A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Árið 2024 - ár framfara í Strandabyggð. Áramótapistill.

Þorgeir Pálsson | 31. desember 2024

Kæru íbúar Strandbyggðar,

 

Viðburðaríkt ár er að baki.  Ár framfara í Strandabyggð.  Þrátt fyrir að vera lítið sveitarfélag með þröngan og sveiflukenndan fjárhag, hefur okkur tekist að vinna úr þeim verkefnum sem komu upp á árinu og halda áfram þeirri stefnu sem við höfum einsett okkur; að byggja upp betra samfélag. 

 

Grunnskólinn. Á árinu opnuðum við grunnskólann að nýju, eftir tveggja ára framkvæmdir.  Mikil ánægja er með hvernig til tókst og nú eru allir undir sama þaki í nútímalegu skólaumhverfi.  Þetta var risavaxið verkefni sem við sem samfélag fengum í fangið í lok nóvember 2022, en með samstöðu allra og áræðni sveitarstjórnar, tókst að opna yngri hluta grunnskólans við upphaf skólaárs nú í ágúst.  Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við eldri hlutann hefjast.

 

Réttarsmíði í Kollafirði.  Á haustdögum reis ný rétt í Kollafirði, í landi Litla Fjarðarhorns.  Þar með er lokið réttarsmíði í Strandabyggð og hefur núverandi sveitarstjórn þar með staðið fyrir smíði þriggja rétta það sem af er kjörtímabilinu; í Staðardal, Bitrufirði og nú síðast í Kollafirði.

 

Skipulagsmál. Undanfarin ár hefur verið unnið að endurgerð aðalskipulags Strandabyggðar í samvinnu við fyrirtækið Landmótun.  Skipulagstillaga er nú komin í kynningu hjá skipulagsstofnun og einnig er tilbúið deiliskipulag fyrir nýtt íbúðahverfi; Brandskjól, sem verður uppi í borgunum milli Vitabrautar og tjaldsvæðisins.  Þetta eru mikil tíðindi og stefnt er að því að jarðvegsvinna í Brandskjólum hefjist á vordögum næsta árs. 

 

Hótelbygging á Hólmavík.  Samhliða endurgerð aðalskipulags var unnið deiliskipulag að svokölluðum hótelreit og næsta nágrennis við Íþróttamiðstöðina og félagsheimilið.  Deiliskipulagið og hóteláformin fara í kynningu á fyrstu vikum næsta árs.

 

Raðhús á Hólmavík. Nýtt fjögurra íbúða raðhús, er nú risið á Hólmavík.  Það er Brák íbúðafélag sem stendur að byggingunni, en Strandabyggð leggur til lóð undir húsið og greiðir stofnframlag.  Húsið rís á lóðinni sem áður hýsti Lillaróló, og verður hann því endurgerður á nýjum stað, við ærslabelginn hjá félagsheimilinu.

 

Fiskvinnsla og aukin útgerð á Hólmavík.  Ný fyrirtæki í veiðum og vinnslu (Vilji fiskverkun ehf.) tóku til starfa á árinu, í tengslum við úthlutun á 500 tonna sértækum byggðakvóta Byggðastofnunar til Strandabyggðar, fyrst á vordögum og síðan aftur og árlega næstu ár.  Sveitarstjórn beitti sér fyrir því, með aðstoð þingmanna kjördæmisins, að hingað kæmi sértækur byggðakvóti.  Það voru síðan dugmiklir útgerðaraðilar á Hólmavík sem koma saman að veiðum og vinnslu á þessum sértæka byggðakvóta.  Þessi nýja staða í sjávarútvegi í Strandabyggð skiptir gríðarlega mikli máli fyrir samfélagið, atvinnu- og verðmætasköpun þess.

 

Glugga- og hurðaverksmiðja á Hólmavík. Björgunarsveitarhúsið við Höfðagötu hefur fengið nýtt hlutverk og er nú verksmiðjan Strandagluggar og hurðir ehf. sem framleiðir hurðir og glugga.  Á bak við fyrirtækið eru smiðir á svæðinu sem einnig sinna almennum smíðaverkefnum.  Þetta styrkir getu svæðisins til að takast á við stærri og umfangsmeiri smíðaverkefni og er því mikið og jákvætt skref fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

 

Nýtt húsnæði Björgunarsveitarinnar.  Nýtt hús Björgunarsveitarinnar Dagrenningar, er nú risið á Skeiðinu og er hið mesta prýði.  Húsið gerbreytir aðstöðu björgunarsveitarinnar og skapaði um leið nýtt tækifæri, með sölu á gamla húsinu, eins og fram hefur komið.  Sveitarfélagið studdi við þessa uppbyggingu með beinum hætti.  Það er rétt að óska björgunarsveitinni og þeim sem komu að smíði hússins, til hamingju með vel unnið verk.

Ferðaþjónusta. Talsverð umferð ferðamanna var um sveitarfélagið þetta árið og nutu veitingastaðir og gistiheimili þess.  Einnig hafði viðvera verktaka sem unnu að endurbótum við grunnskólann, jákvæð áhrif á mörg þessara fyrirtækja.  Sem fyrr var hvalaskoðun Láka Tours vel sótt.

 

Ýmis smáfyrirtæki.  Á Hólmavík eru ekki bara stór fyrirtæki, heldur er líka vöxtur meðal minni fyrirtækja og einyrkja.  Hér eru fyrirtækið Bjargsteinn – Vegur að vellíðan, sem býður svæðanudd og Fótaaðgerðarstofan Tíu tásur, svo dæmi séu tekin.

 

Menning og listir.  Strandabyggð hefur haft og hefur enn sterka stöðu þegar kemur að menningu og listum.  Þar fer fremst meðal jafningja, Galdrasafnið eða Galdrasýning á Ströndum, ásamt Sauðfjársetrinu, sem halda uppi fjölbreyttri menningardagskrá, veitinga- og viðburðastarfsemi.

 

Galdrar.  Galdur brugghús heldur áfram að vaxa og í sumar var hér haldin hátíðin Galdrafár á Ströndum, sem tókst einstaklega vel og dró hingað fjölda gesta, innlenda og erlenda.

 

Landbúnaður.  Landbúnaður á undir högg að sækja í Strandabyggð eins og víðast hvar, þó vissulega séu augljós tækifæri.  Það er t.d. mjög jákvætt að viss endurnýjun hefur átt sér stað meðal bænda undanfarin ár og ungt fólk tekið sér stöðu í greininni.  Þá er vinnsla afurðar að aukast meðal bænda.

 

Dýralæknir í Strandabyggð. Það er gaman að geta sagt frá því, að nú er starfandi dýralæknir í sveitarfélaginu, á Smáhömrum, sem býður upp á sífellt meiri og meiri þjónustu á sviði dýralækninga.

 

Samfélag og bæjarbragur.  Það er mikið gleðiefni að geta sagt frá því, að óvenju mikil fjölgun hefur verið meðal barnafjölskyldna í Strandabyggð á árinu.  Hingað hafa flutt nokkrar fjölskyldur með börn á leik- og grunnskólaaldri og fögnum við því mjög.  Sem fyrr eru eldri borgarar virkir og setja svip sinn á samfélagið, sem og vaxandi frístunda-, íþrótta- og unglingastarf. 

 

Sameinumst á Ströndum.  Ný bæjarhátíð, Sameinumst á ströndum, var haldin og tókst hún mjög vel  Þar kom fram kraftur og vilji heimamanna til að framkvæma og koma góðum hugmyndum í verk.

 

Íþróttamiðstöð og sundlaug í fremsta flokki.  Nú er lokið endurbótum á heitu pottunum í sundlauginni og á aðeins eftir að tengja nuddpressu í öðrum pottinum.  Þá má ekki gleyma sauna klefanum sem er kominn aftur í gagnið, endurbættur og glæsilegur.  Allt yfirbragð sundlaugarinnar er nú til fyrirmyndar.  Sveitarstjórn tók þá ákvörðun að beina fjármagni í þessar framkvæmdir og klára þær, enda löngu tímabært.  Strandabyggð getur verið stolt af sinni íþróttamiðstöð og sundlaug, sem vekur verðskuldaða athygli gesta.

 

Fráveita, vatnsveita, ljósleiðari, Sorpsamlag og aðrir innviðir.  Strandabyggð fékk styrk úr Fiskeldissjóði og Orkusjóði til verkefna í fráveitumálum og er nú unnið eftir áætlun um að endurgera og nútímavæða fráveitu á Hólmavík.  Við erum einnig að fjárfesta í vatnsveitunni, með kaupum á nýjum geislaperum og hönnun nýs þjónustuhúss við vatnstankinn.  Lagning ljósleiðara á Hólmavík mun hefjast á næsta ári.  Þá er vöxtur fram undan hjá Sorpsamlaginu og munu íbúar sjá breytingar og nýja þjónustuþætti á næsta ári.

 

Sjálfsagt gleymist eitthvað og þá bætum við úr því á næsta ári, því skulum vera dugleg við að segja frá því jákvæða í samfélaginu.  En þessi upptalning sýnir engu að síður að það er uppgangur í Strandabyggð og fullt af tækifærum.  Ferðaþjónusta og sjávarútvegur eru og verða helstu atvinnugreinarnar, en það leynast engu að síður tækifæri á öðrum sviðum, t.d. þararækt, nýtingu jarðhita á Gálmaströnd, raforkuframleiðslu með tilkomu nýrra virkjanna, auknu framboð á iðnaðarlóðum ofl.

 

Það ár sem kveður okkur nú var krefjandi.  Næsta ár verður það ekki síður, því stór mál eins og sameining sveitarfélaga og innviðauppbygging á Hólmavík í tengslum við hótelbyggingu og uppbyggingu í Brandskjólum, munu lita framkvæmdir og verkefni.  Við tökumst á við þau verkefni með sama hugarfari og önnur; við erum að styrkja undirstöður þessa samfélags með tilliti til atvinnuuppbyggingar, lóðaframboðs, sterkra innviða og heilbrigðs samfélags.  Þannig mun Strandabyggð halda áfram að vaxa og dafna, með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi.

 

Strandabyggð óskar starfsmönnum sínum og fjölskyldum þeirra, íbúum og landsmönnum öllum Gleðilegrar hátíðar og megi nýtt ár færa okkur gæfu og gleði.

 

Gleðilegt Nýtt Ár!  Áfram Strandabyggð!

 

Þorgeir Pálsson

oddviti

 

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón