A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Ályktun frá sveitarstjórn Strandabyggðar vegna stöðu smábátaútgerðar í sveitarfélaginu

| 29. október 2014
Eftirfarandi ályktun frá sveitarstjórn Strandabyggðar hefur verið send Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ásamt formlegri ósk um fund til að fara yfir stöðu mála og til að leita lausna.

Efni: Ályktun sveitarstjórnar Strandabyggðar vegna alvarlegrar stöðu smábátaútgerðar í sveitarfélaginu

Sveitarstjórn Strandabyggðar vill vekja athygli sjávarútvegsráðherra á grafalvarlegri stöðu smábátaútgerðar í Strandabyggð en svo virðist sem atvinnuvegurinn sæti harðri aðför „kerfisins“ með fjölbreytilegum og margþættum aðgerðum sem miða að því að knésetja smáútgerðir í stórum stíl.


Ekki einungis er um að ræða 20% skerðingu á almennum aflaheimildum í ýsu heldur er auk þess 48% skerðing á línuívilnun á sama fisk. Þess utan er boðaður stórfelldur niðurskurður á byggðakvóta til handa sveitarfélaginu eða úr 125 tonnum í 70 tonn eða alls 44% skerðing á milli ára. Er þetta langt umfram skerðingu undanfarinna ára en gert hafði verið ráð fyrir 15 tonna skerðingu samkvæmt reiknireglum sem notaðar hafa verið. Skýringar sem gefnar hafa verið á þessari miklu skerðingu í ár hljóða á þann veg að nú hefur verið settur kvóti á rækju! Það skal tekið fram að sá rækjukvóti sem úthlutað var á skip héðan er minni en sem nemur rækjuveiðum undanfarinna ára meðan enginn kvóti var á rækjunni og því er aðgerðin enn harðari, þ.e. nú má veiða minna af rækju og byggðakvóti skerðist margfallt.


Svona reiknikúnstir ná ekki nokkurri átt og eru hreint út sagt hættulegar. Það verður að skoða afleiðingar útreikninganna – það er fólk þarna á bakvið.


Nýlega var Dröfn RE35 við rannsóknir á rækju í Húnaflóa, meðaflinn var 8 tonn sem skiptist þannig að 7 tonn voru ýsa en 1 tonn þorskur. Þetta er mjög lýsandi og algerlega í takt við reynslu sjómanna en nú geta þeir ekki veitt þorsk þar sem sjórinn er fullur af ýsu.


Nú þegar hefur komið til fjölda uppsagna í útgerðinni, fyrst og fremst meðal beitningarfólks en einnig á bátunum sjálfum. Einhverjar útgerðir hyggjast hætta meðan aðrar draga verulega úr. Áhrifanna á samfélagið er þegar farið að gæta, atvinnuleysi er að aukast og hætta er á að fólk flytji í burtu sem grefur undan þeim sem eftir sitja.


Strandabyggð hefur fengið Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða til liðs við sveitarfélagið og smábátasjómenn til að greina stöðuna og til að leita lausna. Óskar sveitarfélagið eftir stuðningi stjórnvalda og skilningi fyrir þeim sérstöku aðstæðum sem hér eru. Það verður að stöðva þá aðför sem nú á sér stað gegn smábátasjómönnum og það þarf að leiðrétta og draga til baka þær aðgerðir sem hafa átt sér stað að undanförnu. Að öðrum kosti er þetta reiðarslag fyrir útgerðina sem og sveitarfélagið Strandabyggð.


Sveitarstjórnarmenn í Strandabyggð krefjast þess að ráðamenn sem fara með fiskveiðistjórnun landsins bregðist hratt og ákveðið við þeim vanda sem steðjar að og ítrekar óskir um fund með ráðherra sjávarútvegs á allra næstu dögum. Sveitarstjórnarmenn og smábátasjómenn í Strandabyggð eru tilbúnir til að koma til fundar með skömmum fyrirvara.

 

Afrit sent á þingmenn Norðvesturkjördæmis, Byggðastofnun og fjölmiðla

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón