A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur 1361 í Strandabyggð 14. maí 2024

Sveitarstjórnarfundur nr. 1361 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 14. maí kl. 16.00 í Hnyðju Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Jón Sigmundsson, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Grettir Örn Ásmundsson varamaður T-lista í fjarveru Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.


Fundardagskrá er svohljóðandi:


1. Ársreikningur Strandabyggðar 2023, fyrri umræða
2. Stjórnsýsluskoðun Strandabyggðar 2023
3. Viðauki I 2024
4. Innviðaráðuneyti, svar við beiðni um áframhaldandi fjárstuðning
5. Aðalskipulag Strandabyggðar, vinnslutillaga 2021-2033
6. Málalykill Strandabyggðar 2024-2028
7. Niðurstaða EFLU úr sýnatöku í grunnskóla í apríl
8. Niðurstaða úr könnun vegna Sorpmála í Strandabyggð ásamt minnisblaði
9. Svæðisskipulag Vestfjarða, lýsing 2025-2050
10. Breytingar á nefndarskipan T-lista
11. Fyrirframgreiðslur reglur
12. Velferðarþjónusta Vestfjarða minnisblað um bakvaktir barnaverndar
13. Ungmennaráð fundargerð frá 23. apríl 2024
14. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 7. maí 2024
15. Fræðslunefnd fundargerð frá 8. maí 2024
16. Sterkar Strandir fundargerð úthlutunarfundar frá 5. apríl 2024
17. Brothættar byggðir ársskýrsla 2023
18. Verkefni sveitarstjóra
19. Forstöðumannaskýrslur
20. Vestfjarðarstofa fundargerð nr. 60 frá 30. apríl 2024
21. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 147 frá 18. apríl 2024 ásamt ársskýrslu
22. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 947 frá 19. Apríl 2024


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd var gerð við fundarboðið.

Oddviti bauð Gretti Örn varamann fyrir Sigríði Guðbjörgu velkominn. Kristján Jónasson endurskoðandi sveitarfélagsins er sömuleiðis boðinn velkominn sem gestur fundarins.

Oddviti leitar afbrigða við áður boðaða dagskrá og óskar eftir að taka inn mál á dagskrá: Umsögn sveitarstjórnar við erindi Innviðaráðuneytis IRN24020050 varðandi beiðni um undanþágu frá skipulagsgerð. Málið yrði þá númer 23 á dagskrá.

Sveitarstjórn samþykkir að taka málið inn á dagskrá.

Þá var gengið til umræðu.

1. Ársreikningur Strandabyggðar 2023, fyrri umræða

Oddviti kynnti Kristján Jónasson, endurskoðanda KMPG sem gest fundarins og bað hann að fara yfir helstu atriði ársreikningsins. Kristján tók til máls og fór yfir helstu kennitölur í ársreikningi Strandabyggðar


Matthías Lýðsson spyr hvers vegna ársreikningar séu lagðir fram svona seint á árinu. Kristján, Salbjörg og Þorgeir bera því við að upplýsingar berist seint til sveitarfélagsins og fámenn skrifstofan nái illa að klára fyrr.

Matthías þakkar fyrir útskýringarnar og vill taka fram ánægju A-lista með jákvæða niðurstöðu úr rekstri, en vill jafnframt benda á að meginástæðan sé að Jöfnunarsjóðstekjurnar hafi verið hærri en áætlað var í upphafi, fengist hafi styrkur úr Fiskeldissjóði og að ekki hafi verið ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir.


Oddviti þakkar Kristjáni fyrir komuna og útskýringu ársreikningsins.


Oddviti vísaði frekari umræðu um ársreikninginn til annarrar umræðu sem verður 21. maí n.k. á hefðbundnum tíma, kl 16.00.

Oddviti bað fundarmenn að staðfesta þá tillögu með handauppréttingu. Samþykkt samhljóða.


2. Stjórnsýsluskoðun Strandabyggðar 2023

Oddviti rakti lauslega tilurð þessa skjals og sagði að hér kæmu fram gagnlegar ábendingar KPMG á stjórnsýslu sveitarfélagsins. Það má alltaf gera betur og við þurfum t.d. að endurgera samþykktir sveitarfélagsins sem eru komnar til ára sinna. Síðan gaf oddviti orðið laust.


Matthías Lýðsson tók til máls og nefndi að sveitarstjóri þyrfti að laga það sem bent er á í skýrslunni.

Stjórnsýsluskoðunin er lögð fram til kynningar.


3. Viðauki I 2024

Oddviti gaf skrifstofustjóra Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið.


Lagður er fram svohljóðandi viðauki I við fjárhagsáætlun Strandabyggðar vegna ársins
2024 á fundi sveitarstjórnar þann 14. maí 2024.


Rekstur:
a. Framlag vegna vistunar leikskólabarns í Dalabyggð áætlaður kostnaður kr.
1.560.498
b. Framlag vegna skólagöngukostnaðar nemenda í Tónlistarskóla Akureyrar á vorönn
kr. 1.563.210, styrkur á móti frá Jöfnunarsjóði hljóðar upp á kr. 1.090.474 og
kostnaður sem fellur á sveitarfélagið því kr. 472.736

Samtals hækkun rekstarkostnaðar kr. 2.033.234 sem er tekið af eigin fé.


Framkvæmdir:

Hækkun framkvæmdakostnaðar við Grunnskólann á Hólmavík. Í fjárhagsáætlun 2024
var upphaflega gert ráð fyrir 70 milljón króna framkvæmdum við grunnskólann á árinu
2024. Síðan í ferlinu var þessi tala lækkuð í 45 milljónir og samþykkt þannig af
sveitarstjórn. Framkvæmdir við grunnskólan eru mjög langt komnar og er lokakaflinn
hafinn. Erfitt hefur reynst að áætla suma kostnaðarliði en heilt yfir má segja að
framkvæmdir hafi gengið vel og engin alvarleg frávik komið upp. Ljóst er að kostnaður
mun verða þó nokkuð hærri en upphafleg áætlun hljóðaði upp á.

Lagt er til að framkvæmdakostnaður 2024 hækki úr 45.000.000 í 125.000.000 og að
heildarframkvæmdakostnaður áranna 2023-2024 verði rúmar 240 milljónir.

Greitt með greitt með eigin fé og lántöku.


Fráveita:

Styrkur frá Fiskeldissjóði vegna hreinsistöðva í Strandabyggð kr. 25.300.000

Samtals hækkun tekna í Fráveitu kr. 25.300.000


Eignir:

Sala Strandabyggðar í 28,20% hlut sínum í Fiskmarkaði Hólmavíkur kr. 7.509.642 kr.


Oddviti tekur til máls og gefur orðið laust. Jón Sigmundsson tekur fram vanhæfi sitt við fyrsta lið í viðaukanum sem snýr að viðauka í rekstri.


Oddviti ber fyrsta liðinn undir atkvæði og er hann samþykktur með fjórum atkvæðum en Jón Sigmundsson situr hjá.


Borið er upp undir atkvæði að samþykkja viðaukann að öðru leyti. Samþykkt samhljóða.


4. Innviðaráðuneyti, svar við beiðni um áframhaldandi fjárstuðning

Oddviti reifaði aðdraganda máls. Það liggur fyrir í svari innviðaráðuneytis, að ráðuneytið telur fjárhag Strandabyggðar ekki lengur það veikan, að staðan réttlæti sjálfkrafa stuðning ráðherra. Mun ráðuneytið taka endanlega ákvörðun í ljósi niðurstöðu ársreiknings. Nú er ljóst að rekstrarhagnaður 2023 skilar um 79 milljónum, sem er 10 milljónum meira en áætlun gerði ráð fyrir. Það má því reikna með að svar ráðuneytisins um áframhaldandi samning um fjárhagslegan stuðning verði neikvætt. Hin hliðin er síðan sú, að það er vissulega gott fyrir sveitarfélagið að þurfa ekki slíka aðstoð.


Oddviti gefur orðið laust. Matthías Lýðsson tekur til máls og spyr hvort við eigum að líta á þetta svar sem höfnun og senda ráðuneytinu nýsamþykktan viðauka og sækja um aftur.

Oddviti tekur undir með Matthíasi og mun gera drög að bréfi sem lagt verður fyrir sveitarstjórn.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu málsins.


5. Aðalskipulag Strandabyggðar, vinnslutillaga 2021-2033


Oddviti sagði frá því að þessari vinnu væri nú að ljúka og að hér væru drög til kynningar, svo kölluð vinnslutillaga. Gaf hann orðið síðan til formanns umhverfis- og skipulagsnefndar, Matthíasar S. Lýðssonar, til frekari skýringa.


