A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Sveitarstjórnarfundur í Strandabyggð nr. 1365, 09.07.2024

Sveitarstjórnarfundur 1365 í Strandabyggð 

Fundur nr. 1365 í sveitarstjórn Strandabyggðar var haldinn þriðjudaginn 9. júlí kl. 16.00 í Hnyðju, Höfðagötu 3, Hólmavík. Eftirtaldir sveitarstjórnarmenn sátu fundinn: Þorgeir Pálsson oddviti, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir, Grettir Örn Ásmundsson, Matthías Sævar Lýðsson og Guðfinna Lára Hávarðardóttir. Salbjörg Engilbertsdóttir skrifstofustjóri sat einnig fundinn og ritaði fundargerð.

 

Fundardagskrá er svohljóðandi:

  1. Erindi Jóns Jónssonar frá 6. júní 2024 varðandi fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu.
  2. Erindi frá Ester Sigfúsdóttur vegna heiðursverðlauna
  3. Erindi frá Jakub Novotný vegna staðsetningar kæligáma
  4. Erindi frá Oddnýju Björg Rafnsdóttur, fyrirspurn um færsluhirði
  5. Breyting af skipan fulltrúa T-lista í sveitarstjórn
  6. Umsóknir í Tónlistarskólann á Akureyri – nám utan sveitarfélags
  7. Samningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar
  8. Staða uppbyggingar í grunnskóla, yfirlit
  9. Jöfnunarsjóður erindi vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða frá hausti 2024 ásamt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.
  10. VesturVerk, upplýsingar um stöðu undirbúnings Hvalárvirkjunar
  11. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið: Tilboð til sveitarfélaga um styrk til að ljúka lagningu ljósleiðara til allra lögheimila utan markaðssvæða í þéttbýli.
  12. Velferðarnefnd – Reglur um stuðningsþjónustu
  13. Fræðslunefnd, afsögn varamanns
  14. Ungmennaráð fundargerð frá 9. júní 2024
  15. Vinnuskýrsla sveitarstjóra
  16. Forstöðumannaskýrslur
  17. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða fundargerðir nr. 3, 4 og 5 2024
  18. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða bréf vegna stýrihóps
  19. Fjórðungssamband Vestfjarða, þinggerð 69. fjórðungsþings
  20. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 948, 949 og 950

 

Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun.

Matthías Sævar Lýðsson gerir athugasemd við fundarboðið og A-listi leggur fram eftirfarandi bókun:

“Í aðdraganda fundar óskað Matthías Sævar Lýðsson eftir að tekið yrði á dagskrá fundarins að huga að því að ráða afleysingasveitarstjóra vegna veikinda Þorgeirs Pálssonar, svo verkefni hlaðist ekki upp á meðan þetta ástand varir. Sveitarstjóri hafði greint frá því í rafpósti, að hann væri í 50-100% veikindaleyfi. Oddviti neitaði að taka málið á dagskrá með þeim orðum að „það er ekki þörf á að ráða afleysingarsveitarstjóra né taka það fyrir á sveitarstjórnarfundi. Það verður því ekki gert.“ 

Ennþá einu sinni og þrátt fyrir álit Innviðaráðuneytis frá 10. nóvember 2023 neitar oddviti sveitarstjórnarmanni um að taka mál á dagskrá sveitarstjórnarfundar, sem hann á rétt á.

Gögn varðandi liði 5, 7, 8 og 15 bárust ekki á tilsettum tíma heldur aðeins sólarhring fyrir fund. Í Samþykktum um stjórn og fundarsköp sveitarfélagsins Strandabyggðar stendur: „Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins skal hafa sent sveitarstjórnarmönnum fundarboð sveitarstjórnarfundar ásamt dagskrá og fylgigögnum, þannig að þau gögn berist þeim í síðasta lagi tveimur sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfund.“ Það er því óheimilt að taka þessa liði á dagskrá fundarins.”

 

Oddviti útskýrir málið en leggur til að kosið verði um tillögu A-lista að óska eftir afleysingu fyrir sveitarstjóra. Borið undir atkvæði og fulltrúar A-lista Matthías og Guðfinna kjósa með tillögunni en fulltrúar T- lista þau Þorgeir, Grettir og Sigríður kjósa gegn tillögunni.

Oddviti útskýrir sömuleiðis ástæður þess að gögn hafi borist seint vegna liða nr. 5, 7, 8 og 15 og beri hann ábyrgð á því.


Matthías tekur til máls og telur það ábyrgðarhluta, sérstaklega vegna liðar nr. 7 sem er samningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar. En þar sem sveitarfélagið beri ábyrgð á samningnum, meðal annars með tilliti til öryggis á leikskólavöllum og ýmissa annara mála og ekki verið tími til að kynna sér öll gögn vegna skamms fyrirvara, verði málinu frestað til næsta fundar.

Oddviti tók fram að öll þessi gögn hafi komið fram áður, utan samningsins sjálfs.


Oddviti ber fram tillögu og leggur til að liðum nr. 5, 7, 8 og 15 verði frestað til næsta fundar þar sem gögn bárust seint. Borið undir atkvæði og sveitarstjórn samþykkir samhljóða.


Þá var gengið til umræðu. 

  1. Erindi Jóns Jónssonar frá 6. júní 2024 varðandi fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu.

Oddviti bað varaoddvita, Sigríði Guðbjörgu Jónsdóttur, að taka við stjórn fundarins, og varamann sinn, Þröst Áskelsson, að taka sæti sitt. Því næst vék Þorgeir af fundi. 

Sigríður Guðbjörg tók við stjórn fundarins. Sigríður fór yfir málið og las upp meðfylgjandi greinargerð:

„Þann 6. júní sl. sendi Jón Jónsson erindi til sveitarstjórnar Strandabyggðar þar sem hann tilkynnti sveitarstjórn um fyrirhugaða undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu þar sem óskað yrði eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðaði sveitarfélagið. Ætlunin væri að safna undirskriftum til að kosið yrði um þá kröfu til sveitarfélagins að það standi fyrir því að gerð yrði óháð rannsókn á ásökunum lykilstarfmanna sveitarfélagins, sveitarstjóra annars vegar og íþrótta- og tómstundafulltrúa hins vegar, í hans garð. 

Í byrjun júlí sl. áttu fulltrúar í sveitarstjórn og lögfræðingur sveitarfélagsins fund með Jóni Jónssyni þar sem farið var yfir fyrrgreint erindi.  Á þeim fundi kom m.a. fram að Jón Jónsson væri reiðubúinn að falla frá fyrirhugaðri undirskriftarsöfnun í sveitarfélaginu ef sveitarstjórn samþykkti að láta fara fram úttekt á öllum greiðslum til hans svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar.“


Í ljósi framangreinds hefur sveitarstjórn ákveðið að leggja fram eftirfarandi tillögu, sem lögð er fram í samráði við Jón Jónsson.


Tillaga:

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir að leitað verði til endurskoðunarfyrirtækisins KPMG, sem annast endurskoðun ársreikninga sveitarfélagsins, um að gera úttekt á öllum greiðslum til Jóns Jónssonar, kt. 050468-4969 svo og þeirra fyrirtækja og stofnana sem eru/voru í hans eigu eða sem hann tengdist með stjórnarsetu, á þeim tíma sem hann sat í sveitarstjórn Strandabyggðar, þ.e. á árunum 2010 – 2014 og 2019 – 2022.

Við fyrrgreinda úttekt verði lagt mat á hvort fullnægjandi samþykktir eða samningar hafi staðið að baki þeim ákvörðunum af hálfu sveitarfélagsins sem lágu til grundvallar umræddum greiðslum/fjárveitingum og hvort þær hafi að öllu leyti verið teknar í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga, samþykkta og siðareglna Strandabyggðar. 

Fyrrgreindri úttekt skal lokið við fyrsta tækifæri og eigi síðar en 30. september næstkomandi. Niðurstöður úttektarinnar skulu kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.


Tillagan er borin undir atkvæði sveitarstjórnar og er hún samþykkt samhljóða.


Sveitarstjórn felur jafnframt varaoddvita og skrifstofustjóra að senda beiðni til endurskoðanda sveitarfélagsins um að gera úttektina samkvæmt tillögunni.


Þröstur víkur af fundi og Þorgeir tekur sæti sitt að nýju.


     2. Erindi frá Ester Sigfúsdóttur vegna heiðursverðlauna


Oddviti rakti tilurð þessa máls og gaf orðið laust.


A-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

“Sveitarstjórnarmenn A-lista hafa skilning á afstöðu Esterar Sigfúsdóttur og þakka henni fyrir framlag hennar til menningarmála á liðnum árum.”


