Af hverju er gott að búa í Strandabyggð?
Kæru íbúar Strandabyggðar,
Það eru án efa fjölmörg svör við þessari spurningu. Kannski finnst sumum spurningin skrýtin og ganga þá út frá því að auðvitað sé og eigi alltaf að vera gott að búa í sinni heimabyggð. Og án efa eru margir sem spyrja sig aldrei þessarar spurningar. Ég held hins vegar að hún sé góð og að það sé hollt að reyna að svara henni.
Sumir myndu án efa benda á náttúruna, fjörðinn, lognið á firðinum, fuglakvakið, selina, hvalina, öldunið þegar gárar ofl.ofl. Sitt sýnist hverjum og víst er að hér er mikil og falleg náttúra. Borgirnar eru ekki bara einn göngustígur, heldur æðakerfi gönguleiða. Fjörðurinn er aldrei eins, alltaf eitthvað nýtt; nýtt líf. Það er eins og með eldinn; maður getur horft linnulaust á eld loga, líkt og það er nærandi að horfa á sjóinn.
Ég hlustaði nýlega á stórgott viðtal á Rúv 1 við Pétur Gunnarsson rithöfund, en hann skrifaði í sinni fyrstu bók setningu, sem ég legg til að við hugleiðum. Hann skrifaði: „Af Jarðarinnar hálfu byrja allir dagar fallega“. Þessi setning er ekki löng, en ótrúlega sterk; gefur fyrirheit og góðan grunn. Þann grunn getur síðan hvert og eitt okkar byggt á og mótað sinn dag til enda. Það er það val sem við höfum.
Það er val að vera jákvæð(ur). Það er val að einblína á jákvæðar hliðar frekar en neikvæðar. Það er val að hrósa eða hallmæla, eða segja ekkert. Við veljum þá útgáfu af okkur og deginum sem við bjóðum svo öðrum upp á.
Eitt er það hér á Hólmavík sem mér hefur alltaf þótt notalegt, en það er að fólk vinkar og heilsar hvort öðru þegar það mætist í bíl, eða á gangi. Jafnvel oft á dag. Það er hlýlegt merki. Höldum því á lofti.
Náttúran er og verður. Samfélagið er hins vegar breytilegt. Fólk kemur og fer. Við sem hér búum á hverjum tíma, og höldum uppi þeim lífsskilyrðum sem við öll njótum, verðum að passa upp samfélagslega hluta ánægjunnar við að búa hér. Við höfum það val. Notum það rétt.
Kveðja og góða helgi,
Þorgeir Pálsson
Oddviti