá Ísafjarðarbæ um breytingar á aðalskipulagi
Lagt fram erindi frá Ísafjarðarbæ þar sem óskað er eftir umsögn um breytingar á aðalskipulagi á Suðurtanga. Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við skipulagið.
Fundargerðin yfirfarin og samþykkt.
Ekki fleira tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:18.
Jón Gísli Jónsson
Guðfinna Lára Hávarðardóttir
Ásta Þórisdóttir
Pétur Matthíasson
Jón Jónsson