A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd - 16. apríl 2012

Fundur var haldinn í Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 16. apríl 2012 á skrifstofu Strandabyggðar. Á fundinn sem hófst kl. 17:00 voru boðaðir bæði aðalmenn og varamenn í nefndinni. Fundinn sátu Jón Jónsson formaður, Rúna Stína Ásgrímsdóttir, Jón Vilhjálmur Sigurðsson, Matthías Lýðsson og Árný Huld Haraldsdóttir aðalmenn. Einnig Andrea Marta Vigfúsdóttir og Kristín S. Einarsdóttir varamenn. Forföll boðaði Ragnheiður Birna Guðmundsdóttir varamaður. Jón Jónsson ritaði fundargerð.

Á dagskrá fundarins voru eftirfarandi mál:

Sigurður Marinó Þorvaldson mætti nú á fundinn og var samþykkt að taka fyrst fyrir mál 4, 5 og 7 þar sem hann er mættur á fundinn til að gefa upplýsingar um þessi mál. Sigurður vék af fundi að þeim málum loknum.

1. Kosningar varaformanns og ritara
Fram kom tillaga um að Rúna Stína Ásgrímsdóttir yrði varaformaður nefndarinnar og Árný Huld Haraldsdóttir ritari. Samþykkt samhljóða.


2. Erindisbréf fyrir Atvinnu-, dreifbýlis- og hafnarnefnd
Rætt um erindisbréf, verkefni nefndarinnar og afmörkun á starfi hennar. Fram kom tillaga um að formaður og varaformaður geri uppkast að erindisbréfi fyrir nefndina og verði það lagt fram til umræðu á næsta fundi hennar.


3. Atvinnustefna fyrir Kaldrananeshrepp, Reykhólahrepp, Árneshrepp og Strandabyggð
Fyrir liggur að Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða mun vinna atvinnustefnu fyrir sveitarfélögin á Ströndum og Reykhólahrepp á árinu. Nefndin fagnar þessari vinnu og er reiðubúin að leggja sitt af mörkum til að afraksturinn verði byggðalaginu til heilla. Nefndin samþykkir að leita eftir því við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða að verkefnið verði kynnt og rætt á næsta fundi nefndarinnar.


4. Framkvæmdir við Hólmavíkurhöfn
Sigurður Marinó Þorvaldsson hafnarvörður kynnti yfirstandandi framkvæmdir við Hólmavíkurhöfn, en fyrri hluta verksins er nú að ljúka. Eftir er að steypa þekju á bryggjuhausinn og fer það verkefni í útboð í maí. Fyrirséð er fjölgun á bátum, vegna aukningar í strandveiðum, þannig að mikilvægt er að auka pláss við flotbryggjur í smábátahöfninni. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún beiti sér fyrir því að verkefni varðandi endurnýjun flotbryggju í smábátahöfninni sem er á dagskrá 2014 verði flýtt og ráðist í það þegar á þessu ári.


5. Tillaga um breytingu á gjaldskrá Hólmavíkurhafnar
Lagðar fram breytingatillögur við gjaldskrár Hólmavíkurhafnar frá 8. febrúar 2011.

Við 7. grein 5. fl. bætist: „Af frystum afla frystitogara og eldisfiski reiknast aflagjald af helmingi heildarverðmætis. Gjald af saltfiski reiknast miðað við tvöfalda þyngd og gjald af gámafiski reiknast af áætluðu heildarverði."

Við 11. grein gjaldskrárinnar bætist: „Viktun á stórhátíðardögum 5.715.- pr. klst." og „Lágmarksútkall er 4 tímar."

Breytingar samþykktar samhljóða.


6. Umræða um áhrif frumvarpa um stjórn fiskveiða í Strandabyggð
Rætt fram og aftur um áhrif frumvarpa um stjórn fiskveiða í Strandabyggð.


7. Áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum
Kynnt bréf frá Umhverfisstofnun dags. 3. apríl 2012 um að hafnaryfirvöld geri áætlun um móttöku og meðhöndlun úrgangs og farmleifa frá skipum. Samþykkt að fela hafnarstjóra að gera drög að slíkri áætlun og leggja hana fyrir næsta fund nefndarinnar.


8. Markaðsátak innanlands
Gögn frá Markaðsstofu Vestfjarða um markaðsátak innanlands lögð fram til kynningar.

Rætt var um ferðaþjónustu í sveitarfélaginu, m.a. um vel heppnað tjaldsvæði á Hólmavík og nauðsyn þess að nægt pláss sé á svæðinu. Nefndin leggur til að leyft verði að tjalda og leggja húsbílum á þökulögðum grasbletti innan við tjaldsvæðið.


9. Undirbúningsvinna vegna hitaveitu
Rætt um skipulagningu á vinnu nefndarinnar við að kanna hvort möguleiki sé að leggja hitaveitu til Hólmavíkur. Ákveðið að ráðast í skipulagða gagnaöflun vegna þessarar undirbúningsvinnu og ályktar nefndin að hún muni verða í lykilhlutverki við verkefnið.


10. Snjómokstursáætlun í Strandabyggð
Málinu frestað til næsta fundar.


11. Önnur mál
a) Rætt var um næsta fund nefndarinnar og samþykkt að stefna á miðvikudaginn 2. maí.


Formaður þakkaði fyrir áhugaverða umræðu. Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 19:50.


Jón Jónsson, formaður
Rúna Stína Ásgrímsdóttir, varaformaður
Jón Vilhjálmur Sigurðsson
Matthías Lýðsson
Árný Huld Haraldsdóttir, ritari

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón