Fræðslunefnd, fundur 13.03.2025
Fundargerð
Fundargerð fræðslunefndar Strandabyggðar haldinn í Hnyðju fimmtudaginn 13.3. 2025. Mættir eru Þorgeir Pálsson sem ritar fundargerð, Heiðrún Harðardóttir, Vignir Rúnar Vignisson, Valgeir Örn Kristjánsson, í fjarveru Guðfinnu Láru Hávarðardóttur og Steinunn Magney Eysteinsdóttir. Linda Jónsdóttir mætti sem fulltrúi foreldra, Magnea Dröfn Hlynsdóttir sem fulltrúi grunnskóla og Jóhanna Ragnarsdóttir fulltrúi starfsmanna á leikskóla. Á fundinum komu einnig Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri og Kristrún Lind Birgisdóttir (í fjarfundi).
Fundardagskrá:
- Skóladagatal 2025-2026, drög
- Kennslumagn – áætlun skóla og fyrirséð þörf fyrir stöðugildi við kennslu í grunnskóla
- Mönnun leikskóla og barngildi/dvalartímar
- Sérkennsluþörf leik- og grunnskóla fyrir komandi skólaár
- Starfsmannaviðtöl. Fyrirkomulag, helstu niðurstöður
- Starfsmannastefna leik- og grunnskóla. Endurskoðuð
- Staða umbóta í samræmi við umbótaáætlun leik- og grunnskóla
- Önnur mál.
Umræða
1. Skóladagatal 2025-2026, drög
Skólastjóri sagði frá því að hér er um að ræða drög. Endanleg dagatöl verða lögð fram lok apríl. Skólaráð vinnur í sömu skjölum. Eftir er að samræma við námsvísa í leikskólum ofl. Dagatölin verða áfram í vinnslu næsta mánuðinn en fulltrúar í fræðslunefnd hafa aðgang að þessari vinnu. Á eftir að samræma við önnur gögn.
Bent var á misræmi í drögum og núverandi dagatali hvað varðar opnunardag leikskóla í haust.
2. Kennslumagn - áætlun skóla og fyrirséð þörf fyrir stöðugildi við kennslu í grunnskóla
Kristrún fór yfir þau viðmið sem stuðst hefur verið við við úthlutun á kennslumagni. Núna er fjöldinn í hærri mörkum og einstaka hópar yfir viðmiðum. Grunnhlutinn kallar á 4-5 stöðugildi. Unnið er að því að samræma stoðþjónustu milli nærliggjandi sveitarfélaga. Leitað er að lausnum og nýjum leiðum í stuðningi, með sparnað í huga. Það er ekki svo að grunnskólinn sjálfur ákveði þennan fjölda, heldur er stuðst við viðurkennd viðmið. Hlutverk fræðslunefndar er að veita aðhald hvað fjölda varðar og kalla eftir rökstuðningi. Innleiðing farsældarlaga kemur inn í þessa vinnu og er reynt að samræma við starfstíma starfsmanna. Félagsmálastjóri kemur þar inn hvað varðar innleiðinguna.
3. Mönnun leikskóla og barngildi/dvalartíma
Kristrún benti á að hér er um að ræða módel í vinnslu, þar sem mönnun og framkvæmd vinnu gengur í núverandi kerfi. Upplýsingar eru því háðar hugsanlegum breytingum. Verið að skoða; hvar er fólk og hvenær. Verið að skoða barngildi per starfsmann og per klukkutíma og slík vinna skilar vitneskju um nýtingu á vinnutíma starfsmanna og hvert hlutverk hvers og eins er. Inn í þetta þarf að taka alls konar upplýsingar um nýtingu tíma, vegna t.d. styttingu. Gert er ráð fyrir að þessari vinnu ljúki í sumar. Stoðþjónusta í leikskóla er lítil og þarf að bæta.
4. Sérkennsluþörf leik- og grunnskóla fyrir komandi skólaár
Bent var á að í skólanum eru einstaklingar með skilgreindar sérþjónustuþarfir. Stuðningsþörf hvers og eins er skoðuð og metin. Reynt er að samnýta starfsmenn.
Samanburður við aðra skóla: stóru sveitarfélögin eru með mun strangara módel. En það módel sem hér er stuðst við, var m.a. notað af Ísafjarðarbæ. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ekki unnið þessi viðmið. Grunnþjónusta og stoðþjónusta er ekki alltaf aðskilin en er það hjá okkur. Þetta módel hefur verið notað lengi af sveitarfélögum á Vestfjörðum.
Spurt var um fjölda stuðningsfulltrúa við nemendur. Skilgreiningin er ávallt mismunandi og stuðningur kemur einnig frá kennurum, þroskaþjálfa og sérkennslustjóra. Því er þörfin fyrir stuðningsfulltrúa ekki meiri en raun ber vitni. Vandræði skapast þó þegar stoðþjónusta fer í afleysingar vegna veikinda.
Spurt var um raunveruleikann í dag. Það sem hér er kynnt er fyrir næsta skólaár og er í samræmi við núverandi stöðu. En þessi staða gæti breysts.
Hægt að skoða með hvaða hætti er hægt að forgangsraða þjónustu ef stoðþjónusta getur ekki sinnt sínu hlutverki vegna afleysinga. Verður tekið inn í þessa vinnu.
Fram kom ábending um að horfa ekki aðeins á gildin, heldur skoða stöðu hvers og eins. Var tekið undir þetta.
5. Starfsmannaviðtöl. Fyrirkomulag, helstu niðurstöður
Starfsmannaviðtöl eru í gangi og skólastjóri rakti það ferli.
6. Starfsmannastefna leik- og grunnskóla. Endurskoðuð
Skólastjóri fór yfir fyrirkomulagið. Rætt um líðan í starfi, starfsþróun og framhald starfs. Er í ferli. Kennarar eru að fara yfir hæfniramma. Einnig er rætt um móttöku annara starfsmanna. Á einnig við um leikskóla og tónskóla. Starfslok starfsmanna eru tekin fyrir líka.
Þetta er mikið skjal og skólaráð samþykkti starfsmannastefnu skólans. Skólaráð samþykkti einnig námsmatsstefnu skólans sem verður kynnt á næsta fundi.
7. Staða umbóta í samræmi við umbótaáætlun leik- og grunnskóla.
Samkvæmt starfsáætlun fræðslunefndar, á að gera grein fyrir framkvæmd umbóta. Sameinað skólaráð fer yfir stöðu umbóta. Horft á að viðmið um gæðastarf í leik- og grunnskóla séu í lagi. Eftir er að fara í seinna innlit í kennslustundir. Sýnt var skjal sem sýnir stöðu umbóta og er staðan vel viðundandi. Vinnan heldur áfram. Stuðst er við litakóða og verður liturinn ekki virkjaður fyrr en allar umbætur eru komnar. Búið að skoða mörg verkefni. Vinna við þetta skjal heldur áfram fram í maí.
Mikilvægt að hafa í huga ábyrgð fræðslunefndar hér. Vinna gengur vel að mati Kristrúnar.
8. Önnur mál
1. Formaður sagði frá skipan stýrihóps vegna vinnu við skóla-/menntastefnu sveitarfélagsins. Í stýrihópnum eru Þorgeir Pálsson, Grettir Örn Ásmundsson og Hlíf Hrólfsdóttur. Umsjón er í höndum starfsmanna Ásgarðs og hefst vinna strax eftir helgina.
2. Leikskólalóðin. Spurt var um hvort vinna við lóðina myndi hefjast í sumar. Formaður fór yfir stöðu mála og staðfesti að leikskólalóðin yrði unnin í sumar.
3. Uppbygging innanhúss í leikskóla. Skólastjóri sagði frá því að ákveðið hefði verið að kaupa inn búnað til að styðja við skipulagið. Hér er um að ræða ný húsgögn sem auðvelda börnunum að sjá um sig sjálf, t.d. á matartímum. Eins auðveldar þetta vinnu starfsmanna.
4. Leikskólastjóri. Spurt var hvort auglýst yrði eftir leikskólastjóra og kennurum. Formaður staðfesti að það yrði gert og skólastjóri tók undir það. Fram kom hversu mikil vinna felst í allri skriffinnsku og skýrslugerð í nútíma skólastarfi.
Fleira ekki rætt og fundi slitið kl. 17:47
Þorgeir Pálsson, ritari