"Allt á kafi!" á Hörmungardögum
Á Hörmungardögum opnar ný sýning í Hnyðju. Yfirskrift sýningarinnar er "Allt á kafi" og verður þar að finna ljósmyndir, kvikmyndir og frásagnir frá snjóavetrinum mikla árið 1995. Sýningin verður opnuð formlega föstudaginn 14. febrúar klukkan 14:00 og er opin þann daginn, laugardaginn 15. febrúar verður opið frá 11-14 og opið verður frá 12-15 á sunnudaginn.
Þjóðfræðistofa safnar frásögnum á skrifstofu tómstundafulltrúa á efri hæð Hnyðju á opnunartímum sýningarinnar Allt á kafi! á föstudegi klukkan 14-16 og laugardegi klukkan 11-14. Sérstaklega er leitast eftir hörmungarsögum og sögum frá snjóavetrinum 1995.
Snjóaveturinn 1995 verður lengi í minnum hafður á Ströndum sem og annars staðar. Þessi vetur var einn sá allra snjóþyngsti í manna minnum. Veðurfar var með ágætum fyrri part vetrar, en um miðjan janúar gerði stórhríð með gríðarlegri ofankomu. Segja má að á einni nóttu hafi allt farið í kaf. Á Hólmavík voru þök húsa nálægt því að sligast undan snjóþunganum og þurftu menn þá að moka svo klukkustundum skipti. Ekki reyndist mögulegt að ferðast um á venjulegum farartækjum fyrstu dagana eftir bylinn og í blaðaviðtölum vildu sumir jafnvel meina að snjóbílar kæmust ekki einu sinni leiðar sinnar.
Veturinn 1995 er greyptur í huga flestra íbúa í Strandabyggð þó ekki sé langt um liðið. Fannfergið var með hreinum ólíkindum og ljósmyndir frá þessum tíma eru lyginni líkastar og í raun er ekki hægt að lýsa þeim í orðum.
Sýningarstjórn: Esther Ösp Valdimarsdóttir
Ljósmyndir: Stefán Gíslason, Halldór Ragnar Kristjánsson, Ingimundur Pálsson, Salbjörg Engilbertsdóttir, Þórður Sverrisson, Svanhildur Vilhjálmsdóttir, Hafdís Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ingimundardóttir, Bryndís Sveinsdóttir, Hafdís Sturlaugsdóttir.
Upptökur: Svanhildur Jónsdóttir/Jón Jónsson, Jón Arngrímsson/Maríus Kárason
Umsjón, myndaöflun og textagerð: Jón Jónsson, Salbjörg Engilbertsdóttir, Sigurður Marinó Þorvaldson, Esther Ösp Valdimarsdóttir, Arnar Jónsson og Ásta Þórisdóttir
Söfnun fyrir Þjóðfræðistofu: Ingibjörg Benediktsdóttir
Sérstakar þakkir: Þeir sem lánuðu myndir og sýningarmuni. Arnar S. Jónsson, Stefán Gíslason
Prentun og myndvinnsla: Ólafur Númason Geimstofan Akureyri
Sýningin er styrkt af Menningarráði Vestfjarða