A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur Strandabyggðar nr. 1373, 11.02.2025

Sveitarstjórnarfundur 1373, haldinn í Hnyðju 11.02.2025

Mætt voru:  Þorgeir Pálsson, Grettir Örn Ásmundsson, Júlíana Ágústsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Heiðrún Harðardóttir, sem ritaði fundargerð. Fundurinn var jafnframt tekinn upp í hljóðskrá.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Matvælaráðuneytið, úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024-2025
  2. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar, fyrri umræða
  3. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð, fyrri umræða
  4. Vestfjarðastofa, skipan varamanns í Úrgangsráð
  5. Kaldrananeshreppur, samningur vegna sérþjónustu
  6. Samskiptasáttmáli sveitarstjórnar Strandabyggðar
  7. Breyting T-lista nefndarmanna í US-nefnd, til afgreiðslu
  8. Svör oddvita við spurningum A lista frá sveitarstjórnarfundi 1372
  9. Erindi Jóns Jónssonar frá 4.12.24, minnisblað frá Birni Jóhannessyni lögmanni, 10.1.25
  10. Erindi til sveitarstjórnar, Slysavarnahúsið, 27.1.25
  11. Erindi til sveitarstjórnar frá Ólafi Númasyni, 17.12.24
  12. Erindi til sveitarstjórnar, Kirkjugarðaráð, 29.1.24
  13. Vestfjarðastofa, Græn skref-vegferðin hefst
  14. Fundargerð stjórnar Sorpsamlags Strandasýslu ehf, 4.2.25
  15. Lántaka Sorpsamlags Strandasýslu ehf
  16. Fundargerð FRÆ nefndar, 6.2.25
  17. Ný skólastefna Strandabyggðar, til afgreiðslu
  18. Fundargerð TÍM nefndar, 27.1.25
  19. Vinnuskýrsla sveitarstjóra
  20. Forstöðumannaskýrslur
  21. Brák íbúðafélag, fundargerð ársfundar, 15.1.25
  22. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 12. Fundar, 20.1.25
  23. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir 960., 961. og 962. fundar stjórnar, 13.12.24, 17.1.25 og 22.1.25
  24. Hafnasamband Íslands, fundargerðir 468. og 469. fundar stjórnar, 24.1.25
  25. Vestfjarðastofa, fundargerð 66. fundar stjórnar og stjórnarfundar Fjórðungssambands Vestfirðinga, 29.1.25

 

Oddviti bauð alla velkomna. 

Spurt um athugasemdir við fundarboðun. Engin athugasemd er gerð við fundarboðið.

Matthías tók til máls og óskar eftir að setja fram bókun í upphafi fundar. Oddviti veltir því fyrir sér hvort bókunin eigi heima í upphafi eða lok fundar og sammælst er um að hún verði lögð fram í upphafi fundar.

 

Bókun Matthíasar Sævars Lýðssonar:

 

„Í upphafi fundar er rétt að minna á álit Innviðaráðuneytis frá 5. apríl 2024. Í áliti ráðuneytisins segir m.a. „Þá telur ráðuneytið ástæðu til taka fram að sveitarstjórnarmenn eiga vegna starfa sinna í sveitarstjórn rétt á að kynna sér gögn og upplýsingar sem fyrir liggja í stjórnsýslu sveitarfélags og varða málefni sem komið geta til umfjöllunar í sveitarstjórn, sbr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Hafa ber í huga að á sveitarstjórnarmönnum hvílir rík trúnaðarskylda um það sem þeir verða áskynja um í starfi sínu og leynt á að fara skv. ákvæðum X. kafla stjórnsýslulaga, sbr. 4. mgr. 28. gr. sveitarstjórnarlaga. Á slík trúnaðarskylda einnig við um gögn og upplýsingar sem þeir fá afhent vegna mála sem þeir reynast síðar vanhæfir til að taka þátt í afgreiðslu um.“

Minnisblöð eða önnur gögn sem varða málefni er á dagskrá sveitarstjórnarfundar er skylt að senda til allra aðalmanna í sveitarstjórn.“

 

Þá var gengið til umræðu.

