A A A

Valmynd

Fréttir

Ham(l)ist á Hamingjudögum

| 08. maí 2015
Hljómsveitin Rythmatik kom fram á Hamingjudögum í fyrra undir svipuðum formerkjum og sigruðu músíktilraunir í ár.
Hljómsveitin Rythmatik kom fram á Hamingjudögum í fyrra undir svipuðum formerkjum og sigruðu músíktilraunir í ár.
Ungmennaráð Strandabyggðar og Fjósið, ungmennahús, standa fyrir nýstárlegu og spennandi verkefni á Hamingjudögum í sumar.

Um er að ræða vinnusmiðju ungs listafólks og skemmtikrafta á Vestfjörðum og tækifæri fyrir viðkomandi að koma fram á Hamingjudögum.

Óskað er eftir umsóknum ungra einstaklinga sem hafa áhuga á að koma list sinni eða afþreygingu á framfæri. Hér er allt opið; tónlist, leiklist, dans, myndlist, leikir, ævintýri og hvað sem er. Eina skilyrðið er að þú hafir eitthvað fram að færa og hafir áhuga á að vinna með ungu fólki sem hefur það líka.

Ungmennaráð Strandabyggðar tekur við umsóknum þar sem fram koma sýnishorn og/eða nákvæmar skýringar á því sem þú/þið hafið áhuga á að framkvæma. Farið verður yfir umsóknirnar og þau atriði eða uppákomur valdar sem þykja hafa mest fram að færa, hafa samhljóm við hátíðina og auka fjölbreytnina. En að hámarki fjögur atriði fá að taka þátt að þessu sinni.

Þátttakendur fá akstursstyrk og frítt fæði og uppihald meðan á hátíðinni stendur auk þess að fá tækifæri til að koma fram og að starfa með ungu listafólki á Vestfjörðum í vinnusmiðjunni. Verið er að fjármagna verkefnið og ef að styrkveitingar fást mun viðkomandi vera greidd laun fyrir sitt framlag.

Reglurnar eru einfaldar: Þú/þið teljið ykkur vera ung, búið á Vestfjörðum og hafið áhuga á að vinna með Vestfirðingum sem eru að gera spennandi hluti sem og að fá tækifæri til að taka virkan þátt með ykkar framlagi á Hamingjudögum.

Umsóknir berist á netfangið tomstundafulltrui@strandabyggd.is í síðasta lagi miðvikudaginn 20. maí.

Facebook

Hamingjumyndir

Lagt af stað niður í Hvalsárdal.

(Ljósm. og © Gunnlaugur Júlíusson)
Vefumsjón