Auglýsum eftir gömlum húsgögnum og munum
Sveitarfélagið Strandabyggð auglýsir eftir gömlum húsgögnum og munum sem fást gefins til að nota á neðstu hæðinni í Þróunarsetrinu, Höfðagötu 3. Þessa dagana er verið að tæma hæðina en þar hafa Kaupfélag Steingrímsfjarðar, Héraðsbókasafn Strandasýslu, Héraðssamband Strandamanna, Handverkshópurinn Strandakúnst, sveitarfélagið Strandabyggð auk annarra geymt húsgögn og muni í vetur. Til stendur að gera endurbætur á gólfi, veggjum og lýsingu og setja í stand fjölnota rými sem nýst getur fyrir móttöku sveitarfélagsins Strandabyggðar, fundaraðstöðu, kennslurými fyrir Fræðslumiðstöð Vestfjarða, listasýningar, viðburði og fleira. Í sumar verður handverkshópurinn Strandakúnst með handverk til sölu á neðstu hæðinni.
Sveitarfélagið auglýsir sem fyrr segir eftir gömlum húsgögnum, sófum, borðum, stólum, lömpum og hvaðeina sem ykkur langar til að losa ykkur við. Hlutir sem eru jafnvel drasl í augum einhverra geta verið gersemar í þessu samhengi! Vinsamlegast hafið samband við skrifstofu Strandabyggðar í síma 451 3510 eða sendið tölvupóst á strandabyggd@strandabyggd.is merkt Gamalt dót. Við munum koma til ykkar og skoða hvort við getum nýtt húsgögnin/munina.