Matthías tekur til máls og leggur til að sveitarstjórn samþykki framlagða vinnslutillögu til kynningar í samræmi við 2. mgr. 30 gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Jafnframt hvetur Matthías íbúa til að kynna sér tillöguna þegar hún verður auglýst.


Oddviti tekur undir með Matthíasi og leggur til að sveitarstjórn samþykkti tillöguna og það ferli sem hún færi í. Samþykkt
samhljóða.


6. Málalykill Strandabyggðar 2024-2028

Oddviti bað skrifstofustjóra að skýra málið. Salbjörg útskýrir tilgang málalykilsins.

Málalykill þessi er flokkunarkerfi skjala fyrir sveitarfélagið Strandabyggð. Málalykillinn skal endurspegla starfsemi sveitarfélagsins frá hinu almenna til hins sértæka. Gildistími þessa málalykils er fimm ár frá 1. maí 2024. Málalykill þessi byggir á grunni að málalykli fyrir sveitarfélög frá Þjóðskjalasafni Íslands 2010 og málalykli fyrir skjalavistunartímabilið 2019-2024. Hann er hér með lagður fram til samþykktar sveitarstjórnar.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


7. Niðurstaða EFLU úr sýnatöku í grunnskóla í apríl


Oddviti rakti niðurstöðu sýnatökunnar. Öll sýni í yngri hlutanum eru í lagi, en það er áfram mygla í þeim eldri, eins og við var að búast, enda ekki búið að gera neitt þar. Ástandið er alls ekki svo slæmt að mati EFLU og sjálfsagt að halda því til haga að við fáum hrós fyrir það hvernig staðið hefur verið að endurbótum. Starfsmenn EFLU hafa sem sé komið til Hólmavíkur og skoðað byggingarnar og tóku frekari sýni í skrifstofum skólastjórnenda. Niðurstaða úr þeim sýnum er jákvæð og óhætt að þeirra mati að halda starfsemi áfram í skrifstofum í eldri hluta.


Matthías óskar eftir að það verði bókað, að vandað verði til ákvarðanatöku, er varðar hvernig verði unnið að endurbótum að eldri hluta skólans.


8. Niðurstaða úr könnun vegna Sorpmála í Strandabyggð ásamt minnisblaði


Oddviti rakti helstu niðurstöður könnunarinnar og vísaði í minnisblað þar um. Niðurstaðan er í raun að fara í svokallaðar botnlangastöðvar í stað fjögurra flokka kerfis við hvert hús.

Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti uppbyggingu botnlagnastöðva á Hólmavík. Gerð yrði framkvæmdaáætlun um fjölda, gerð, staðsetningar og losun þessara stöðva. Yrði forstöðumanni og starfsmönnum eignasjóðs falin sú vinna í samráði við sveitarstjóra.


Hlíf tekur til máls og nefnir að fólk hafi talað um við sig að svörun hefði mögulega verið önnur ef íbúafundurinn hefði verið áður en könnun var gerð.


Oddviti hefur fullan skilning á því en enginn hefur óskað frekari skýringa og því eðlilegt að taka ákvörðun miðað við þessar niðurstöður.


Jón Sigmundsson tók til máls og taldi að kostnaður myndi aukast með því að draga ákvörðun lengur.


Oddviti leggur til við sveitarstjórn að samþykkja tillögu um botnlangastöðvar og útfærslu þeirra. Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum T-lista og Hlífar Hrólfsdóttur en Matthías Lýðsson situr hjá.


Einnig er lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra og sveitarstjóra varðandi lausnir í vinnslu á lífrænum úrgangi og kaupum á jarðgerðarvélum fyrir stofnanir sveitarfélagsins og niðurgreiðslu til íbúa vegna kaupa þeim.


Jón Sigmundsson tekur til máls og nefnir hvort það yrði ekki alltaf að vera tvöfalt kerfi þar sem það myndu aldrei allir nýta þessa lausn.


Matthías tekur til máls og er með nokkrar efasemdir varðandi að fara eina leið í þessum efnum.


