Atvinnumála- og hafnarnefnd - 23. ágúst 2010
Fundur haldinn í Atvinnumála- og hafnarnefnd Strandabyggðar mánudaginn 23. ágúst kl. 17:00 á skrifstofu Strandabyggðar. Elfa Björk Bragadóttir formaður setti og stjórnaði honum en aðrir fundarmenn voru Matthías S. Lýðsson, Jón Eðvald Halldórsson, Jón Vilhjálmur Sigurðsson og Arnar S. Jónsson varamaður sem jafnframt ritaði fundargerð. Jón Gísli Jónsson oddviti sat einnig fundinn. Eftirfarandi dagskrá lá fyrir fundinum:
1. Kynning á "samantekt á ferðamálum fyrir Atvinnumálanefnd Strandabyggðar" frá 2007
2. Umræður um samantektina o.fl. varðandi atvinnumál almennt
3. Minnisblað formanns
4. Minnisblað um umbætur tengdar hafnarsvæði
5. Önnur mál
Þá var gengið til dagskrár.
1. Kynning á "samantekt á ferðamálum fyrir Atvinnumálanefnd Strandabyggðar" frá 2007
Viktoría Rán Ólafsdóttir frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða kom á fundinn og kynnti skýrslu um samantekt á ferðamálum sem var unnin fyrir Atvinnumálanefnd Strandabyggðar árið 2007. Skýrslunni var ætlað að sýna fram á verkefni sem nefndin gæti síðan forgangsraðað og skilgreint og afhent síðan sveitarstjórn sem vinnuskjal. Af því varð ekki á sínum tíma.
Viktoría kynnti viðfangsefni skýrslunnar lið fyrir lið og fór yfir þær leiðir sem bent er á í henni til að efla og bæta aðkomu Strandabyggðar að ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.
2. Umræður um samantektina o.fl. varðandi atvinnumál almennt
Umræður fóru fram um samantekt Viktoríu og sér í lagi um hvort mögulegt væri að uppfæra eða endurvinna skýrsluna þar sem mikið vatn hefur runnið til sjávar í ferðaþjónustu undanfarin þrjú ár.
Atvinnumálanefnd leggur til að sveitarstjórn athugi hvort mögulegt sé að Atvinnuþróunarfélag Vestjarða uppfæri fyrrnefnda samantekt til dagsins í dag.
Hér vék Viktoría af fundi.
3. Minnisblað formanns
Elfa Björk upplýsti fundarmenn um stöðu mála vegna erinda sem hún sendi til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Vegagerðarinnar og Sýslumannsins á Hólmavík samkvæmt samþykkt á síðasta fundi um hvort stefnt sé að niðurskurði eða frekari sameiningu hjá þessum stofnunum. Elfa fékk jákvæð viðbrögð við fyrirspurninni og á von á formlegum svörum innan tíðar.
Rætt var um hafnarreglugerð og umgengni um hafnarsvæði og ákveðið að nefndin tæki að sér að endurskoða þessi málefni í samstarfi við hafnarvörð.
4. Minnisblað um umbætur tengdar hafnarsvæði
Sigurður Marinó Þorvaldsson hafnarvörður kom á fundinn. Lagt var fram öðru sinni minnisblað frá fundi oddvita og varaoddvita með starfsmönnum áhaldahúss Strandabyggðar þann 23. júlí. Þar var fjallað um umbætur tengdar hafnarsvæði og ýmis önnur málefni tengd svæðinu. Rætt var um stöðu þeirra málefna sem nefnd voru á minnisblaðinu.
a) Laga þarf þekju á hafskipabryggju. Hafnarvörður kynnti áætlaðar kostnaðartölur frá Siglingastofnun sem samþykkt var að óska eftir á síðasta fundi. Sigurður skýrði frá því að heildarkostnaður við verkið yrði nálægt 130 milljónum og þar af yrði hlutur hafnarinnar 25%. Verkið er ekki á áætlun fyrr en árið 2012. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún þrýsti mjög á um að verkinu verði flýtt vegna ástands stálþilsins og þekjunnar.
b) Þrýsta þarf á lengingu á grjótgarði við trébryggju til að skapa betra skjól í höfninni og eins var rætt um aðrar grjótvarnir sem þarf að koma upp. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún athugi kostnað við framkvæmdirnar og leitist við að koma þeim inn á samgönguáætlun.
c) Sveitarstjórn hefur samþykkt að athuga kostnað við að setja niður flotbryggju innst í smábátahöfninni.
d) Á síðasta fundi nefndarinnar var óskað eftir gögnum um skipulag hafnarsvæðisins vegna hugmynda um að setja upp bauju við sker skammt utan hafnarinnar. Eins var þar rætt um hvort gera ætti rennu til að taka upp báta á nýjum stað. Fram kom að vinna við aðalskipulag er yfirstandandi og þessi mál liggja því ekki ljós fyrir fyrr en skipulag hafnarinnar er fullunnið. Hafnarverði var falið að athuga hjá Siglingastofnun kostnað við að setja upp bauju við skerið í mynni hafnarinnar.
5. Önnur mál
Sigurður Marinó greindi frá því að gamli bryggjukraninn væri orðinn svo til ónothæfur vegna bilunar og bágborins ástands. Jafnframt velti hann því upp hvort mögulegt væri að færa kranann innar á bryggjuna, skammt frá nýrri krananum. Nokkrar umræður fóru fram um þetta. Samþykkt var að hafnarvörður myndi athuga hvað amar að krananum og í framhaldi af því kostnað við viðgerð.
Ekki voru tekin fyrir fleiri mál. Fundargerð lesin upp og samþykkt. Fundi slitið kl. 18:55.
Elfa Björk Bragadóttir (sign)
Jón Vilhjálmur Sigurðsson (sign)
Arnar Snæberg Jónsson (sign)
Matthías S. Lýðsson (sign)
Jón Eðvald Halldórsson (sign)
Jón Gísli Jónsson (sign)