A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fræðslunefnd, fundur 03.04.2025

Fundargerð

Fundur fræðslunefndar Strandabyggðar haldinn í Hnyðju, Höfðagötu 3, fimmtudaginn 3. apríl 2025. Fundur hófst kl 16.31.  Mætt eru Heiðrún Harðardóttir, Júlíana Ágústsdóttir í stað Vignis Rúnars Vignissonar, Guðfinna Lára Hávarðardóttir, Steinunn Magney Eysteinsdóttir, Hrafnhildur Guðbjörnsdóttir skólastjóri, Jóhanna B. Ragnarsdóttir frá leikskóla, Vala Friðriksdóttir frá grunnskóla og Þorgeir Pálsson sem ritaði fundargerð.  Gestur fundarins var Anna María K. Þorkelsdóttir frá Ásgarði. 

 

Fundardagskrá:

  1. Skólanámskrá – Anna María
  2. Námsmatsstefna – Anna María
  3. Öryggishandbók – Anna María
  4. Mönnun næsta skólaárs – munnleg skýrsla skólastjóra
  5. Gerð menntastefnu – munnleg skýrsla formanns
  6. Önnur mál.

 

Formaður bauð fundarmenn velkomna og kallaði eftir athugasemdum við fundarboðun.  Engar athugasemdir voru gerðar.

 

Umræða

1. Skólanámskrá – Anna María

Formaður gaf Önnu Maríu orðið.  Skólanámskrá er huti af innra mati og þar er farið yfir þau gögn sem eiga að vera til, út frá aðalnámskrá og í samræmi við lög og reglugerðir.  Margt er þegar búið að endurskoða, en annað verður skoðað síðar.  Sum gögn eru komin til ára sinna og verða skoðuð sérstaklega af skólastjóra.

 

Búið er að gera skjal með skólanámskrá, sem nefndin getur skráð athugasemdir inn á.  Allt verður komið á einn stað í lok þessarar vinnu.  Spurt var um hvar hægt væri að gera athugasemdir og ítrekaði Anna María þá tengingu, sem er í fundarboðinu.  Þar má gera athugasemdir.  Skólastjóri hvatti fundarmenn til að skila inn athugasemdum. Skólaráð fundar 28. apríl og verður skjalinu lokað þann 26. apríl.  Athugasemdir verða teknar fyrir á fundi fræðslunefndar í maí.


2. Námsmatsstefna – Anna María

Formaður gaf Önnu Maríu orðið.  Framundan er innleiðing á aðalnámskrá og er námsmatsstefna tengd þeirri innleiðingu.  Búið er að framkvæma grunnhæfnimat, í samræmi við námsmatsstefnuna.  Mikilvægt að vera með sameiginlega sýn sem birtist í námsmatsstefnunni, sem samþykkt er af kennurum skólans.

 

Skólastjóri nefndi að námsmatsstefnan hafi verið rædd nokkrum sinnum af kennurum, sem og skólaráði.  Eftir er endanleg umræða.  Anna María hvatti nefndarmenn til að setja athugasemdir inn í skjalið. Skjalið í fundarboðinu opnar á skil á athugasemdum.

 

Fram kom athugasemd um viðmið um árangur sem segir ekki mikið um það sem barninu vantar upp á.  Hægt að koma slíku á framfæri.  Hæfniviðmið þýða að nemandi fer eftir fyrirmælum og uppfyllir markmið mælikvarðans.  Bent var á að stundum komi ólík viðmið á sama degi og slíkt segir lítið um stöðu barnsins.  Rætt var um hvernig Mentor skilar þessu eða birtir.  Nánari umsagnir um stöðu barnsins hafa ekki verið virkjaðar mikið á Íslandi, umfram staðlaða Mentor framsetningu. Unnið hefur verið í að aðlaga námsmatsstefnuna að notkun á Mentor.  Spurt var um námsmatsstefnuna og bent á að hún markist af Mentor forminu. Foreldrar vilja meira námsmat en bara liti. Mentor býður kannski ekki upp á betri endurgjöf.  Jú, það er hægt en kallar á meiri vinnu. Mælt er með því að bæta því inn í stefnuna að gefa meiri endurgjöf almennt, Mentor og öðru.

 

Fram kom spurning um nemendastýrð foreldraviðtöl. Voru jafnmörg foreldraviðtöl á ári fyrir innleiðingu þeirra?  Skólastjóri svaraði því þannig að áður voru þrjú viðtöl.  Spurningin snýst líka um það hvort tengsl og samskipti foreldra við skóla og kennara séu minni.  Áður voru samskipti á öðrum grunni, en núna er aðgangur að upplýsingum allt annar. Þörfin fyrir samtal kennara og foreldra hefur því minnkað hvað formleg viðtöl varðar, en samskipti eru engu að síður mikil.  Foreldrar hafa alltaf aðgang að kennurum. 


3. Öryggishandbók – Anna María

Formaður gaf Önnu Maríu orðið. Anna María fór yfir endurskoðun öryggishandbókarinnar, sem tekur á lögbundnum búnaði og skyldum skólans.  Margt nýtt, þar á meðal persónuverndarlög og farsældarlögin.  Skólastjóri benti á að alltaf bætast við áætlanir sem þarf að vinna í skólanum.  Vinna undanfarinna vikna er að skila sér í réttu formi og uppfærsla gagna langt komin.  Ásgarður sér um að réttar uppfærslur fari fram.

 

Spurt var um bráðaofnæmi og hvort sértækar ráðstafanir yrði að gera?  Skólastjóri upplýsti að gerðar séu einstaklingsmiðaðar öryggisáætlanir.

 

Spurt var um hvort búið væri að uppfæra rýmingaráætlun í ljósi endurbætts skólahúsnæðis.  Skólastjóri svaraði þannig að rýmingaráætlun er hluti af öryggisáætluninni og á að endurskoða og prófa árlega.  Orðalagið er almennt hvað húsnæði varðar.  Eftir er að framkvæma rýmingaræfingu.  Að því loknu er æfing borin saman við áætlunina. Slökkviliðið kemur að slíkum æfingum.  Spurt var um öryggistrúnaðarmann skólans, sem skólastjóri tilgreindi.  Er sami aðili fyrir grunn- og leikskóla. 

 

Anna María kvaddi fundinn.  Spuning til skólastjóra;  er hægt að tryggja að slys eigi sér ekki stað við framreiðslu hádegisverðar þegar skólinn er þéttsetinn nemendum frá Hólmavík og Drangsnesi?  Skólastjóri sagði plássið nægjanlegt og að ekki hafi orðið slys.  Starfsmenn aðstoða.

 

Einnig var spurt um hversu oft krakkar í leikskóla fari upp í grunnskóla?  Þetta er ekki komið í gang, en byrjar eftir páska.  Leikskólakrakkar (4-5 ára) hafa farið í leikfimi í vetur, nema ekki í janúar.  Það hefur gengið vel og er mjög þroskandi fyrir krakkana.  Mönnun er hins vegar vandamál.


4. Mönnun næsta skólaárs – munnleg skýrsla skólastjóra

Formaður gaf skólastjóra orðið, sem rakti stöðuna og undirstrikaði ófyrirséðar breytingar sem oft verða.  Auglýst verður eftir kennara og leikskólakennara.  Nokkuð er um nýskráningar í grunn- og leikskóla.  Spurt var um hvort kennarar væru að hætta.  Ekki ljóst á þessum tímapunkti.  Starfsþróunarviðtöl við kennara og starfsmenn skólans eru búin. Líklegt að stoðþjónusta muni aukast.  Spurt var um fjölda stöðugilda í ljósi fjölda nemenda sem þurfa sértæk úrræði.  Skólastjóri fór yfir þau úrræði sem til staðar eru og í mótun.  Mikilvægt er að skoða allan nemendahópinn m.t.t. þessa. 

 

Spurt var um viðbrögð við auglýsingu eftir leikskólakennara og eru viðbrögð jákvæð. Spurt var af hverju kennarar fari ekki milli leik og grunnskóla, meðan stoðþjónustan geri það.  Skólastjóri fór yfir að svigrúm kennara til þess væri lítið og í raun væru kennarar ekki nógu margir til að sinna því.  Veikindi geta raskað öllu, sem í raun bendir til þess að það sé þörf á meira starfsfólki.

 

Spurt var um tónlistarkennara og sagði formaður að án efa yrði auglýst fyrir haustið.  Spurt var um mönnunarþörf og kostnaðarauka í ljósi nýrra samninga við kennara og hvernig það rúmist innan gildandi fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.  Formaður sagði frá því að gerður yrði viðauki til að mæta kostnaðarhækkun vegna launaliðar kennara.


5. Gerð menntastefnu – munnleg skýrsla formanns

Formaður rakti þá vinnu sem átt hefur sér stað og þar með fyrsta vinnufund stýrihóps og skólastjóra.  Eins sagði formaður frá íbúakönnun sem nú er í gangi þar sem kallað er eftir spurningum og athugasemdum íbúa til verkefnisins. Næsti fundur í verkefninu verður þegar búið er að vinna úr svörum íbúakönnunarinnar.

 

Fram kom sú athugasemd að heillavænlegra hefði verið að allir fulltrúar í stýrihópnum væru með fasta búsetu á staðnum.  Formaður leiðrétti þá skoðun að stýrihópurinn væri ekki þannig skipaður.


6. Önnur mál
1. Fram kom að það væri slæmt að skóladagatalið væri ekki komið fram. Formaður tekur undir þetta. Skólaráð tekur málið fyrir 28. apríl og fræðslunefndarfundur í maí staðfestir það þá.  Sveitarstjórn gerið slíkt hið sama á maí fundi sínum.  Spurt var um ávinning af auknu samráðsferli.  Skólastjóri tilgreindi að það væru fleiri aðilar sem kæmu með ábendingar. 

Stefnt er að því að skóladagatalið verði tilbúið í mars eða apríl í framtíðinni.

Spurt var um samráð við starfsfólk varðandi lokun leikskóla.  Skólastjóri fór yfir sumarfrí almennt og að þar sem allir eiga rétt á sex vikna frí, þurfi að koma til lokun í sex vikur.  Fram kom það sjónarmið að hægt væri að loka í þrjár vikur og skipuleggja opnun betur. Mikilvægt að lagfæra.

Spurt var um fjölda þeirra sem hefðu aðgang að skjalinu til að koma athugasemdum á framfæri.  Það má líka senda tölvupóst.

Spurt var um aðkomu foreldra að þessu samráði.  Skólastjóri benti á skólaráð og foreldrafélag.  Bent var á fulltrúa foreldra og þeir tilgreindir.

 

Fundargerð lesin og fleira ekki rætt.  Fundi slitið kl. 18.17.  Ritari sendir fundargerðina á nefndarfólk til rafrænnar undirskriftar.

 

Þorgeir Pálsson, ritari

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón