Atvinnumála- og hafnarnefnd - 15. nóvember 2010
Fundur haldinn í Atvinnumála- og hafnarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 15. nóvember 2010 kl. 17:00 á skrifstofu Strandabyggðar. Elfa Björk Bragadóttir formaður setti og stjórnaði honum en aðrir fundarmenn voru Matthías S. Lýðsson, Jón Eðvald Halldórsson, Kristín Sigurrós Einarsdóttir sem jafnframt ritaði fundargerð og Victor Örn Victorsson varamaður. Sigurður Marinó Þorvaldsson hafnarvörður kom undir lok fundarins. Eftirfarandi dagskrá lá fyrir fundinum:
1. Kynning á svari Atvest vegna stefnumótunar í ferðaþjónustu eða atvinnumálum
2. Svör vegna fyrirspurna nefndarinnar í atvinnumálum
3. Jafnrétti kynjanna á landsbyggðinni
4. Staðardagskrá 21
5. Endurskoðun hafnarreglugerðar sveitarfélagsins
6. Endurskoðun á reglunum umgengni hafnarsvæðis sveitarfélagsins
7. Kynnig á erindi frá Strandabyggð til Siglingamálastofnunnar
8. Önnur mál
Þá var gengið til dagskrár:
1. Kynning á svari Atvest vegna stefnumótunar í ferðaþjónustu eða atvinnumálum
Fyrir liggur svar frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða til sveitarstjórnar Strandabyggðar. Í svarinu eru gerðar tillögur að aðferðafræði og verkþáttum. Samþykkt hefur verið í sveitarstjórn Strandabyggðar að kanna áhuga hjá Kaldrananes-, Reykhóla- og Árneshreppum á að fara í sameiginlega stefnumótunarvinnu og hafa borist jákvæð viðbrögð frá þeim. Atvinnuþróunarfélagið mun gera kostnaðaráætlun fyrir verkefnið þannig að sveitarfélögin geti tekið endanlega ákvörðun. Frekari afgreiðsla bíður þar til sú áætlun hefur borist og óskar nefndin eftir að fá áætlunina inn á borð til sín.
2. Svör vegna fyrirspurna nefndarinnar í atvinnumálum
Kynnt svör þeirra ríkisstofnana sem hafa starfsemi á Hólmavík við fyrirspurnum um niðurskurð og fækkun starfa hjá þessum stofnunum.
a. Í ágúst barst svar frá Sýslumanninum á Hólmavík, þar sem gert var ráð fyrir 10% sparnaði á næsta ári. Síðan þetta svar barst hefur heilt stöðugildi verið lagt niður og hluti starfsins fluttur í burtu og er nú í Búðardal. Elfa Björk vék af fundi við umræðu um málið. Nefndin lýsir yfir þungum áhyggjum sínum af fækkun opinberra starfa hjá embættinu. Elfa Björk kom aftur á fundinn.
b. Í september barst erindi frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands þar fram kemur að frekari niðurskurður sé ekki mögulegur án verulegra umbreytinga á starfseminni. Því er þess óskað að sveitarfélögin tali styrkri röddu fyrir mikilvægum verkefnum á vettvangi heilbrigðisþjónustu. Í munnlegu svari frá deildarstjóra á Hólmavík kemur fram að Heilbrigðisstofnunin á Hólmavík er rekin á lágmarks mannskap og því séu ekki líkur á fækkun starfa þar.
c. Samkvæmt munnlegu svari frá umdæmisstjóra Vegagerðarinnar á Hólmavík er unnið að endurskipulagningu og jafnvel sameiningu starfsstöðva. Að hans sögn verður ekki um fækkun starfa að ræða.
Atvinnumála- og hafnarnefnd beinir því til sveitarstjórnar að reyna að verja opinber störf í sveitarfélaginu eins og kostur er.
d. Borist hefur svar frá skrifstofu Strandabyggðar vegna kostnaðar við veru SEEDS hópsins á Hólmavík í sumar. Kostnaðurinn nam 284.255 krónum.
3. Jafnrétti kynjanna á landsbyggðinni
Borist hefur tölvupóstur með samantekt um jafnrétti kynjanna á landsbyggðinni. Þar er meðal annars fjallað um atvinnuleysi eftir kyni og landshlutum. Lagt fram til kynningar.
4. Staðardagskrá 21
Nefndarmönnum hafa borist eintök af bæklingi sveitarfélagsins um Staðardagskrá 21. Formaður óskar eftir að nefndarmenn kynni sér bæklinginn, m.t.t. hvernig staðan er í dag og hvað þarf að uppfæra varðandi atvinnumál í bæklingnum, fyrir næsta fund.
5. Endurskoðun hafnarreglugerðar sveitarfélagsins
Formaður lagði fram drög að breytingum á hafnarreglugerð fyrir Hólmavíkurhöfn. Nefndarmenn munu kynna sér breytingartillögurnar fyrir næsta fund. Einnig liggur fyrir mynd af höfninni þar sem búið er að merkja inn GPS punkta.
Þá eru lagðar fram breytingartillögur á gjaldskrá Hólmavíkurhafnar sem borist hafa frá hafnarverði. Nefndarmenn óska eftir að fara yfir gjaldskrána með hafnarstjóra og hafnarverði á næsta fundi. Meðal annars telja nefndarmenn sig þurfa frekari upplýsingar um hve mikið var hækkað síðast og hvernig gjaldskrár séu í öðrum sambærilegum höfnum.
6. Endurskoðun á reglum um umgengni hafnarsvæðis sveitarfélagsins
Farið var yfir reglugerðina og eftirfarandi orðalagsbreytingar gerðar:
Heiti reglugerðarinnar breytist í: "Reglur um umgengni á hafnarsvæði Hólmavíkurhafnar."
Í 1. lið endi málsgreinin á: "verður það fjarlægt á kostnað eiganda/ eigenda." (orðin "af hreppnum" falla út). Sigurður Marinó kom á fundinn.
7. Kynning á erindi frá Strandabyggð til Siglingamálastofnunnar
Sveitarstjórn hefur sent Siglingamálastofnun erindi þar sem óskað er eftir flýtingu á viðgerðum á Hólmavíkurhöfn, en hluti þessara viðgerða er á samgönguáætlun 2012. Lagt fram til kynningar.
8. Önnur mál
Formaður ræddi um fundarboð og varpaði því fram hvort fundarmönnum þætti nóg að fá fundarboð og fundargögn í tölvupósti, enda sé það umhverfisvænt og spari pappír og póstburðargjöld. Allir fundarmenn töldu það nægja.
Ekki voru tekin fyrir fleiri mál. Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 19:34.
Elfa Björk Bragadóttir (sign)
Jón Eðvald Halldórsson (sign)
Kristín Einarsdóttir (sign)
Matthías S. Lýðsson (sign)
Victor Örn Victorsson (sign)
Sigurður Marinó Þorvaldsson (sign)
ATH: Fundargerðin var tekin fyrir á fundi sveitarstjórnar 16. nóvember 2010.