Oddviti leggur til að erindið verði unnið frekar og lagt fyrir að nýju á fundi í júní.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


9. Svæðisskipulag Vestfjarða, lýsing 2025-2050


Matthías og Jón, fulltrúar í Svæðisskipulagsráði, lögðu til að skipulags- og matslýsing fyrir Svæðisskipulag Vestfjarða verði samþykkt í sveitarstjórn. Því næst óskaði oddviti þess að sveitarstjórn samþykkti lýsinguna með handauppréttingu.


Samþykkt samhljóða.


10. Breytingar á nefndarskipan T-lista


Oddviti rakti breytingarnar og óskaði síðan eftir samþykki sveitarstjórnar.


Nokkrar breytingar hafa orðið hjá T lista í nefndum sveitarfélagsins. Eftirfarandi eru
tilnefningar til varamanna í nefndir þar sem varmenn hefur vantað.


• Árni Magnús Björnsson, kemur inn sem varamaður T-lista í Tómstunda- íþrótta- og
menningarnefnd
• Júlíana Ágústsdóttir, kemur inn sem varamaður T-lista í Fræðslunefnd


Samþykkt samhljóða


11. Fyrirframgreiðslur reglur


Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið. Salbjörg kynnti reglur sem lagðar eru fram til samþykktar sveitarstjórnar. Um er að ræða vinnureglur þar sem fyrirframgreiðslur launa verða aflagðar hjá Strandabyggð nema í tilfellum leiðréttinga launa.


Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


12. Velferðarþjónusta Vestfjarða minnisblað um bakvaktir barnaverndar


Oddviti gaf formanni velferðarnefndar orðið sem óskaði eftir að starfsmaður Félagsþjónustunnar Hlíf Hrólfsdóttur útskýrði erindið, sem hún gerði.


Því næst óskaði oddviti eftir því að sveitarstjórn samþykkti tillöguna um sameiginlegar bakvaktir af hálfu Velferðarþjónustu Vestfjarða og einnig að kalla eftir kostnaðartölum.


Samþykkt samhljóða.


13. Ungmennaráð fundargerð frá 23. apríl 2024


Oddviti fór lauslega yfir fundargerðina í fjarveru formanns Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar.

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og nefnir að það þurfi að taka fram hver skrifi fundargerðina. Það sé einnig þörf á að skerpa á ýmsum formsatriðum til að forðast rangfærslur.


Fundargerðin að öðru leiti lögð fram til kynningar.


14. Umhverfis- og skipulagsnefnd fundargerð frá 7. maí 2024


Oddviti gaf formanni umhverfis- og skipulagsnefndar orðið. Matthías tók til máls og fór yfir fundargerðina.


Varðandi lið nr. 2. Umsókn um framkvæmdarleyfi að Selflóa. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar


Við afgreiðslu á lið nr. 3. Umsókn um stækkun lóða við Borgabraut 23, 27 og 29. Þorgeir Pálsson víkur af fundi.

Varðandi lið nr. 3. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar. Þorgeir tekur aftur sæti á fundinum.


Varðandi lið nr. 4. Útlitsbreytingar á grunnskóla og flóttaleið á suðurgafli. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar


Varðandi lið nr. 5. Nýtt hurðargat á suðurgafli Sorpsamlags Strandasýslu. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar.


Varðandi lið nr. 6. Umsókn um breytt útlit glugga að Bröttugötu 2. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar.


Varðandi lið nr. 7. Beiðni um styrk fyrir útsýnisskilti á Ennishálsi. Skipulagsfulltrúa er falið að svara erindinu og kalla eftir frekari gögnum. Umsókn um styrk er vísað til sveitarstjóra.

Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar.


Varðandi lið nr. 8. Umsókn um niðurrif á svölum og tilfærslu sólskála að Borgabraut 9. Lagt fram til afgreiðslu og sveitarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu nefndarinnar.


Varðandi lið nr. 9. Verndarsvæði í byggð. Gögn bárust ekki í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarfund.


Varðandi lið nr. 11 a sem eru tilmæli nefndarinnar til sveitarstjórnar um að fá hönnunaraðila í að teikna gatnaframkvæmdir á Bröttugötu og Kópnesbraut. Lagt fram til afgreiðslu sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða og sveitarstjóri mun taka erindið upp við skipulagsfulltrúa og viðeigandi fagaðila.


Varðandi lið nr. 11 b sem er umsókn um stöðuleyfi við Galdrasafnið. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar


15. Fræðslunefnd fundargerð frá 8. maí 2024


Oddviti rakti efni fundarins og sagði frá því að unnið væri að drögum að nýjum samningi við Ásgarð, gæðaráð verði endurvakið og áhersla á markmiðasetningu og námsmat aukin. Einnig kom fram á fundinum umræða um bann við eða takmörkun á símanotkun krakka í grunnskólanum. Niðurstaðan yrði líklegast sú, að kennari sjái um símtækin meðan á skóla stendur en ef skólinn ætlar að nota símtæki í kennslu, þá verði þau útveguð af skólanum og krakkarnir munu þá ekki nota sín eigin tæki.

Drög að samningi við Ásgarð eru lögð fram til samþykktar. Hlíf, Jón og Matthías samþykkja drögin fyrir sitt leiti að því gefnu að þau verði án breytinga. Samþykkt samhljóða af sveitarstjórn.


Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.


16. Sterkar Strandir fundargerð úthlutunarfundar frá 5. apríl 2024


Lagt fram til kynningar og orðið gefið laust. A- listinn óskar þeim sem fengu framlag til hamingju og vonar að þeim farnist vel í sínum verkefnum. T-listi tekur undir þær hamingjuóskir.


17. Brothættar byggðir ársskýrsla 2023


Ársskýrslan er lögð fram til kynningar, en oddviti tók fram, að sér þætti leitt að sjá áherslu skýrsluhöfunda á ósætti, sundrungu og erfiðleika í samskiptum í sveitarfélaginu sem hamli framförum, en tilvísanir þar um koma fram á mörgum stöðum í skýrslunni. Væri nær, að mati oddvita að horfa til framtíðar og þeirra tækifæra sem sveitarfélagið getur skapað sér en að halda í umræðu sem tilheyrir fortíðinni og á þar að auki ekki erindi á borð þessarar sveitarstjórnar.


Ársskýrslan að öðru leyti lögð fram til kynningar.


18. Verkefni sveitarstjóra


Orðið gefið laust. Matthías tók til máls og spurði eftir punktum af fundum Strandanefndarinnar. Þorgeir sagði að vinna nefndarinnar héldi áfram eftir mannaskipti embættismanna og ráðherra. Hann reifaði umræður sem hafa farið fram á undanförnum fundum nefndarinnar og mun senda minnispunkta á sveitarstjórn. Matthías minnir á að á fundi 1360 hafi verið lögð fram tillaga, sjá 2. töluliður í fundargerð sem að sveitarstjóri tók að sér að vinna áfram og leggja fram á þessum fundi nr. 1361. Sveitarstjóri baðst velvirðingar á því að það hafi ekki verið gert en mun leggja hana fram á næsta fundi nr. 1362.


19. Forstöðumannaskýrslur


Orðið gefið laust. Hlíf benti á að yfirlit vantaði um verkefni í Íþróttamiðstöð. Þorgeir mun taka saman og senda á sveitarstjórn. Nefndi Þorgeir þó að viðgerð á heitum pottum væri hafin.


20. Vestfjarðarstofa fundargerð nr. 60 frá 30. apríl 2024


Orðið gefið laust. Enginn tekur til máls.


21. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða fundargerð nr. 147 frá 18. apríl 2024 ásamt ársskýrslu


Orðið gefið laust. Enginn tekur til máls.


22. Samband sveitarfélaga fundargerð nr. 947 frá 19. Apríl 2024


Orðið gefið laust. Enginn tekur til máls.


23. Umsögn sveitarstjórnar við erindi Innviðaráðuneytis IRN24020050 varðandi beiðni um undanþágu frá skipulagsgerð.

Sveitarstjórn leggur til að staðfest verði, með vísan í umsögn skipulagsfulltrúa, að „Strandabyggð geri ekki athugasemd við að Orkubúi Vestfjarða verði veitt verði undanþága frá ákvæði 5.3.2.14 um skipulag við vötn, ár og sjó í skipulagsreglugerð nr. 90/2013“.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða og sveitarstjóra falið að koma þessu til skila.


Frágangi fundargerðar og rafrænnar undirskriftar frestað til morguns vegna aðstæðna


Fleira ekki fyrir tekið
Fundi slitið kl. 19.42

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón