A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Alvarlegar athugasemdir við misskiptingu milli svæða

| 08. maí 2011
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði 5. apríl 2011. Mynd af BB
Frá fundi ríkisstjórnarinnar á Ísafirði 5. apríl 2011. Mynd af BB

Á samráðsfundi á Ísafirði 3. maí s.l. um þau 16 verkefni sem snúa að eflingu byggðar á Vestfjörðum sem ríkisstjórnin tilkynnti um í byrjun apríl og ber að fagna, lýstu forsvarsmenn Strandabyggðar, Ingibjörg Valgeirsdóttir sveitarstjóri og Jón Jónsson varaoddviti, yfir gríðarlegum vonbrigðum með það framlag sem áætlað er til sveitarfélaga á Ströndum. Inn í þeim 16 tillögum sem voru lagðar fram voru framkvæmdir á Strandavegi í Steingrímsfirði þar sem klára á síðasta ómalbikaða kaflann milli þéttbýlisstaða á Vestfjörðum, Drangsness og Hólmavíkur, eina verkefnið sem tilheyrir þessu svæði. Unnið hefur verið að þessari framkvæmd lengi og því kom verulega á óvart að hún skyldi talin fram á listanum umtalaða yfir verkefnin 16. Sameiginleg verkefni sem nýtast öllu svæðinu snúa að lækkun húshitunarkostnaðar, lækkun flutningskostnaðar og öryggi í raforkumálum.    

Í kjölfar fundarins með ríkisstjórninni 5. apríl s.l. sendi sveitarfélagið Strandabyggð innaríkisráðherra, hr. Ögmundi Jónassyni, og vegamálastjóra, Magnúsi Valssyni, áskorun um að hluti af 350 milljóna króna fjármagni sem lagt var fram 5. apríl 2011 til umbóta í vegamálum færi í brýnar vegaframkvæmdir í sveitarfélögum á Ströndum, Veiðileysuháls í Árneshreppi, Bjarnarfjarðarháls í Kaldrananeshreppi og veginn í Bitrufirði í Strandabyggð. Sveitarfélagið Árneshreppur gerði slíkt hið sama. Á fundinum á Ísafirði 3. maí kom hinsvegar í ljós að ekki krónu af þessum 350 milljónum var úthlutað í vegi á Ströndum. 

Á fundinum lögðu forsvarsmenn Strandabyggðar fram viðbótartillögu við lið nr. 2 sem snýr að undirbúningi að stofnun framhaldsdeildar í Strandabyggð sem nýst geti sveitarfélögum á Ströndum, Reykhólahreppi og jafnvel víðar. Tillagan fékk stuðning forsvarsmanna annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum og Fjórðungssambands Vestfirðinga, sjá meðfylgjandi frétt sem birtist á vef www.bb.is 6. maí 2011:  

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga áréttar að undirbúningur verkefna sem samþykkt voru á fundi ríkisstjórnar þann 5. apríl á Ísafirði fór fram án formlegs samráðs við forsvarsmenn sveitarfélaga eða stofnana þeirra. „Verkefnin í heild munu hafa jákvæð áhrif fyrir samfélög og atvinnulíf á Vestfjörðum en gera verður alvarlegar athugasemdir varðandi misskiptingu þeirra gagnvart einstökum svæðum innan Vestfjarða," segir í ályktun. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar því á ríkisstjórn Íslands að auka við fjárveitingu til verkefnatillögu nr. 2 sem felur í sér að tryggt verði áframhaldandi gott framboð á námi á framhaldsskólastigi á Vestfjörðum.

Gerð er sú krafa að sett verði aukið fjármagn til þessa verkefnis eða sem nemur 10 milljónum króna. Verði þeim fjármunum ráðstafað til sveitarfélagsins Strandabyggðar til að hefja undirbúning að stofnun framhaldsdeildar á Hólmavík, sem nýtast muni Strandabyggð sem og nágrannasveitarfélögum í Strandasýslu, í Reykhólahreppi og hugsanlega víðar.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi á Ísafirði fyrir mánuði sextán verkefni sem snúa að eflingu byggðar og atvinnusköpunar á Vestfjörðum. Kostnaður við verkefnin er metinn um 5,4 milljarðar króna en þau varða m.a. menntun, velferð og umhverfismál. Af heildarkostnaði verkefnanna er tæpur 1,5 milljarður króna nýtt fjármagn og munar þar mestu um tvö verkefni við snjóflóðavarnir eða tæpan milljarð og fjármagn til nýrra vegaframkvæmda að andvirði 350 milljónir króna.

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón