Covid-19 - Herðum róðurinn - þetta er ekki búið
Undanfarnar vikur höfum við íbúar framfylgt samviskusamlega fyrirmælum yfirvalda um hreinlæti, sprittun, fjarlægð milli manna og almenna ábyrgð í samskiptum, í því skyni að draga úr smithættu. Við höfum sömuleiðis gerbreytt allri vinnutilhögun hjá sveitarfélaginu og það hafa fyrirtækin í sveitarfélaginu einnig gert. Allir hafa lagt sitt að mörkum og sýnt þannig ábyrgð og samtakamátt og ég vil hér með hrósa og þakka ykkur íbúum fyrir ykkar framlag.
Í dag eru engin smit í Strandabyggð né nágrannasveitarfélögum, svo vitað sé, nema í einstaka tilvikum þar sem einstaklingar með lögheimili á svæðinu en búsettir annars staðar, hafa smitast. Það er auðvitað gleðilegt að hér séu engin smit og ég efast ekki um að öll þessi vinna og ákveðni íbúa í að standa rétt að málum, hefur skilað sér.
En það má ekki slaka á. Þvert á móti verðum við að halda athyglinni á enn frekari smitvörnum og gildir þar einu þótt stjórnvöld slaki á aðgerðum sínum. Það er auðvitað gott ef faraldurinn er í rénum, en við getum ekki leyft okkur að slaka á, þó það sé vor í lofti (loksins). Þetta er ekki búið.
Herðum róðurinn kæru íbúar, höldum áfram þessari góðu vinnu, samheldni og ákveðni sem við höfum sýnt undanfarnar vikur. Það skilar sér.
Kær kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarstjóri Strandabyggðar