A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Baskasetur í Djúpavík opnað með sýningu, vinnustofu í gerð hljóðfæra, málþingi og tónleikum

Heiðrún Harðardóttir | 04. júní 2024

Dagana 6.-8. júní verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík. Af þessu tilefni verður dagskrá í Djúpavík tengd sögu Baska á Íslandi í samvinnu við samstafsaðila í Baskahéruðum Spánar og Frakklands. Albaola á Spáni og Haizebegi í Frakklandi standa ásamt Baskavinafélaginu á Íslandi að viðburðum í löndunum þremur, hylla baskneskan menningararf og stofna Baskasetur í Djúpavík. Háskólasetur Vestfjarða kemur að verkefninu með áherslu á sambúð manns og sjávar og sjálfbærni. Baskavinafélagið á einnig í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík og við Strandagaldur og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu.

 

Fimmtudaginn 6. júní verður opin vinnustofa í gerð hljóðfæra úr rusli í Djúpavík. Markmiðið er að stuðla að sjálfbærni og endurnýtingu meðfram því að tengja við baskneskan menningararf. Sjávarnytjar eru hluti af verkefninu. Intelligent Instruments Lab við Háskóla Íslands og Baskavinafélagið sjá um vinnustofuna í samstarfi við listasýninguna the Factory í Djúpavík. Intelligent Instruments Lab er þverfagleg rannsóknarstofa sem skoðar hlutverk gervigreindar í nýjum hljóðfærum og hefur unnið með hið baskneska hljóðfæri txalaparta og haldið vinnustofur á Ströndum í þeim hljóðfæraleik. Í lok dags verður eftirlíkingu af baskneskum léttabát, „txalupa“ komið fyrir á sýningunni í síldartankinum. Vinnustofa í smíði á léttabátnum verður dagana á undan hjá Iðunni fræðslusetri í Reykjavík.

 

Föstudaginn 7. júní og laugardaginn 8. júní verður málþing á ensku í Djúpavík um sögu Baska á Íslandi að viðstöddum Guillaume Bazard sendiherra Frakklands og José Carlos Esteso Lema sendifulltrúa Spánar. Markmið málþingsins er að stuðla að frekari þekkingu íslenskra vísindamanna og þeirra sem starfa í skapandi geirum á sögu Baska á Íslandi og tengja saman íslenskan og baskneskan menningararf.

Frummælendur á málþinginu verða bæði innlendir og erlendir, meðal annarra Xabier Agote forstjóri Albaola í Baskahéruðum Spánar sem segir frá leyndardómum hinna basknesku léttabáta, „txalupa“. Magnús Rafnsson sagnfræðingur fjallar um það hvaða áhrif samskiptin við Baska höfðu á heimafólk og Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur kortleggur viðveru Baska á Ströndum, ofan og neðan sjávar, en Ragnar stóð að uppgreftri á Strákatanga við Hveravík á Ströndum, þar sem fundist hafa minjar um veru Baska. Trausti Einarsson segir frá hvalveiðum Baska við Ísland og Sigurður Sigursveinsson segir frá rannsóknum Selmu Barkham á hvalveiðum Baska við Labrador og Ísland. Tapio Koivukari verður með vangaveltur um samstarf á milli Íslendinga og baskneskra hvalveiðimanna fyrr á öldum í veiðum og vinnslu og Alex Tyas og Catherine Chambers fjalla um sjávarmenningararf sem samfélagsþróunartæki. Denis Laborde stjórnandi Haizebegi hátíðarinnar í Baskahéruðum Frakklands verður með erindi um baskneska tónlist og Þórhallur Magnússon verður með erindi um sögu og þróun hljóðfæra. Viola Miglio verður með erindi um basknesk-íslensku orðasöfnin og Zuhaitz Akizu kynnir basknesk-íslenska orðabók sem er í vinnslu. Ólafur J. Engilbertsson segir frá Baskavinafélaginu og Evrópuverkefninu og Héðinn Ásbjörnsson formaður Baskaseturs kynnir setrið auk þess sem Þórarinn Blöndal sýningarhönnuður segir frá sýningu Baskaseturs. Loks mun Imanol Mendi kynna baskneska matargerð og framreiða „pintxos“, baskneska smárétti, við lok dagskrár föstudaginn 7. júní kl. 17:00 , en þá verður opnaður fyrri áfangi sýningar Baskaseturs í gömlu síldartönkunum á Djúpavík með tónleikum baskneskra og íslenskra tónlistarmanna.

 

Baskasetur er samstarfsverkefni Baskavinafélagsins, Háskólaseturs Vestfjarða, Albaola á Spáni, Haizebegi í Frakklandi og Hótels Djúpavíkur sem hýsir væntanlegt Baskasetur. Verkefnið hlaut styrki frá Creative Europe, Brothættum byggðum á vegum Byggðastofnunar, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Uppbyggingarsjóði Vestfjarða. 


Sjá nánar: 

https://baskavinir.is/

https://baskasetur.is/exhibition/

Viðburður á Facebook:

https://www.facebook.com/events/1381922979135592/?ref=newsfeed

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón