A A A

Valmynd

Fréttir

Hamingjudagar 2016 eru settir og Menningarverðlaun eru afhend

| 01. júlí 2016

Í dag voru opnaðar þrjár listasýningar sem verða opnar alla helgina.

Náttúrubarnið Dagrún Ósk Jónsdóttir opnaði ljósmyndasýninguna Náttúrubörn á Ströndum við yndislega stund í matsal KSH og boðið var upp á jurtaseyði. Fallegar ljósmyndir sem er vert að skoða.
Jón Halldórsson opnaði ljósmynda- og sölusýninguna sína í Esso N1 skálanum. Glæsilegar myndir og ég hvet alla til að næla sér í eina.
Andrea Kristín Jónsdóttir -AnKrJó- opnaði listaverkasýninguna sína Dillur í Hnyðju með mörgum skemmtilegum orðum. Litríkar og glaðlegar myndir sem geta veitt öllum hamingju.
Salbjörg Engilbertsdóttir setti Hamingjudaga 2016 og veitti Menningarverðlaun Strandabyggðar með miklum sóma og hlýjum orðum.
Sigríður Drífa Þórólfsdóttir og Birkir Þór Stefánsson voru veitt sérstök viðurkenning vegna menningarmála í Strandabyggð. 

Sigríður Drífa og Birkir hafa með einstakri elju varðveitt menningarminjar gamla kirkjugarðsins í Tröllatungu. Starf þeirra við umhirðu og fegrun kirkjugarðsins hefur orðið til þess að hann er staðarprýði og Ströndum og Strandamönnum til sóma. Útimessa hefur verið í garðinum síðustu ár á Hamingjudögum sem hefur gefið öllum kost á að njóta svæðisins og eiga þar kyrrðar- og friðarstund.
Sauðfjársetrið á Ströndum hlaut Menningarverðlaun Strandabyggðar vegna öflugrar aðkomu að menningu í sveitarfélaginu, vegna sýningahalds, ótal menningartengdra viðburða og sérstaklega fyrir verkefnið Náttúrbarnaskólinn á Ströndum sem er einstakt á heimsvísu en hann er byggður á hugmyndafræði um náttúrutúlkun og menntatengda ferðaþjónustu. Sauðfjársetur á Ströndum hefur verið sérstaklega öflugt síðasta árið og hefur verið eftir því tekið víða. Safnið var til dæmis í hópi þeirra tíu framúrskarandi menningarverkefni á á landsbyggðinni sem voru tilnefnd til verðlaunanna Eyrarrósarinnar á þessu ári. Aðstandendur Sauðfjárseturs á Ströndum byggja á þeirri hugmyndafræði að söfn og menningarstofnanir eigi að vera virkir þátttakendur í því samfélagi sem þær eru hluti af. Í tilviki Sauðfjársetursins hefur heppnast afar vel að byggja á þeim grunni.

Þessa frétt vil ég ljúka með sömu orðum og Salbjörg endaði ræðu sína og það er með Hamingjusamþykktinni okkar:

Hamingjan er eitt af leiðarljósum í áframhaldandi uppbyggingu í Strandabyggð. Lífsgæði íbúa á Ströndum skipta miklu máli og þau þarf að efla með fjölbreyttum ráðum.


Ræktum hamingjuna innra með okkur og stuðlum að aukinni gleði og lífsfyllingu hjá okkar nánustu, vinum og samferðamönnum, með orðum okkar og gjörðum. Munum að bros í amstri hversdagsins getur gert kraftaverk, það getur dimmu í dagsljós breytt. Hið sama gildir um hrós og þakklæti fyrir það sem vel er gert. Jákvæð og uppbyggileg hvatning til góðra verka er varða sem vísar veginn í átt að betra samfélagi.
 

Virk þátttaka hvers einstaklings í samfélaginu er keppikefli og miklu skiptir að jákvæðni, virðing og samkennd einkenni mannlíf á Ströndum. Íhugum öll, hvert og eitt okkar, með hvaða hætti við getum lagt okkar af mörkum.
 

Gleðjumst saman, höfum hamingjuna í hávegum. Gerum alla daga að hamingjudögum.


Til hamingju við með fallegu hátíðina okkar!

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón