A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Covid-19 - Plan B

| 27. mars 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar

 

Þá er þessi vika senn að baki. Talsverðar breytingar hafa verið gerðar í samfélaginu okkar sem rétt er að rifja upp:

  • Skrifstofa Strandabyggðar er lokuð og starfsmenn vinna í hópum og skiptast á að vinna heima og á skrifstofunni.  Símsvörun er þó sem fyrr í síma 451-3510 milli kl 10 og 14.  Að auki svara starfsmenn sínum símum
  • Íþróttamiðstöðin og sundlaugin hafa lokað
  • Áhaldahúsið er lokað og skal hafa samráð við starfsmenn með alla þjónustubeiðni
  • Grunnskóli, leikskóli og tónskóli eru reknir samkvæmt skýru fyrirkomulagi um skerta kennslu og aukna fjarkennslu
  • Öll íþróttaiðkun sem og félags- og tómstundastarf liggur niðri
  • Búið er að skipa fulltrúa Strandabyggðar í sameiginlega almannavarnarnefnd með Kaldrananeshreppi og Árneshreppi og mun sú nefnd verða virk innan skamms.  Fulltrúi Strandabyggðar er Jón Gísli Jónsson, oddviti
  • Þá er unnið að því að skilgreina Vettvangsstjórn, undir leiðsögn Lögregluembættisins á Vestfjörðum
  • Að auki höfum við hjá Strandabyggð ýtt af stað samstarfsverkefni með Rauða Krossinum og sóknarpresti um þjónustu til þeirra sem eiga erfit um vik með innkaup og annað.
  • Ýmis þjónusta og starfsemi fyrirtækja í Strandabyggð hefur einnig breyst til að aðlagast ástandinu
  • Krambúðin hefur í samstarfi við Björgunarsveitina Dagrenningu, boðið heimsendingu á varningi úr búðinni og er það mjög lofsvert framtak
  • Til eru verklagsreglur og viðbraðgsáætlanir hjá stofnunum og viðbraðgsaðilum í Strandabyggð, sem hægt er að virkja með skömmum fyrirvara.

Síðan er það svokallað Plan B.  Það er oft svo þegar eitthvað fer úrskeiðis, að það getur skipt sköpum að hafa til taks varaáætlun, eða það sem við köllum oft Plan B.  Slík varaáætlun þarf auðvitað að vera til, svo hún gagnist þegar á reynir, því að ætla sér að semja hana þegar í óefni er komið, er nánast vonlaust.

 

Þess vegna hafa forstöðumenn Strandabyggðar skráð hjá sér hvernig hægt væri að reka stofnanir sveitarfélagsins við þær aðstæður ef forstöðumaður fer í sóttkví eða er sýktur og fer í einangrun.  Og það sýnir sig, að það er vel gerlegt að skipta yfir í „heimaskrifstofur“ og breyta verkferlum þannig að hægt sé að reka stofnanir sveitarfélagsins ef forstöðumenn eða heilu vinnustaðirnir fara í sóttkví.  Málið horfir öðruvísi við ef um sýkingu og einangrun er að ræða, en við höfum engu að síður reynt að skrá þá verkferla sem þá yrði unnið eftir.

 

Höfum í huga, að í litlu samfélagi eins og okkar, eru margföldunaráhrifin af því ef einhver fer í sóttkví og/eða sýkist oft svo mikil, að hefðbundin starfsemi sveitarfélagsins raskast hratt.  Þess vegna er gott að hafa Plan B.

 

Það er líka rétt að hugleiða, að sóttkví hér í sveitarfélaginu, er ekkert öðruvísi en sóttkví annars staðar á landinu.  Við þurfum að fylgja sömu kröfum og sýna sömu ábyrgð og aðrir.  Í raun þurfum við hér búum og þeir sem hingað koma að sýna enn meiri ábyrgð, því áhrifin af einu smiti í litlu samfélagi geta verið svo margfalt meiri en á stærri stöðum.  Munum því að virða allar reglur og tilmæli, t.d. varðandi  fjarlægðir milli manna hvar sem við erum innan um fólk. 

 

Við skulum í lokin klappa hvert öðru á bakið (myndlíking 😊) og þakka fyrir þá samvinnu og samstöðu sem við höfum sýnt hingað til.  Við hjálpumst að og styðjum hvert annað.  Það gerum við ekki síst með því að virða allar þær reglur, tilmæli og ábendingar sem nú gilda í samfélaginu.  Munum; þetta líður hjá og í lokin er gott að geta sagt;  við gerðum allt sem við gátum gert.

 
Kveðja
Þorgeir Pálsson
sveitarstjóri Strandabyggðar

Gagnlegar heimasíður:

www.covid.is

https://www.landlaeknir.is/

https://www.samband.is/um-okkur/upplysingasida-vegna-covid-19


Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón