A A A

Valmynd

Fréttir

Jákvæð sálfræði og speki eldri borgara

| 08. júní 2017
Ingrid Kuhlman, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun, mætir á Hamingjudaga þetta árið og stendur fyrir kvikmyndasýningu auk þess að halda fyrirlestur. Ingrid er með diplóma á meistarastigi í jákvæðri sálfræði og diplóma í prektísku kvikmyndanámi.


Að vera eða ekki vera hamingjusamur (klukkustunda fyrirlestur)

Gífurlegur áhugi er kviknaður á hamingjunni en útgáfa bóka um hamingju hefur áttatíu faldast á aðeins átta árum, úr 50 í 4000. Vinsælustu námskeiðin í Harvard háskóla eru um jákvæða sálfræði, og að minnsta kosti 100 aðrir háskólar í heiminum bjóða sambærilegt nám. Það er semsagt allt að verða vitlaust yfir hamingjunni. Í söngtexta segir Megas fólki að smæla framan í heiminn og þá muni heimurinn smæla framan í það en hamingjan felst þó ekki í því. Hún felst ekki heldur í því að hætta að taka geðvonskuköst yfir tengdamömmu og bensínverðinu né heldur að vera gersneyddur gagnrýninni hugsun og vera bara happý með aðgerðir ríkisstjórnarinnar eða IceSave svo eitthvað sé nefnt.

En hvernig á að skilgreina hamingjuna? Gagnlegasta skilgreiningin – og sú sem taugasérfræðingar, geðlæknar, jákvæðnisálfræðingar og búddamunkar geta sameinast um – er meira í áttina við ánægju eða það að vera sáttur en „hamingjusamur“ í þeim skilningi að maður springi af kæti. Hún hefur ákveðna dýpt og yfirvegun. Hún lýtur að því að lifa innihaldsríku lífi þar sem maður notar hæfileika sína og tíma - útpældu lífi sem hefur tilgang. Hamingjan nær hámarki þegar maður upplifir sig einnig sem hluta af samfélagi. Og þegar maður tekst á við gremju sína og vandamál með þokka. Hamingja innifelur viljann til að læra og dafna og vaxa, þó að það þýði stundum óþægindi og kosti sjálfsaga sem Íslendingar eru kannski ekki flinkastir í. Í fyrirlestrinum verður farið í það sem rannsóknir hafa fært okkur um hamingjuna og dregið fram hvað megi gera svo öðlast megi þetta eftirsótta hugarástand.


Leitin að hamingjunni – heimildarmynd eftir Ingrid Kuhlman (viðtöl við eldri borgara)

Hugtakið hamingja hefur verið viðfangsefni heimspekinga í aldaraðir. Fræðimenn á sviði félagsvísinda hafa lagt sig fram í seinni tíð til að finna hina sönnu uppskrift að hamingjuríku lífi. Hamingjan hefur einnig verið mörgum söngskáldum og rithöfundum hugleikin og verið ljóðrænt viðfangsefni söngva, ljóða og skáldsagna. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði hafa sýnt að fólk upplifir oft mestu hamingjuna eftir að það hættir að vinna. Við getum því lært mikið af eldri borgurum um það hvernig eigi að lifa hamingjusömu og ánægjulegu lífi.

Í heimildarmyndinni var rætt við 13 einstaklinga á aldrinum 70-91 árs um það hvernig þeir hafa skapað sér hamingjuríka tilveru. Viðtölin færa okkur heillandi innsýn í það sem viðmælendur gera í dag til að auka vellíðan sína. Myndin er 33 mínútur að lengd.

Facebook

Hamingjumyndir

Vefumsjón