Verlaunabækur í Hnallþóruverðlaun
Bókaútgáfan Salka var stofnuð í Reykjavík vorið 2000 og hefur síðan þá gefið út fjölda bóka um allt milli himins og jarðar. Hjá útgáfunni starfa Anna Lea Friðriksdóttir og Dögg Hjaltalín en þær eru jafnframt eigendur félagsins.
Meðal bóka sem komið hafa út hjá Sölku síðustu misseri eru Fjallvegahlaup eftir Stefán Gíslason, Kökugleði Evu eftir Evu Laufeyju Kjaran Hermannsdóttur, Stóra bókin um villibráð eftir Úlfar Finnbjörnsson og Ljóðasafn Tómasar Guðmundssonar eftir stórskáldið ástsæla. Það er óhætt að segja að útgáfan sé fjölbreytt en Salka gefur einnig út skáldsögur, barnabækur og hand- og fræðibækur af ýmsu tagi.
Nýverið var kunngjört að tvær bækur Sölku hefðu verið valdar í hópi bestu matreiðslubóka í heimi. Þær eru Eldum sjálf og Kökugleði Evu og tóku útgefendurnir við viðurkenningu þess efni á hinni alþjóðlegu Gourmand-verðlaunahátíð sem fram fór í Yantai í Kína þetta árið.
Bókaútgáfan Salka mun veita verðlaun í Hnallþórukeppni Hamingjudaga þetta árið. Jafnframt mun útgáfan vera með sölubás á Hamingjumarkaðnum og standa fyrir bókakynningu ásamt Stefáni Gíslasyni um bók hans, Fjallavegahlaup.