T-listi óskar eftir að leggja fram eftirfarandi bókun:

„T- listi Strandabandalagsins harmar þá ákvörðun Esterar Sigfúsdóttur, að afþakka heiðursverðlaun Strandabyggðar, sem hún fékk þann 17. júní sl.  Ester er vel að þessum verðlaunum komin, enda staðið vel að uppbyggingu Sauðfjárseturs á Ströndum og öðrum tengdum verkefnum. Sú ákvörðun Esterar að afþakka verðlaunin eru þeim án efa vonbrigði sem tilnefndu hana, líkt og okkur í Strandabandalaginu. Við þökkum henni fyrir sína vinnu í þágu samfélagsins og megi henni farnast vel í hennar verkefnum í framtíðinni.“

 

Erindi Esterar er hér með tekið til greina og sveitarstjóra og skrifstofustjóra falið að fjarlægja nafn hennar af lista í tengslum við verðlaunahafa menningarverðlauna Strandabyggðar.


     3. Erindi frá Jakub Novotný vegna staðsetningar kæligáma

 

Oddviti tók undir með bréfritara og þakkaði honum fyrir erindið. Fyrir liggur að farið verður í að fjarlægja gáma í sumar og verður þar byrjað á gámum sem hægt eru að staðsetja á gámasvæði og einnig verður ónýtum gámum fargað. Sumarið 2023 var haldinn fundur með hlutaðeigandi og eins er búið að tilkynna þessa tiltekt á heimasíðu Strandabyggðar, fyrr á þessu ári, þannig að nú er ekkert sem tefur.

 

Matthías tekur til máls og þakkar erindið og nefnir að þetta mál hafi einnig komið til umræðu í US nefnd og telur að það vanti betri lausnir um staðsetningu gámanna.

 

Guðfinna Lára tekur til máls og spyr út í svör oddvita varðandi að ekki sé gert ráð fyrir staðsetningu beitningargáma í aðalskipulagi en á sama tíma er búið að endurskipuleggja núverandi gámasvæði á Tanga.

 

Oddviti bendir á að unnið hafi verið að aðalskipulagi en endanleg staðsetnings gáma sem þurfa rafmagn er ekki ljós en aðrir gámar geta fengið pláss á gámasvæði í Réttarvík. Hann ítrekar að lausn verði ekki fundin nema með hlutaðeigandi.

 

Matthías bendir á að einungis eru tveir dagar þar til frestur til athugasemda við vinnslutillögu aðalskipulags fyrir Strandabyggð rennur út.

     4. Erindi frá Oddnýju Björgu Rafnsdóttur, fyrirspurn um færsluhirði


Oddviti gaf orðið laust.


Matthías tekur til máls og tekur fram að færsluhirðir Strandabyggðar sem er Rapyd, að aðaleigandi þess hafi opinberlega lýst yfir skoðun sinni á Palestínumönnum og þar með lýst afstöðu sinni gegn þeim. Matthías leggur til að skrifstofustjóra verði falið að skoða alla möguleika í færsluhirðingu.


Oddviti tekur til máls og tekur fram, að með þessu sé verið að leggja fram ósk um siðferðislega afstöðu Strandabyggðar til þessa máls. Engin umræða til þessa máls hefur farið fram hjá sveitarstjórn Strandabyggðar og oddviti hvetur því fundarmenn til að hugleiða afstöðu sína og hvort sveitarstjórn ætti að mynda sér skoðun á þessu máli. Oddviti benti einnig á að bakvið þetta fyrirtæki eru einnig störf og fólk með aðra afstöðu en þetta erindi byggir á.

Sveitarstjóra og skrifstofustjóra er falið að vinna úr og svara bréfritara samkvæmt umræðu fundarins.


     5. Breyting af skipan fulltrúa T-lista í sveitarstjórn

     6. Umsóknir í Tónlistarskólann á Akureyri – nám utan sveitarfélags

 

Oddviti gaf skrifstofustjóra orðið og bað Salbjörgu að gera grein fyrir þessum greiðslum.


Salbjörg útskýrði samkomulag Sambands sveitarfélaga við Mennta- og menningarmálaráðherra frá árinu 2018 um jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms en á grundvelli samkomulagsins tryggja sveitarfélög að nemendur sem uppfylla inntökuskilyrði tónlistarskóla og reglur um námsframvindu geti stundað tónlistarnám á framhaldsstigi í hljóðfæraleik og söng án tillits til búsetu. Á móti greiðir ríkið styrktarframlag sem skiptist á milli sveitarfélaganna. Áætlaður kostnaður Strandabyggðar vegna þessa yrði kr. 2.050.000 en mögulegt styrkframlag frá Jöfnunarsjóði kr. 1.090.000 og framlag sveitarfélagsins því um 960.000.


Oddviti leggur til að erindið verði samþykkt og ber undir atkvæði sveitarstjórnar sem samþykkir erindið samhljóða.

     7. Samningur við Litla Klett vegna leikskólalóðar

     8. Staða uppbyggingar í grunnskóla, yfirlit


     9. Jöfnunarsjóður erindi vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða frá hausti 2024 ásamt erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um gjaldfrjálsar skólamáltíðir.

Oddviti rakti tilurð þessa máls og bað síðan skrifstofustjóra að segja frá kostnaði sveitarfélagsins vegna skólamáltíða. Oddviti tók fram að næsta vetur þurfi enn frekar að bæta skráningar og sundurliðun vegna mötuneytis.


Matthías tók til máls og taldi þessi mál vera í góðum farvegi og skráningar til staðar.


Skrifstofustjóri útskýrði að um væri að ræða breytingu frá næsta skólaári þar sem nú verður boðið upp á gjaldfrjálsar máltíðir fyrir börn í grunnskóla. Raunkostnaður mötuneytis grunnskóla á árinu 2023 var 13.5 milljónir en tekjur af seldu fæði kr. 3.5 milljónir og niðurgreiðsla Strandabyggðar því um 10 milljónir kr. eða um 74%. Jöfnunarsjóður hefur tilkynnt að framlag v. gjaldfrjálsra máltíða næsta skólaárs verði um 3,2 milljónir króna og því ljóst að niðurgreiðsla sveitarfélagsins mun hækka.


     10. VesturVerk, upplýsingar um stöðu undirbúnings Hvalárvirkjunar

 

Orðið gefið laust. Lagt fram til kynningar.

Matthías tekur til máls og tekur fram að með bréfinu sé verið að upplýsa um stöðuna og ber að þakka fyrir þær.


Oddviti tekur til máls og fagnar því að samkvæmt þessum gögnum sé hreyfing í jákvæða átt til framkvæmda sem T-listi telur vera tækifæri fyrir Strandabyggð.


Lagt er til að sveitarstjóra verði falið að senda þakkarbréf. Samþykkt samhljóða.


     11. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið: Tilboð til sveitarfélaga um styrk til að ljúka lagningu ljósleiðara til allra lögheimila utan markaðssvæða í þéttbýli.


Oddviti rakti tilurð þessa máls og kom inn á að ljósleiðaravæðing Hólmavíkur er ein af kröfum eða óskum Strandanefndarinnar. Stilla þarf þetta saman, sé það hægt. Síðan gaf oddviti orðið laust.


Matthías tekur til máls og er sammála oddvita um að upphæð framlags dugi skammt til að leggja í hús. Hann leggur jafnframt til að sótt verði um þennan styrk og að við sækjumst eftir hærri upphæð.


Oddviti tekur fram að frestur til umsóknar renni út 16. ágúst og vill yfirfara og vinna þessi gögn og leggja fram á næsti fundi.

Borið undir atkvæði og samþykkt samhljóða.


     12. Velferðarnefnd – Reglur um stuðningsþjónustu


Oddviti gaf formanni Velferðarnefndar, Matthíasi Sævari Lýðssyni, orðið.

Matthías útskýrði að um væri að ræða almennan stuðning inn á heimili til þeirra sem uppfylla viss skilyrði og breytingu á reglum sem vísa síðan í gjaldskrár í hlutaðeigandi sveitarfélögum.


Oddviti spurði um tvö atriði þ.e hvað sé heimilishald og reglu varðandi rétt umsækjanda um aðstoð við heimilishald deili hann húsnæðis með öðrum 18 ára og eldri.


Formaður útskýrði í stuttu máli hvað átt væri við.


Guðfinna Lára benti á fylgiskjal 1 sem útskýrir vel það sem spurt var um.


Oddviti leggur reglurnar fram til samþykktar sveitarstjórnar. Samþykkt samhljóða.


     13. Fræðslunefnd, afsögn varamanns


Oddviti sagði frá erindi Hjördísar Ingu Hjörleifsdóttur, sem segir sig formlega úr fræðslunefnd, vegna búferlaflutninga. Verður nýr fulltrúi í hennar stað tilkynntur á næsta fundi sveitarstjórnar.


Sveitarstjórn staðfestir afsögn Hjördísar Ingu Hjörleifsdóttur, þakkar henni fyrir vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar í framtíðinni.

Samþykkt samhljóða.


     14. Ungmennaráð fundargerð frá 9. júní 2024


Oddviti gaf formanni Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefndar orðið.


Sigríður Guðbjörg tók til máls og fór yfir fundargerðina.


Salbjörg skrifstofustjóri bað um orðið undir lið nr. 3 í fundargerðinni og benti á að veittur hafi verið Erasmusstyrkur á árinu 2022 sem Strandabyggð varðveitir, vegna námsferðar tómstundafulltrúa og starfsmanna félagsmiðstöðva á Vestfjörðum. Sú ferð hefur ekki verið farin og því þarf að koma því verkefni af stað.


Oddviti tók til máls og benti á að mikilvægt sé að koma því máli í farveg. Jafnframt hrósaði oddviti Ungmennaráði fyrir vel gerða fundargerð.


     15. Vinnuskýrsla sveitarstjóra

     16. Forstöðumannaskýrslur


Orðið gefið laust.


Guðfinna spyr út í stöðu verkefna.


Oddviti og skrifstofstjóri útskýra að mögulega séu skilgreiningar mismunandi á verkefnum sem eru lokið og ólokið.


Matthías spurði út í stöðuna á byggingu botnlangastöðva. Oddviti svaraði því til að útfærsla væri í vinnslu.


     17. Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða fundargerðir nr. 3, 4 og 5 frá 2024

 

Oddviti bað fulltrúa Strandabyggðar í nefndinni, Matthías Sævar Lýðsson, að gera grein fyrir starfi nefndarinnar.


Matthías tók fram að fyrstu drög að svæðisskipulaginu hafi verið birt í samráðsgátt og stefnumótunarfundur haldinn í Strandabyggð í maí. Matthías gerir athugasemdir við vinnu svæðisskipulagsnefndarinnar þar sem nánast hvergi sé minnst á landbúnað í skipulaginu og þar sem nú sé verið að pressa á sameiningu sveitarfélaga þá spyr hann að því hvort við eigum samleið með öðrum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Hann hvetur sveitarstjórnarmenn til að kynna sér drög að svæðisskipulagi innan tveggja daga þegar frestur rennur út.


Oddviti segir það áhyggjuefni að Matthías telji að ekki sé á okkur hlustað. Oddviti telur að ef hunsa eigi fyrri vinnu svæðisskipulags sem er í gildi í Strandabyggð séu það ekki góðar fréttir.


Matthías tekur til máls og er sammála því sem oddviti hefur lagt til málsins. Í umræðu um uppbyggingu á Nauteyri gleymist oft að Strandabyggð sé fiskeldissveitarfélag.


     18. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða bréf vegna stýrihóps


Orðið gefið laust.


Matthías tók til máls og segir það þurfi að fylgja eftir merkingum bíla í samráði við eftirlitið.


Oddviti undirstrikaði að sú vinna sé komin af stað.


Matthías lýsir einnig yfir áhyggjum sínum ef að draga eigi úr starfsemi Heilbrigðiseftirlitsins og leggur til eftirfarandi bókun A-lista:

“Sveitarstjórn tekur undir áhyggjur SHÍ (Samband heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi) af framtíð heilbrigðiseftirlits út um land, skertri þjónustu og fækkun starfa út á landi.”


Oddviti leggur til að bókunin verði samþykkt. Sveitarstjórn samþykkir bókunina samhljóða og felur sveitarstjóra að koma henni til skila.


19. Fjórðungssamband Vestfjarða, þinggerð 69. Fjórðungsþings

 

Orðið gefið laust.


Matthías tekur til máls og minnir á að Fjórðungsþing verði framhaldið þann 18. október í Bjarnafirði og segir það gleðiefni að dagsetning þingsins sé tekin með leitir og réttir í huga.


     20. Samband sveitarfélaga fundargerðir nr. 948, 949 og 950


Orðið gefið laust.


Enginn tekur til máls

 

Fleira ekki fyrir tekið


Fundi slitið kl. 18:15

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón