Covid-19 - Andleg heilsa
Á morgun er sumardagurinn fyrsti, sem í hugum margra er dagur gleði og bjartsýni, því þá ætti sumarið að vera framundan. Og víst er að hér í Strandabyggð fögnum við sumri, eftir erfiðan vetur.
En það eru ekki allir sem ná að fagna eða sjá gleðina þessa dagana. Ljóst er að það ástand sem ríkt hefur í samfélaginu á undanförnum vikum vegna Covid-19 hefur haft ýmislegt í för með sér fyrir fólk og m.a. hafa margir tjáð sig um þau áhrif sem það hefur haft á andlega líðan, s.s. kvíða, áhyggjur og depurð. Það er alltaf mikilvægt að huga vel að geðheilsunni en ekki síst á svona tímum og má finna góðar ráðleggingar í þeim efnum á síðu landlæknisembættisins:
https://www.landlaeknir.is/um-embaettid/frettir/frett/item39685/covid-19-og-andleg-heilsa
Einnig er víða er hægt er að leita sér aðstoðar og eru góðar upplýsingar um það á síðunni covid.is
https://www.covid.is/undirflokkar/lidan-okkar en þar kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Ef þú finnur fyrir áhyggjum eða þarf ráðgjöf getur þú alltaf haft samband við 1717 hjálparsíma Rauða krossins eða netspjallið
- Heilsugæslan veitir þjónustu og ráðgjöf sálfræðinga og hjúkrunarfræðinga . Einnig má fá ráðgjöf í gegnum vefinn heilsuvera.is
Þessi þjónusta er ókeypis fyrir alla. Á síðunni eru einnig upplýsingar um ýmis félagasamtök víða um land sem bjóða upp á aukna ráðgjöf, samtöl og þjónustu.
Svo er alltaf gott að komast út og hreyfa sig, ef menn hafa tök á því.
Um leið og við óskum íbúum Strandabyggðar gleðilegs sumars hvetjum við fólk til að huga að náunganum, sýna umhyggju og samstöðu og munið; þetta er tímabundið ástand sem líður hjá. Stöndum saman og sameinumst um að komast í gegn um þetta ástand á sem bestan hátt fyrir alla.
Gleðilegt sumar!
Kær kveðja
Guðrún Elín Benónýsdóttir, félagsmálastjóri
Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri