A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur nr. 1366- Aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar, 12. júlí 2024

Fundur nr. 1366 sem er aukafundur í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn föstudaginn 12. júlí kl. 14.00 að Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Óskar Hafsteinn Halldórsson, Matthías Sævar Lýðsson og Hlíf Hrólfsdóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

Fundardagskrá er svohljóðandi:

1. Samningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar
2. Vinnuskýrsla sveitarstjóra – júní


Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun.

Hlíf tekur til máls og spyr út í staðsetningu fundarins en betur færi að halda alla fundi sveitarfélagsins í Hnyðju en þar er aðgengi fyrir alla.

Oddviti tekur til máls og telur að þetta sé eðlileg athugasemd og þurfi að skoða samþykktir sveitarfélagsins með tilliti til þessara athugasemda.


Þá var gengið til dagskrár:


1. Samningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar

Oddviti tekur til máls og nefnir í formála að bæta þurfi verkferla og samningagerð í heild vegna samninga við verktaka og vill hann setja það í fastara form og vinna frekar.

Varðandi samninginn við Litla Klett tekur oddviti fram að fyllsta öryggis verði gætt og stöðlum fylgt.

Oddviti gaf orðið laust.

Matthías Sævar Lýðsson tekur til máls og nefnir að hann hafi kynnt sér fyrirkomulag leikskólalóða og girðingar og grjóthleðslur og að yfirleitt séu notað náttúrlegt grjót frekar en sprengigrjót.

Matthías óskar eftir að leggja fram eftirfarandi spurningar frá A-lista:

1. Hvað lagði verkefnisstjóri Verkís til málanna varðandi Leikskólalóðina?

2. Stækkun girðingar heftir aðgengi OV að spennistöð. Hvernig á að tryggja aðgengi að spennistöðinni? Var búið að samþykkja breytingu á skipulagi á þessu svæði? Í drögum að aðalskiplagi Strandabyggðar er ennþá sýnd gata þarna milli Braggans og leikskólans.

3. Rúmast það innan innkaupareglna Strandabyggðar að koma fram með afar breyttan samning, með öðrum kostnaðartölum, 10 mánuðum eftir að málið var tekið fyrir í sveitarstjórn?

4. Hvar á að finna 110 steina 90x90 til að setja á leikskólalóðina? A-lista finnst það vera afar slæm hugmynd að setja egghvasst grjót inn á leikskólalóð. Hvar á sveitarfélagið námu þar sem nægilegt magn er af efni sprengdu eða ósprengdu? Hvaða breytingar á tímaramma gætum við verið að horfa fram á? Yrði byrjað og brekkunni rústað og hún látin standa þannig þar til sprengjandi kemst í verkið? Eða yrði verkinu í heild sínu frestað ef allir sprengistjórar landsins eru verkum hlaðnir næstu mánuði?

5. Það eru til aðrar lausnir en sprengigrjót, s.s. til þess gerðir hleðslusteinar. Hafa sveitarstjórnarmenn kynnt sér þær eins og bent var á í bréfi til þeirra?

6. Í samningum er gríðarlegur dulinn kostnaður sem mun falla á Strandabyggð. Þetta eru t.d. að útvega hleðslugrjót og flytja, sjá um förgun jarðvegs, taka að sér kostnað við gistingu, mat og akstur. Hvað kostar að flytja gröfu? Í því sambandi bendir A-listi á að samkvæmt þessum samningi er verktaka óheimilt að vera með undirverktaka í jarðvegsvinnu – Er það til að koma í veg fyrir að heimamenn geti fengið vinnu?

7. Ætli við teljumst ekki á snjóþungu svæði allavega teljum við að leikskólinn sé á slíku svæði. Fyrir utan þetta er er 120 cm girðing of lág fyrir öfluga krakka og svo er kostnaðurinn óheyrilegur eða 52.000 fyrir hvern lengdarmeter eða krónur 6.760.000,-. Hver er kostnaður við að mála þá girðingu?

8. Finnst sveitarstjórnarmönnum eðlilegt að aðalráðgjafi oddvita/sveitarstjóra varðandi hönnun og framkvæmd verksins sé tilboðsgjafinn þ.e. verktakinn?

9. Ekki sést neinn kostnaður við drenlögn – er ekki talin þörf á henni á þessu svæði?

10. Ekki er gert ráð fyrir kostnaði við að taka upp eldri girðingu eða fjarlægja leiktæki sem var í fyrra tilboði. Er gert ráð fyrir að starfsmann hreppsins taki þá vinnu að sér og hvaða starfsmenn eru þá tiltækir í þá vinnu í næstu viku?

11. Þarf ekkert að skilgreina betur hvernig á að standa að öryggismálum þegar leikskóli hefur aftur störf? Hvernig er með tryggingamál sveitarfélagins ef slys yrði á lóðinni meðan á framkvæmdum stæði og leikskólastarf væri hafið? Það er áberandi öryggisgirðingar á öllum vinnumyndum frá Kröflu (fyrirtæki sem allt í einu kemur fyrir í tölvupósti frá oddvita) og aðeins einn leikskóli þar sem girðingin er ekki úr járni.

12. Viðmiðunarteikning? Hvenær kemur þá lokateikning af þessu verki?

13. Gröftur 800m2 hversu djúpt á að grafa? Á þetta kannski að vera 800m3?

14. Fylla 75 metra? Hver á dýptin á þessari (vonandi) frostfríu fyllingu að vera? Á ekkert að þjappa þetta? Ekkert um þjöppun í magnskránni. Grús á staðnum? Hvar á sveitarfélagið grús? Varla á leikskólalóðinni, þarf ekki að gera ráð fyrir flutningi á grús sem "öðrum kostnaði" sem fellur á okkur?

15. Hvar verða þökurnar keyptar? Reglur um flutning jarðvegs í gildi á okkar sauðfjárveikivarnarsvæði.

Oddviti tekur til máls og þakkar fyrir spurningarnar og útskýrir ýmis atriði samningsins. Varðandi lið nr. 3 telur oddviti það ósanngjarna spurningu að samningurinn hafi legið á borðinu sl. 10 mánuði því það hafi legið ljóst fyrir að samningurinn yrði gerður við Litla Klett. Á þessum tíma gerði Litli Klettur athugasemd við umfang og kostnað við leikskólalóðina sem þurfti að endurhanna. Ýmislegt annað td. svörun vegna stjórnsýslukæru hefur einnig komið upp á á tímanum sem hefur tafið málið. Oddviti tekur einnig fram að verktaki muni ekki rukka fyrir óunnið verk heldur það sem gert verður samkvæmt uppmælingu.
Matthías óskar eftir að þetta svar oddvita verði bókað.
Oddviti útskýrir að óþarfi sé að benda á að öryggisráðstafanir verði ekki til staðar því það sé ætíð gætt að öryggi barna á leikskólalóð og að farið verði eftir byggingarreglugerðum.

Rætt var um að þökur yrðu keyptar af réttum svæðum og þess gætt að tekið verði tillit til sauðfjárveikivarna.

Mörgum af þessum spurningum var svarað og misskilningi eytt og tekið tillit til réttmætra ábendinga.

Matthías tekur til máls og A-listinn leggur fram eftirfarandi bókun:

Bókun A-lista

„Nú hefur sveitarstjóri haft 10 mánuði til að ganga frá samningi vegna endurgerðar leikskólalóðar. Þrátt fyrir þennan rúma tímaramma var ekki búið að ganga frá samningsdrögum fyrir síðasta sveitarstjórnarfund í tíma þannig að ekki var hægt að taka málið fyrir. Á sveitarstjórnarfundi 12. September 2023 var samþykkt að: „Nánari og ítarlegri útfærsla verði unnin af fulltrúum Litla Kletts, sveitarstjóra, starfsmönnum áhaldahúss og verkefnastjóra Verkís.“ Í svari oddvita við spurningum um framkvæmdir við leikskólalóð vísar hann til þess sex sinnum að Litli Klettur haldi hinu og þessu fram. Hvergi er vitnað í starfsmenn áhaldahúss eða verkefnisstjóra Verkís. Þeir hafa því líklega ekki verið með í ráðum. Það er ekki traustvekjandi og í raun fáránlegt að aðalráðgjafi við verkið sé tilboðsgjafinn. Stækkun girðingar við leikskólann lokar fyrir aðgengi Orkubús Vestfjarða að stórri spennistöð sem er fyrir ofan Braggann. Á því svæði var skilgreind gata áður. Slíkar skipulagsbreytingar þarf að leggja fyrir US nefnd áður en skipulagi er breytt. Það virðist ljóst mál að með því að gera þennan samning eru Innkaupareglur Strandabyggðar brotnar. Verklýsingin og kostnaðaráætlun hefur tekið það miklum breytingum frá upphaflegum áætlunum að í raun ætti að gera nýja verðfyrirspurn. Við slíkt verk sem til stendur að fara í eru öryggisgirðingar skylda. Ekki er gert ráð fyrir neinum kostnaði í þær. Það eru forkastaleg vinnubrögð að gera ráð fyrir að það sé verið að vinna á leikskólalóð á meðan leikskóli er í gangi án öryggisgirðinga. Í upphaflegu tilboði var gert ráð fyrir skjólgirðingu. Nú er aftur á móti gert ráð fyrir járngirðingu sem í „Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum“ segir að „Ef girðingastaurar, ljósastaurar og hlið eru úr járni t.d. galvaniseruð, þarf að mála þau upp í 1,5 metra hæð því annars er hætta á að börn geti fest við þau tungu eða fingur í frosti.“ Hvergi sést gert ráð fyrir þeim kostnaðarlið. 30 milljónir á þessu ári duga skammt þegar bara þessi hluti er upp á 15.8 mill plús "annan kostnað" sem gera má ráð fyrir að muni blása út. Sveitarstjórnarmönnum A-lista finnst sá samningur sem hér er til afgreiðslu ófullnægjandi. Fyrirhuguð framkvæmd uppfyllir ekki öryggiskröfur með tilliti til velferðar barna á leikskólalóðum og óljóst hver kostnaður sveitarfélagsins verður.“

Oddviti óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

“Það liggur fyrir að samþykkt var af meirihluta sveitarstjórnar í september 2023 að fá Litla Klett í þetta verkefni. Enginn annar aðili sýndi þessu verki áhuga né gerði tilboð. Frekari verðfyrirspurn er því ekki á dagskrá. Umræða um samningsdrögin er góð og hefur útskýrt margt og leiðrétt margt og mun auðvelda frágang á endanlegum samningi. Bókun A-lista talar fyrir sig en óhjákvæmilega spyr maður sig hvort A-listinn vilji raunverulega sjá þessa framkvæmd raungerast.”

Oddviti leggur til að staðfest verði við Litla Klett að verk geti hafist og samningurinn er staðfestur með fyrirvara um þau atriði sem leiðrétt verða og komu fram hér og endanlegur samningur lagður fram á fundi sveitarstjórnar þann 13. ágúst nk.

Tillagan er lögð fram til samþykktar. Tillagan er samþykkt með þremur atkvæðum T-lista en fulltrúar A-listi sitja hjá.

2. Vinnuskýrsla sveitarstjóra – júní

Oddviti útskýrði atriði vinnuskýrslunnar fyrir sveitarstjórn, nokkrar spurningar vöknuðu sem oddviti svaraði.

Oddviti nefnir að í vinnuskýrslunni komi fram minnispunktar um réttarsmíði í Kollafirði og tekur fram að á mánudaginn verði birt auglýsing þar sem auglýst verði eftir fagaðila til að smíða nýja rétt í Kollafirði. Auglýst var fyrr í vor eftir verktaka en eitt tilboð barst sem var langt umfram kostnaðaráætlun.
Fundarmenn voru sammála um að koma verkinu af stað.

Hlíf tekur til máls og nefnir sameiningarmálin og mikilvægi þess að skoða alla möguleika sem fyrst.


Fleira ekki fyrir tekið

Fundi slitið kl. 15:30

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón