Hugmyndafræði Lækjarbrekku

 

Hugmyndafræði Lækjabrekku

Í Lækjarbrekku er leikurinn þungamiðjan, í gegnum leikinn er verið að örva og efla þroskaþætti eins og tilfinningaþroska, siðgæðisþroska, félagsþroska, vitsmunaþroska, félagsvitund, líkams- og hreyfiþroska.

 

Hugmyndafræði leikskólans byggir á hugmyndum bandaríska heimspekingsins og sálfræðingsins John Dewey um nám í gegnum reynslu eða „learning by doing“. Hann taldi að fyrri reynsla barnsins verði til þess að það byggi upp þekkingu sína. Leikurinn er leið barns til að vinna úr tilfinningum og finna áhugasvið sitt. Hugmyndafræði Dewey byggir á kenningum Lev S. Vygotsky um „svæði hins mögulega þroska“, bilið milli þroska og getustigs barns sem það öðlast sjálft og þess sem það getur náð með aðstoð annarra. Vygotsky setti fram þrjú atriði sem gera leikinn mikilvægan fyrir barnið. Fyrst er að nefna að leikurinn er leið barnins til hlutbundinnar hugsunar. Að öðru leyti lærir barnið í gegnum leikinn félagslegar reglur sem ríkja í umhverfinu og í þriðja lagi lærir það sjálfstjórn. Leikurinn er þannig meginuppspretta fyrir alhliða þroska barna.

Vygotsky lagði einnig áherslu á mikilvægi fullorðinna og eldri barna í námi þeirra yngri og taldi að vitrænn þroski örvaðist í samskiptum við þroskaðri einstaklinga.

 

Uppeldisstefna Lækjarbrekku byggir á Jákvæðum aga, þar sem góðvild og festa eru höfð að leiðarljósi. Stefnt er að því að efla innri hvöt barnanna til að standa sig vel og koma vel fram við önnur börn og starfsfólk. Stefnan felur í sér að nota hrós og hvatningu á viðeigandi hátt sem hvata og umbun fyrir það sem vel er gert. Virðing einkennir samskipti og að starfsfólk kenni börnunum virðingu með virðingu. Mikilvægt er að barn upplifi góðvild af hálfu starfsfólks og að það finni að hagmunir þess eru alltaf hafðir að leiðarljósi.


uppfært 4. júní 2021
Vefumsjón