Jólalög

Á jólunum er gleði og gaman
(Friðrik Guðni Þórleifsson)
:/: Á jólunum er gleði og gaman,
fúm, fúm, fúm :/:
:/:Þá koma allir krakkar með
í kringum jólatréð.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm! :/:


:/: Og jólasveinn með sekk á baki
fúm, fúm, fúm :/:
:/:hann gægist inn um gættina
á góðu krakkana.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm! :/:


:/: Á jólunum er gleði og gaman
fúm, fúm, fúm :/:
:/:Þá klingja allar klukkur við
og kalla á gleði og frið.
Þá mun ríkja gleði og gaman,
allir hlæja og syngja saman
fúm, fúm, fúm! :/:



Bjart er yfir Betlehem
(Enskt lag. Ljóð: Ingólfur Jónsson frá Prestbakka)
Bjart er yfir Betlehem,
blikar jólastjarna.
Stjarnan mín og stjarnan þín
stjarnan allra barna.
Var hún áður vitringum
vegaljósið skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.


Víða höfðu vitringar
vegi kannað hljóðir.
Fundið sínum ferðum á
fjöldamargar þjóðir.
Barst þeim allt frá Betlehem
birtan undurskæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.


Barni gjafir gáfu þeir.
Blítt þá englar sungu.
Lausnaranum lýstu þeir,
lofgjörð drottni sungu.
Bjart er yfir Betlehem
blikar jólastjarna.
Stjarnan mín og stjarnan þín
stjarnan allra barna.



Bráðum koma blessuð jólin
(Lag: W.B.Bradbury. Ljóð: Jóhannes úr Kötlum)
Bráðum koma blessuð jólin,
börnin fara að hlakka til.
Allir fá þá eitthvað fallegt
í það minnsta kerti og spil.

Hvað það verður veit nú enginn
vandi er um slíkt að spá.
Eitt er víst að alltaf verður
ákaflega gaman þá.



Folaldið mitt
(Lag: Johnny Marks. Ljóð: Hinrik Bjarnason)
Folaldið mitt, hann Fákur,
fæddur var með hvítan hóf
og er hann áfram sentist
öll varð gatan reykjarkóf.


Hestarnir allir hinir
hæddu Fák og settu hjá.
Í stað þess að stökkv´í leikinn
Stóð hann kyrr og horfði á.

Milli élja á jólakvöld
jólasveinninn kom:
,,Fæ ég þig nú, fákurinn,
fyrir stóra sleðann minn?"

Þá urðu klárar kátir,
kölluðu í einni hjörð:
,,Fákur með fótinn hvíta
frægur er um alla jörð."



Gekk ég yfir sjó og land
Gekk ég yfir sjó og land
og hitti þar einn gamlan mann,
spurði hann og sagði svo:
„Hvar áttu heima?"
„Ég á heima á Klapplandi, Klapplandi,
Klapplandi.
Ég á heima á Klapplandi,
Klapplandinu góða."

(Stapplandi, Grátlandi, Hlælandi,Hvísllandi og Íslandi).



Göngum við í kringum
Göngum við í kringum einiberjarunn,
einiberjarunn, einiberjarunn.
Göngum við í kringum einiberjarunn,
snemma á mánudagsmorgni.

Svona gerum við er við þvoum okkar þvott,
þvoum okkar þvott, þvoum okkar þvott,
svona gerum við þegar við þvoum okkar þvott,
snemma á mánudagsmorgni.

Snemma á Þriðjudagsmorgni: Vindum okkar þvott
Snemma á Miðvikudagsmorgni: Hengjum okkar þvott
Snemma á Fimmtudagsmorgni: Teygjum okkar þvott
Snemma á Föstudagsmorgni: Straujum okkar þvott
Snemma á Laugardagsmorgni: Skúrum okkar gólf
Snemma á Sunnudagsmorgni: Greiðum okkar hár
Seint á Sunnudagsmorgni: Göngum kirkjugólf



Hátíð í bæ
(Ólafur Gaukur)
Ljósadýrð loftin gyllir
lítið hús yndi fyllir
og hugurinn heimleiðis leitar því æ
man ég þá er hátíð var í bæ.

Ungan dreng ljósin laða,
litla snót geislum baðar.
Ég man það svo lengi sem lifað ég fæ,
lífið þá er hátíð var í bæ.


Hann fékk bók, en hún fékk nál og tvinna,
hönd í hönd þau leiddust kát og rjóð.
Sælli börn nú sjaldgæft er að finna,
ég syng um þau mitt allra besta ljóð.


Söngur dvín svefninn hvetur,
systkin tvö geta ei betur,
en sofna hjá mömmu, ég man þetta æ,
man það þá er hátíð var í bæ.



Heims um ból
(Sveinbjörn Egilsson)
Heims um ból, helg eru jól,
signuð mær son Guðs ól,
frelsun mannanna, frelsisins lind,
frumglæði ljóssins, en gjörvöll mannkind
meinvill í myrkrunum lá.



Heimi í hátíð er ný,
himneskt ljós lýsir ský,
liggur í jötunni lávarður heims,
lifandi brunnur hins andlega seims,
konungur lífs vors og ljós


Heyra má himnum í frá
englasöng: Allelúja.
Friður á jörðu því faðirinn er
fús þeim að líkna, sem tilreiðir sér
samastað syninum hjá



Hjálpsamur jólasveinn
(Hrefna Tynes/Erlent (seinna erindi Gylfi Garðarsson 1996))
Í skóginum stóð kofi einn,
sat við gluggann jólasveinn.
Þá kom lítið héraskinn
sem vildi komast inn.

"Jólasveinn, ég treysti á þig,
veiðimaður skýtur mig!
"Komdu litla héraskinn,
því ég er vinur þinn.

En veiðimaður kofann fann,
Jólasveinninn spurði hann;
"Hefur þú séð héraskinn
hlaupa um hagann þinn ? "
"Hér er ekki héraskott.
Haf skaltu þig á brott."
Veiðimaður burtu gekk,
og engan héra fékk.



Jólasveinar einn og átta

(Enskt lag. Íslensk þjóðvísa)
Jólasveinar einn og átta,
ofan komu af fjöllunum.
Í fyrrakvöld þeir fóru að hátta,
fundu hann Jón á völlunum.

Andrés stóð þar utan gátta
það átti að færa hann tröllunum.
Þá var hringt í Hólakirkju
öllum jólabjöllunum.



Jólasveinar ganga um gólf
(Lag: Friðrik Bjarnason. Höf. ókunnur)
Jólasveinar ganga um gólf
með gylltan staf í hendi,
móðir þeirra sópar gólf
og hýðir þá með vendi.

Upp á stól stendur mín kanna,
níu nóttum fyrir jól
þá kem ég til manna.


(Jólasveinar ganga um gólf
með gildan staf í hendi,
móðir þeirra hrín við hátt
og hýðir þá með vendi.)



Það á að gefa börnum brauð
(Íslenskt þjóðlag. Þjóðvísa)
Það á að gefa börnum brauð
að bíta í á jólunum,
kertaljós og klæðin rauð
svo komist þau úr bólunum,
:/: væna flís af feitum sauð
sem fjalla gekk á hólunum.
Nú er hún gamla grýla dauð
og gafst hún upp á rólunum. :/:



Ég sá mömmu kyssa jólasvein

(Hinrik Bjarnason/T Connor)
Ég sá mömmu kyssa jólasvein,
við jólatréð í stofunni í gær.
Ég læddist létt á tá
til að líta gjafir á,
hún hélt ég væri steinsofandi
Stínu dúkku hjá,
og ég sá mömmu kitla jólasvein
og jólasveinnin út um skeggið hlær.
Já sá hefði hlegið með
hann pabbi minn hefð'ann séð
mömmu kyssa jólasvein í gær.



Snæfinnur snjókarl

(Hinrik Bjarnason/Steve Nelson)
Snæfinnur snjókarl
var með snjáðan pípuhatt,
Gekk í gömlum skóm
og með grófum róm
gat hann talað, rétt og hratt.
"Snæfinnur snjókarl!
Bara sniðugt ævintýr,"
segja margir menn,
en við munum enn
hve hann mildur var og hýr.



En galdrar voru geymdir
í gömlu skónum hanns:
Er fékk hann þá á fætur sér
fór hann óðara í dans.
Já, Snæfinnur snjókarl,
hann var snar að lifna við,
og í leik sér brá
æði léttur þá,
-uns hann leit í sólskinið.

 


Babbi segir
Babbi segir, babbi segir:
"Bráðum koma dýrðleg jól".
Mamma segir, mamma segir:
"Magga fær þá nýjan kjól".
Hæ, hæ, ég hlakka til,
hann að fá og gjafirnar.
Bjart ljós og barnaspil,
borða sætar lummurnar.



Babbi segir, babbi segir:
"Blessuð Magga ef starfar vel,
henni gef ég, henni gef ég
hörpudisk og gimburskel."
Hæ, hæ, ég hlakka til
hugljúf eignast gullin mín.
Nú mig ég vanda vil,
verða góða telpan þín.

 

Vefumsjón