Byggðasaga Stranda – samkomulag um kaup og útgáfu
Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í gær, þriðjudaginn 15. apríl, var samþykkt að ráðast í kaup og útgáfu á ritverkinu Byggðasaga Stranda en Strandabyggð var síðast í röð sveitarfélaganna fjögurra sem að kaupunum koma til að taka málið fyrir. Áður hafa sveitarstjórnir Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Húnaþings vestra (vegna fyrrum Bæjarhrepps) komist að sömu niðurstöðu.
Það var Búnaðarsamband Strandamanna sem stóð að verkefninu í upphafi, en ekki tókst að ljúka útgáfunni sem lengi hefur verið unnið að sökum fjárskorts. Fenginn var óháður úttektaraðili til að meta stöðuna á verkinu og gaf hann fyrirliggjandi handriti góða umsögn og segir að fremur þægilegt eigi að vera að feta lokaspölinn að útgáfu.
Sveitarfélögin kaupa ritverkið á samtals 12 milljónir króna og skiptist kaupverðið hlutfallslega miðað við fólksfjölda sveitarfélaganna í janúar 2012 (hlutur Húnaþings vestra tekur mið af íbúafjölda fyrrum Bæjarhrepps). Hlutur Strandabyggðar í kaupverðinu er því 66,84% eða um 8 milljónir. Kostnaður við lokavinnu og prentun á verkinu í heild sinni samkvæmt fyrirliggjandi úttekt er tæpar 9 milljónir en þá er miðað við að ritverkið verði um 1000 bls. og verði gefið út í tveimur bindum. Þar af er hlutur Strandabyggðar um 5,9 milljónir. Mögulegar sölutekjur, miðað við að bækurnar verði prentaðar í 1000 eintökum og tilboðsverð væri 15 þúsund krónur, eins og úttektaraðili leggur til, gætu því numið allt að 15 milljónum. Þær tekjur koma á móti kostnaði við útgáfu og kaupverð. Framlag Strandabyggðar til verkefnisins þegar upp verður staðið, felst í þeim mun sem verður á þeim útgjöldum sveitarfélagsins sem hér hafa verið tilgreind og sölutekjum af bókunum.
Varðandi sölu bókanna þá mun allur söluhagnaður renna til Strandabyggðar, Kaldrananeshrepps og Árneshrepps í hlutföllum eftir íbúafjölda, en Húnaþing vestra hefur takmarkað aðkomu sína að verkinu við ákveðna styrkfjárhæð sem tekur mið af áætluðum heildarkostnaði við kaup og útgáfu. Aðkoma Húnaþings vestra með þessu móti er rausnarleg og þakkarverð. Eftirstandandi sveitarfélög á Ströndum grípa nú boltann og munu vinna verkinu framgang.