Á næstunni hjá Tónskólanum
Miðvikudagur 12. maí: Tónfræðipróf
Þeir nemendur sem nýlega hafa lokið tónfræðibókum sínum taka tónfræðipróf á hefðbundnum tónfræðitíma (miðvikudagar kl. 14:30-15:10). Nemendum hefur þegar verið sagt hvort þeir teljast tilbúnir í prófið eður ei og eins hefur þeim verið afhentur "tékklisti" til að undirbúa sig eftir.
Mánudagur 17. maí og þriðjudagur 18. maí: Vorpróf
Nær allir nemendur Tónskólans þreyta vorpróf á sitt hljóðfæri. Prófið fer fram á skólatíma og verða börnin sótt í stofurnar eða send af bekkjarkennurum. Prófdómari kemur til okkar "að sunnan" og þeir nemendur sem þreyta stigspróf fá skriflega einkunn og umsögn og aðrir nemendur, sem ekki þreyta stigspróf, fá skriflega umsögn. Uppbygging prófsins er eftirfarandi fyrir flesta nemendur: nemandinn leikur 2 eða 3 lög/verk, nokkra tónstiga og tækniæfingar, les nótur af blaði og gengst undir einfalt tónheyrnarpróf.
Nemendur hafa verið undirbúnir af hljóðfærakennurum sínum undanfarnar vikur og mánuði fyrir þetta vorpróf.
Miðvikudagur 19. maí: Vortónleikar Tónskólans
Tónleikarnir fara fram frá kl. 17:00 til 19:00 í kirkjunni. Hver nemandi leikur eitt lag og fram koma einnig Barnakór Strandabyggðar og yngri samspilshópur Tónskólans. Vegna þess að allar líkur eru á því að sóttvarnareglur breytist nokkrum dögum fyrir þessa tónleika munum við tilkynna síðar hvort við þurfum að takmarka fjölda áhorfenda og hvernig aðrar reglur verða. Tónleikagestir mega þó reikna með að þurfa að vera með andlitsgrímu allan tímann og ekki er ólíklegt að við þurfum að númera bekkina og að fólk þurfi að skrá nöfn sín, símanúmer og kennitölur og auðvitað halda sig í sama sæti alla tónleikana.
Við vekjum athygli á því að almennt er ætlast til þess að allir nemendur og fullorðnir gestir sitji í salnum alla tónleikana en fari ekki á miðjum tónleikum. Sérlega mikilvægt er að fólk standi ekki upp og gangi um í miðjum tónlistaratriðum því slíkt hefur mjög truflandi áhrif á það barn sem er að spila, fyrir utan það að við viljum kenna börnunum okkar með góðu fordæmi að við sýnum hljóðfæraleikurunum virðingu.
Skráning í Tónskólann fyrir skólaárið 2021-2022
Verður auglýst mjög fljótlega.