1. Matvælaráðuneytið, úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024-2025


Oddviti vakti athygli á hugsanlegu vanhæfi kjörinna fulltrúa og bað viðstadda að tilkynna fundinum, telji þeir sig vanhæfa.  Til máls tóku Matthías Sævar Lýðsson, Hlíf Hrólfsdóttir og Júlíana Ágústsdóttir.

Oddviti óskaði eftir staðfestingu fundarins á vanhæfi viðkomandi og kallaði eftir handauppréttingu, því til staðfestingar.  Samþykkt samhljóða.  Júlíana Ágústsdóttir, T lista yfirgaf því næst fundinn og í hennar stað kom Marta Sigvaldadóttir.  Matthías Sævar Lýðsson, A lista og Hlíf Hrólfsdóttir, A lista yfirgáfu einnig fundinn og í þeirra stað komu Ragnheiður Ingimundardóttir og Guðfinna Lára Hávarðardóttir.

Oddviti rakti efni máls.  Ljóst er að sveitarstjórn mun ekki óska eftir sérákvæði um undanþágu frá vinnsluskyldu, þar sem fiskvinnsla er nú til staðar á Hólmavík. 

Þá er ljóst að „Reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025, nr. 819/2024“, tekur á þeim álitamálum sem komið hafa til umræðu í tengslum við úthlutun byggðakvóta og má þarf nefna; lögheimili kvótahafa, að afla sé öllum landað í byggðarlaginu ofl.  Má því segja að eðlilegt væri við núverandi aðstæður, að falla frá öllum óskum um sérákvæði og styðjast við upphaflegu reglugerðina, óbreytta.  Oddviti gaf því næst orðið laust.

 

Guðfinna Lára tók til máls.

Hún vill leggja fram þá tillögu að halda fyrri tillögu þar sem haldið er í sömu skiptingu og verið hefur. Hún telur að sú leið sé sanngjörn fyrir alla aðila þar sem veiði getur verið misjöfn á milli ára og geta ýmsar ástæður átt þar við.


Ragnheiður Ingimundardóttir tók til máls.


Þorgeir Pálsson tók til máls.


Oddviti leggur til að stuðst verði við „Reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2024/2025, nr. 819/2024“, óbreytta og þar með verði fallið frá öllum óskum um sérákvæði. Samþykkt með þremur atkvæðum T lista en fulltrúar A lista sitja hjá.


Sveitarstjóra falið að koma afgreiðslu sveitarstjórnar til ráðuneytisins.


Guðfinna Lára óskar eftir að kosið verði um tillögu um að halda sömu skiptingu og hefur verið.

Atkvæðagreiðsla féll þannig að tillagan er felld með þremur atkvæðum T lista á móti tveimur atkvæðum A lista.


Oddviti telur að með því að fylgja boðskap reglugerðarinnar sé verið að hugsa um hag sveitarfélagsins.

 

Marta Sigvaldadóttir, Ragnheiður Ingimundardóttir og Guðfinna Lára Hávarðardóttir víkja af fundinum og Júlíana Ágústsdóttir, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir tóku sæti sín á fundinum á ný.


2. Samþykkt um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar, fyrri umræða


Oddviti rakti tilurð máls.  Samþykktin er hér lögð fram til fyrri umræðu. 
Búið er að lesa hana yfir af stjórnsýslusérfræðingi KPMG.  Orðið gefið laust. 

Til máls tók Matthías Sævar Lýðsson.

Búið er að fara yfir samþykktina en eftir að fínpússa sem náðist ekki að klára.


A listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Sveitarstjórnarmenn A-lista samþykkja tillögu að „Samþykkt um stjórn og fundarsköp Strandabyggðar“ með fyrirvara um minniháttar breytingar þar sem lokayfirferð er eftir.“

 

Oddviti lagði til að samþykktinni yrði vísað til frekari vinnu og afgreiðslu í seinni umræðu.  Samþykkt samhljóða.


3. Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð, fyrri umræða


Oddviti rakti tilurð máls.  Hér er ljóst að gera þarf breytingar á samþykktinni hvað sorphirðu varðar, því svokallaðar botnlangastöðvar fengust ekki samþykktar af hlutaðeigandi ráðuneyti.  Hefur skrifstofa Strandabyggðar unnið vel að því að uppfæra samþykktina í því ljósi.  Orðið gefið laust. 

Til máls tók Matthías Sævar Lýðsson og leggur fram bókun fyrir hönd A lista:

„Sveitarstjórnarmenn A-lista samþykkja tillögu að „Samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Strandabyggð“ með fyrirvara um að enn eigi eftir að fá svör frá Umhverfisráðuneytinu um túlkun á nokkrum atriðum.“

 

Oddviti lagði til að samþykktinni yrði vísað til afgreiðslu í seinni umræðu eftir frekari hreinskrifun.  Samþykkt samhljóða.


4. Vestfjarðastofa, skipan varamanns í Úrgangsráð


Oddviti gaf Matthíasi Sævari Lýðssyni orðið.


Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og A listi tilnefnir Ragnheiði Ingimundardóttur.


Oddviti kallaði eftir samþykki, samþykkt samhljóða. Oddviti býður Ragnheiði Ingimundardóttur velkomna í hópinn.


5. Kaldrananeshreppur, samningur vegna sérþjónustu 


Oddviti fór yfir innihald samningsins.

Samningurinn er lagður fram til afgreiðslu.


Leiðrétt er að samningurinn er vegna sérfræðiþjónustu ekki sérþjónustu.


Samningurinn er samþykktur samhljóða með handauppréttingu. Oddvita er falið að ganga frá samningi ásamt oddvita Kaldrananeshrepps.


6. Samskiptasáttmáli sveitarstjórnar Strandabyggðar


Oddviti rakti tilurð máls.  Samskiptasáttmálinn er lagður fram til kynningar.


Um er að ræða samskiptasáttmála sveitarstjórnar og starfsmanna skrifstofunnar sem nær um þá hætti sem við ætlum að eiga samskipti, skrifleg og munnleg. Sáttmálinn var unninn í samvinnu með fulltrúa Líf og sál.


Oddviti vill kynna sáttmálann á heimasíðu sveitarfélagsins.


Matthías tók til máls. Hann er sammála um að nafnið er ekki rétt lýsandi, þar sem starfsmenn skrifstofunnar voru hluti af vinnunni við sáttmálann.


Heiti sáttmálans verður breytt sem og dagsetning sem var ranglega skráð.


7. Breyting T-lista nefndarmanna í US-nefnd, til afgreiðslu


Oddviti rakti efni breytinganna. 


Börkur Vilhjálmsson kemur sem aðalmaður í stað Þrastar Áskelssonar.

Marta Sigvaldadóttir kemur inn sem varamaður.


Lagði oddviti til að sveitarstjórn samþykkti breytinguna og kallaði eftir samþykki viðstaddara með handauppréttingu.  Samþykkt samhljóða.


8. Svör oddvita við spurningum A lista frá sveitarstjórnarfundi 1372


Oddviti rakti eðli máls.  Svörin lögð fram til kynningar.


Matthías tók til máls og þakkar fyrir svörin.


9. Erindi Jóns Jónssonar frá 4.12.24, minnisblað frá Birni Jóhannessyni lögmanni, 10.1.25


Þorgeir Pálsson óskaði þess að víkja af fundi og fól vara-oddvita að taka við fundinum.  Marta Sigvaldadóttir tók sæti Þorgeirs á fundinum.  Grettir Örn Ásmundsson, tók við fundinum og bauð Mörtu velkomna aftur á fundinn.

Vara-oddviti lagði minnisblaðið fram til kynningar og spyr hvort einhver vilji taka til máls.


Matthías Sævar Lýðsson tók til máls. Hann og Hlíf vilja ítreka afstöðu þeirra frá fundi 10.12.24 nr. 1372 og hún er óbreytt.

 

Grettir þakkar Mörtu fyrir. Marta Sigvaldadóttir víkur af fundi og Þorgeir tekur sæti sitt á ný.


10. Erindi til sveitarstjórnar, Slysavarnahúsið, 27.1.25


Oddviti rakti erindið og lagði til að beiðninni yrði hafnað. Oddviti gaf orðið laust.


Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og telur að sveitarstjórn geti ekki stutt þetta að þessu sinni.

Samþykkt samhljóða.


11. Erindi til sveitarstjórnar frá Ólafi Númasyni, 17.12.24


Oddvit rakti eðli máls og gaf orðið laust. 


Matthías Sævar tók til máls. Hann segir að erfitt sé að neita þessu en ætlar að gera það sem stendur. Hann segir að þar til frekari starfsemi er komin þá er hann ekki tilbúinn að samþykkja þetta en segir að það þýði ekki að á síðari stigum sé hægt að styðja við þetta. Hann segir að það sé ekki gata sem heitir Norðurfjara. Grettir leiðréttir það.  Matthías leggur til að erindinu verði vísað til Umhverfis- og skipulagsnefndar um nafnabreytingu.


Grettir og Þorgeir taka undir tillögu Matthíasar. Oddviti biður með handauppréttingu að samþykkja að fela umhverfis- og skipulagsnefnd að taka erindi um nafnabreytingu fyrir. Samþykkt samhljóða.


Hvað varðar niðurfellingu fasteignagjalda telur oddviti að þar sem upphæðin er nokkuð há að það er ekki hægt að samþykkja niðurfellingu fasteignagjalda. Hann vill hins vegar óska eftir viðræðum við bréfritara um aðra fleti í samstarfi við sveitarstjórn.


Oddviti kallar eftir kosningu með handauppréttingu um að hafna beiðni um niðurfellingu fasteignagjalda. Samþykkt með fjórum atkvæðum, Grettir Örn situr hjá.


12. Erindi til sveitarstjórnar, Kirkjugarðaráð, 29.1.24


Oddviti rakti eðli máls og lagði til að sveitarstjórn staðfesti áhuga sinn á þátttöku í fundi Kirkjugarðaráðs. Leiðréttist hér með að erindið barst 29.1.25.

Hlíf tók til máls og er sammála um þátttöku á fundinum. Oddviti óskaði eftir kosningu með handauppréttingu, samþykkt samhljóða.


13. Vestfjarðastofa, Græn skref-vegferðin hefst


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Matthías tók til máls. Hann og Hlíf hafa rætt að næst þegar sveitarfélagið kaupir bíl að þá verði keyptur rafmagnsbíll.


14. Fundargerð stjórnar Sorpsamlags Strandasýslu ehf, 4.2.25

Oddviti sagði frá efni fundarins.  Orðið gefið laust. 

Til máls tók Matthías Sævar Lýðsson. Honum er ekki ljóst hvort verið er að biðja um ábyrgð sveitarstjórnar um lántöku Sorpsamlagsins.


Þorgeir Pálsson tók til máls. Þar sem Strandabyggð er 80% eigandi í Sorpsamlaginu, þarf sveitarstjórn að samþykkja að taka lán.


Matthías nefnir að í fyrirtækjaskrá er Strandabyggð eigandi 72% og að raunverulegur eigandi er Jón Gísli Jónsson, sem þarf að breyta.

Hann spyr hvort að eingöngu Strandabyggð hafi greitt fyrir pressuna. Þorgeir staðfestir það.

 

A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

„Í minnisblaði formanns stjórnar Sorpsamlagins frá 14. janúar 2025 kemur fram að skuld þess við Strandabyggð sé 23.563.001 kr. um áramót. Það er algerlega óásættanlegt að Strandabyggð leyfi skuldum sjálfstæðs fyrirtækis, að safnast svona upp, án þess að grípa til aðgerða. Það er skiljanlegt að einhver viðskiptaskuld myndist, þar sem útseld vinna Strandabyggðar eru svona mikil, en að skuldin sé um 37% af heildar rekstarkostnaði síðasta árs er ansi mikið. Það er mjög óábyrgt af stjórn Sorpsamlagins að bregðast ekki við fyrr. Koma verður á virku eftirliti með fjármálum Sorpsamlagsins þannig að slíkt gerist ekki aftur.“

 

Matthías telur að það sé ekkert annað í stöðunni en að taka á þessu og tekur fram að Sorpsamlagið er sjálfstæður rekstur með sér kennitölu en ekki B-hluta fyrirtæki.

 

Þorgeir tók til máls. Hann nefnir að tölvupóstsamskipti þeirra á milli sé ekki til umræðu þar sem þau gögn komu ekki fram með tveggja daga fyrirvara. Það er margt sem verið er að gera í Sorpsamlaginu og er fyrirtækið að vaxa. Allt var þetta unnið í samstarfi við endurskoðanda sveitarfélagsins. Þorgeir er tilbúinn til að ræða þetta enn frekar með minnisblaði á næsta sveitarstjórnarfundi.

 

Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Strandabyggð á hluta í Sorpsamlaginu og eigendur þurfa að ábyrgjast lántöku. Hún spyr hvort önnur sveitarfélög sem eru hluta eigendur í Sorpsamlaginu þurfi einnig að samþykkja lántöku. Oddviti svarar því játandi. Matthías spyr hvort að önnur sveitarfélög séu komin með gögn og hvort það séu komin viðbrögð, oddviti segir að það sé búið að senda fundargerðina en að engin viðbrögð séu enn komin.


15. Lántaka Sorpsamlags Strandasýslu ehf


Oddvit rakti ákvörðun stjórnar Sorpsamlagsins og lagði til að sveitarstjórn samþykkti lántökuna.

Samþykkt samhljóða.


16. Fundargerð FRÆ nefndar, 6.2.25


Oddviti rakti efni fundarins.

Fundargerð lögð fram til kynningar.


17. Ný skólastefna Strandabyggðar, til afgreiðslu


Oddviti sagði frá því að á fundi fræðslunefndar í nóvember sl. hefði gleymst að beina því formlega til sveitarstjórnar, að hefja vinnu við gerð skóla-/menntastefnu.  Því væri þessi liður kominn hér með og vísaði oddviti þar í tilmæli nefndarinnar.  Oddviti lagði til að sveitarstjórn samþykkti tilmæli nefndarinnar. 


Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Hún nefnir að ekki sé gert ráð fyrir gerð skólastefnu í fjárhagsáætlun. Oddviti telur að þetta sé ekki verkefni sem ætti að vera tekið fram í fjárhagsáæltun. Hann nefnir að þetta sé ekki fjárfesting eða framkvæmd heldur liður í rekstri fræðslusviðs.


Hlíf veltir fyrir sér hvort þetta sé verkefni sem má bíða til næsta árs.


Þorgeir telur svo ekki vera, þar sem núverandi skóla-/menntastefna er frá 2015.


Matthías Sævar Lýðsson tók til máls.


Oddviti leggur til að samþykkja tilmæli nefndarinnar með handauppréttingu, samþykkt með fjórum atkvæðum, Hlíf Hrólfsdóttir situr hjá.


18. Fundargerð TÍM nefndar, 27.1.25


Oddviti gaf formanni nefndarinnar, Júlíönu Ágústsdóttur orðið sem rakti efni fundarins.

 

Varðandi lið 8 um Folfvöll Strandabyggðar, nefndin leggur til að völlurinn verði nefndur Hafdísarvöllur og nefnir að hann er á mögulegu byggingasvæði.


Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls.


Þorgeir tekur til máls og segir að sveitarstjórn þurfi að taka afstöðu til vígslu Folf vallarins og mögulega breytingu á staðsetningu. Þorgeir leggur til að sveitarstjórn samþykki tillögu nefndarinnar um vígslu snemma sumars og sveitarstjóra falið að koma málinu í farveg. Samþykkt samhljóða með handauppréttingu.

 

Varðandi lið nr. 10 leggur oddviti til að sveitarstjórn þakki nefndinni fyrir tillöguna og rannsóknarsetrinu fyrir þessa vinnu. Hann veltir fyrir sér hvort þetta mál eigi að fara fyrir vinnufund sveitarstjórnar þar sem hægt er að viðra hugmyndir og koma í viðeigandi farveg.

Matthías tekur til máls. Héraðsskjalasafn hefur verið til umræðu í sveitarstjórn í lengri tíma en það þarf að reka þetta og hafa starfsmann, einnig vantar húsnæði.

Oddviti leggur til að sveitarstjórn þakki nefndinni fyrir tillöguna og rannsóknarsetrinu fyrir þessa vinnu og vísi málinu til vinnufundar sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða.

 

Varðandi lið nr. 11 leggur oddviti til að sveitarstjórn þakki nefndinni fyrir tillöguna og feli skrifstofu Strandabyggðar að finna málinu farveg í tengslum við endurgerð heimasíðu sveitarfélagsins. Samþykkt samhljóða.

 

Matthías tók til máls. Hann segir að honum hafi sárnað við nefndina að ekki var tekið til umræðu Hrútaþukl og Náttúrubarnahátíð.

Júlíana tók fram að það voru ekki komnar upplýsingar um þá viðburði þegar fundurinn var haldinn.

 

Fundargerð annars lögð fram til kynningar.


19. Vinnuskýrsla sveitarstjóra


Lögð fram til kynningar, orðið gefið laust.


Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og spyr um fundi fræðslustjórnar. Hún spyr hvort það séu til fundagerðir þar sem sveitarstjórn veit ekki hvað á sér stað í fræðslustjórn.

Oddviti segir að ekki sé haldin fundagerð en það er google docs skjal sem er lifandi skjal þar sem skrifað er hvað er tekið fyrir á fundinum og einnig vettvangur fyrir fulltrúa Ásgarðs, skólastjóra og sveitarstjóra til að koma áleiðis upplýsingum.


Hlíf spyr einnig út í Barnvænt samfélag varðandi fund með verkefnastjóra, spyr hvort það sé á landsvísu. Oddviti segir svo vera.


Matthías spyr hvort að fræðslustjórn sé stjórnsýsluleg stjórn, oddviti segir svo ekki vera.


Matthías spyr hvort það sé komið svar frá Orkubúi Vestfjarða vegna jarðhitaleitar, oddviti segir svo ekki vera.


Matthías spyr hvort það sé komið svar frá nágranna sveitarfélögum vegna fyrirspurnar um sameiningu. Oddviti segir svo ekki vera.


Matthías nefnir að það þurfi að taka fram hvernig hljóðskrá eigi að vera geymd og framkvæmd. Hann telur að upptökur sveitarstjórnafunda þurfi að taka fram í samþykkt um stjórn og fundasköp Strandabyggðar.


20. Forstöðumannaskýrslur


Lagðar fram til kynningar.  Orðið gefið laust.


Matthías tók til máls og þakkar fyrir skýrslurnar. Hann væntir þess að sjá forstöðumannaskýrslu frá forstöðumanni eignasjóðs í framtíðinni.


21. Brák íbúðafélag, fundargerð ársfundar, 15.1.25


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Matthías tók til máls. Hann nefnir að fundurinn snerist ekki um Strandabyggð en nefnir átök um íbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Tekið var fram á fundinum að leigjendur Brákar mega ekki greiða meira en ¼ af heildartekjum í leigu. Hann veltir fyrir sér hvort Strandabyggð þurfi að huga að meiri eignahlut til að leigutekjur standi undir kostnaði.


22. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða, fundargerð 12. Fundar, 20.1.25


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Enginn tók til máls.

 

23. Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerðir 960., 961. og 962. fundar stjórnar, 13.12.24,

17.1.25 og 22.1.25


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Enginn tók til máls.


24. Hafnasamband Íslands, fundargerðir 468. og 469. fundar stjórnar, 24.1.25 


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Enginn tók til máls.

 

 

25. Vestfjarðastofa, fundargerð 66. fundar stjórnar og stjórnarfundar Fjórðungssambands

Vestfirðinga, 29.1.25 


Lagt fram til kynningar, orðið gefið laust.


Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Hún nefnir bókun heimastjórnar Patreksfjarðar varðandi stöðugildi starfsmanna Vestfjarðastofu. Hún nefnir að það er gott að það er passað upp á að það séu tvö stöðugildi á starfssvæðinu.

 

Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl 18:03.

Hljóðskrá má finna hér: http://www.strandabyggd.is/stjornsysla/tilkynningar/skra/4460/
Mælt er með því að hlaða hljóðskránni niður. 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón