Afhending verðlauna v. íþróttaafreka 2021
Nýverið valdi Tómstunda-iþrótta og menningarnefnd Strandabyggðar það fólk sem fær viðurkenningar vegna íþróttaafreka ársins 2021. Afhending viðurkenninga og verðlauna til íþróttamanns ársins verða afhent í Íþróttamiðstöðinni á Hólmavík á morgun kl. 16.45.
Veitt verða verðlaunin íþróttamaður ársins en auk þess sem veitt eru hvatningarverðlaun. Tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd fylgir reglum við útnefningu á íþróttamanneskju árins og byggir á tilnefnningum almennings. Metfjöldi tilnefninga barst til nefndarinnar í ár.
Í fyrra brá tómstunda-, íþrótta- og menningarnefnd út af vananum og veitti félagi en ekki einstakling viðurkenningu fyrir framlag sitt til íþróttamála. Handhafi viðurkenningarinnar og farandbikarsins í fyrra var Skíðafélag Strandamanna. Félagið virðist eflast með ári hverju og státar af metnaðarfullu, fjölbreyttu og skemmtilegu barna- og ungmennastarfi sem nú er allan árins hring með fjallgöngum, þrekæfingum og línuskautum auk skíðanna. Skíðafélagið býður fjölskylduna velkomna með í leik og æfingar og opnar á möguleika gestkomandi til að stunda íþróttir í okkar fallega umhverfi, hvort sem er í leik eða keppni. Skíðafélagið er nú að leggja lokahönd á skíðaskála í Selárdal sem er metnaðarfullt verkefni unnið með samtakamætti þeirra sem að félaginu koma. Skíðafélag Strandamanna ber af hvað varðar prúðmennsku, vinsemd og hvatningu og er samfélaginu til sóma.