A A A

Valmynd

Fréttir

Hverfisfundir

| 26. maí 2014
Stóru dagarnir nálgast óðum. Í kvöld, mánudaginn 26. maí, verða haldnir hverfisfundir um Hamingjudagana í öllum hverfum nema því Gula, þar sem sauðburður á enn allan hug flestra íbúa.

Hafist verður handa með fundi Bláa hverfisins í Hnyðju kl. 17:00, því næst fundar Appelsínugula hverfið í Grunnskólanum kl. 18:00 og kl. 19:00 fundar Rauða hverfið í Félagsheimilinu. Fyrir nýgræðinga í hamingjufræðum er rétt að taka fram að Bláa hverfið er gamla þorpið frá Klifi (fyrir innan Vigtarskúr og Kirkju), Appelsínugula hverfið nær frá Klifi og út að Sýslumannshalla, Rauða hverfið nær frá Sýslumannshalla og út að vegamótum og loks tilheyrir dreifbýlið Gula hverfinu.

Sérstök athygli er vakin á því að fyrirtæki tilheyra einnig hverfum og eru fulltrúar þeirra hvattir sérstaklega til að mæta, enda setja þau svip á nærumhverfi sitt.

Tómstundafulltrúi og hamingjustýra mætir á fundina, svarar spurningum, hlýðir skipunum, tekur við hugmyndum og keyrir upp almenna sköpunargleði, stuð, stemmningu og ekki síst hamingju. Lætur sig svo hverfa á næsta fund og lætur hverfið um að ráða ráðum sínum.

Allt er þetta gert í samræmi við markmið hátíðarinnar og margfræga Hamingjusamþykkt sem er að finna hér á heimasíðunni, sem og í anda Hamingjukönnunar sem lögð var fyrir íbúa sveitarfélagsins í haust. Könnunin leiddi í ljós vilja íbúa til að halda hátíðinni að miklu leyti óbreyttri en leggja meira upp úr samstöðu og vellíðan íbúana. Því hefur verið ákveðið að hætta með skreytinga- og hverfiskeppnir og stofna frekar til viðurkenninga fyrir framtak í fegrun umhverfisins.

Enn fremur verður hverfisdagskrá, sem skipulögð verður á hverfisfundunum, í hverju hverfi fyrir sig á föstudagskvöldi. Fleiri breytingar hafa verið gerðar á dagskrá Hamingjudaga en þær verða kynntar á fundunum.

Endilega nýtið þetta tækifæri til að hafa á áhrif. Öll velkomin.

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón