A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjárhagsáætlun 2021

| 09. desember 2020

Kæru íbúar Strandabyggðar,

 

Sveitarstjórn hefur staðfest fjárhagsáætlun 2021 og eins áætlanir til næstu þriggja ára, líkt og lög gera ráð fyrir.  Útlitið er svart; gert er ráð fyrir tapi upp á rúmar 60 milljónir í A hluta og eins um 60 milljón króna tapi A og B hluta.  Í ljósi þróunarinnar á þessu ári, 2020, var þetta þó viðbúið.  Skoðum aðeins forsöguna.

 

2020

Sú áætlun sem við lögðum upp með fyrir árið 2020 hljóðaði upp á tekjur frá Jöfnunarsjóði upp á 244 milljónir.  Sjóðurinn sjálfur áætlaði framlög til okkar kr. 236 milljónir, en framlög hans höfðu verið í kring um 240-245 undanfarin ár, svo við studdumst við þá tölu. 

 

Síðan kom Covid.  Þessi heimsfaraldur hafi þau áhrif, að tekjur ríkisins drógust mikið saman, enda margar atvinnugreinar lamaðar vegna ástandsins, ferðaþjónustan hrundi og sölutregða varð á mörkuðum o.s.frv.  Þessi tekjuskerðing ríkisins hafði þau áhrif að tekjur Jöfnunarsjóðs drógust saman.  Í þeirri stöðu sendi Jöfnunarsjóður frá sér viðvörun um að gera mætti ráð fyrir allt að 15% skerðingu á framlögum til sveitarfélaga.  Hér var því gripið til niðurskurðar og aðhaldsaðgerða snemma vors og áætlun ársins endurskoðuð. 

 

Ný áætlun gerði ráð fyrir framlögum upp á um 200 milljónir, eða skerðingu úr 244 í 200 milljónir.

 

Síðan um mitt sumar kemur svokölluð enduráætlun Jöfnunarsjóðs, sem gerði ráð fyrir að framlög til Strandabyggðar yrðu um 166 milljónir.  Ekki 200 og ekki 244 eins og við gerðum ráð fyrir í upphafi árs.  Hér var því skerðing á tekjum kr 70 milljónir frá fyrstu áætlun sjóðsins  og ljóst að við vorum komin í mikla fjárhagslega örðugleika.  Nú nýlega kom aukið framlag frá Jöfnunarsjóði upp á kr. 18.3 milljónir, sem lagar stöðuna aðeins.

 

Við höfum síðan átt í viðræðum við ráðherra samgöngu- og sveitarmála, Jöfnunarsjóð og embættismenn í ráðuneytinu um aukin framlög og sérsamning á grundvelli sveitarstjórnarlaga.  Eins hefur verið unnin fjáhagsleg úttekt af KPMG sem verður lögð fram ásamt okkar gögnum.  Mikil vinna hefur verið unnin á síðustu mánuðum í að greina mögulega hagræðingu og niðurskurð, sem þó hefði sem minnst áhrif á atvinnuöryggi og þjónustustig.

 

Niðurstaða þessa árs, 2020 verður því augljóslega mikið tap, þó endanleg tala liggi ekki fyrir.

 

2021

Við gerum áfram ráð fyrir skertum framlögum Jöfnunarsjóðs og því er lagt upp með mun minni tekjur en vð höfum sé undanfarin ár.  Tap á árinu 2021 er því óumflýjanlegt, enda erfitt að skera niður eða hagræða til að mæta allri þessari tekjuskerðingu. Það verður engu að síður ráðist í frekari niðurskurð, aðhald, frestun framkvæmda og skerðingu þjónustu strax á næsta ári, til að mæta þessari stöðu.

 

Á næstu dögum munum við kynna aðgerðir varðandi opnunartíma stofnana, snjómokstur og aðrar aðhaldsaðgerðir.

 

Vonir standa til að hægt verði að semja við ráðuneytið um stuðning í þessari stöðu, en það er ekki í hendi.  Fari svo að enginn frekari stuðningur komi frá ráðuneytinu, Jöfnunarsjóði eða stjórnvöldum, þarf að grípa til mun harðari niðurskurðaraðgerða um mitt ár 2021. 

 

Markmið sveitarstjórnar er og hefur alltaf verið að raska sem minnst atvinnuöryggi íbúa og lágmarka þjónustuskerðingu.  Það er hins vegar ekki gefið að það markmið haldi þegar líður á næsta ár, komi ekki til frekari stuðningur stjórnvalda. 

 

Framkvæmdir 2021

Dregið hefur verið úr framkvæmdum og hefur sveitarstjórn staðfest eftirfarandi framkvæmdir:

  • Viðhald á lóð leikskóla og kaupum á leiktæki kr. 2.500.000.-
  • Viðhald húsnæðis Grunnskóla vegna vatnsleka í bókasafni kr. 2.000.000.-
  • Frágangi á aðgengi í Félagsmiðstöðina Ozon í kjallara í Félagsheimili kr. 1.000.000.-
  • Viðgerð á koldíoxíðkerfi í Íþróttamiðstöð kr. 600.000.-
  • Þróunarsetur, viðhald húsnæðis og breytingar. kr. 700.000.-
  • Höfn, framkvæmdir skv. samgönguáætlun kr. 3.500.000.-
  • Vatnsveita, kaup á perum í geislatæki kr. 650.000.-
  • Veitustofnun, lagning ljósleiðara skv. samningi Ísland ljóstengt kr. 1.500.000.-

Heildarkostnaður vegna framkvæmda er áætlaður kr. 12.450.000.-

 

Það er ljóst að hér er um algert lágmark að ræða.  Í fjárhagslegri úttekt KPMG var raunar gert ráð fyrir engum framkvæmum í einni sviðsmyndinni sem unnið var með það. Við vitum að slíkt er ekki gerlegt þar sem mikil endurnýjunar- og viðhaldsþörf blasir við okkur, hvað varðar eignir sveitarfélagsins.  Því er lagt upp með lágmarks framkvæmdir.  Það á svo auðvitð eftir að koma í ljós hversu heppin eða óheppin við verðum hvað varðar viðhald og bilanir o.s.frv.

 

Næstu skref

Þetta er staðan.  Hún er alvarleg og það er ljóst að sveitarstjórn stendur frammi fyrir því erfiða hlutverki að þurfa að ákveða skerðingu á þjónustu langt umfram það sem við erum vön.  Það er hins vegar óhjákvæmilegt.  Næsta ár verður erfitt, það er engin spurning og alls óvíst hvort þessi áætlun standist eða ekki.  Það er hins vegar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að þetta er staðan.  Lausn er ekki í sjónmáli.  Ráðuneytið og Jöfnunarsjóður eiga eftir að meta okkar gögn og taka ákvörðun um hugsanlegt sértækt framlag til Strandabyggðar.  Það framlag er hins vegar ekki í hendi og meðan svo er, verðum við að móta okkar eigin leiðir og lausnir. 

 

Tækifæri

Kæru íbúar.  Eins og ég hef áður skrifað, þá eru alltaf tækifæri í kreppu.  Nú reynir á okkur íbúa að finna nýjar leiðir til að efla atvinnulíf og skapa nýja tekjustofna.  Strandabyggð er of háð núverandi tekjustofnum, sérstaklega framlögum Jöfnunarsjóðs, eins og ljóst er og hér verður því að opna augun fyrir nýjum tækifærum. 

 

Brothættar byggðir er ein leið að nýjum tækifærum, því þar getur almenningur sótt um fjármagn í verkefni og mótun nýrra hugmynda.  Ég hvet íbúa til að hafa beint við verkefnastjóra Brothættra byggða, Sigurð Líndal í síma 611-4698 eða netfang: sigurdurl@vestfirdir.is og ræða sínar hugmynir.  Munum að hugmyndir (jafnvel frábærar hugmyndir) eru verðlausar og gagnlausar ef þær liggja í skúffu eða bíða í höfðinu á okkur. 

 

Hér má efla ferðaþjónustu; haftengda ferðaþjónustu sem og alla ferðaþjónustu á landi, handverksiðnað, matvælaframleiðslu, söfn, störf á staðsetningar ofl ofl.  Ég hvet ykkur til að bæta við þennan lista

 

Það er dökkt útlit en við búum á sterkum grunni; Strandabyggð og nágrenni.  Hér eru lífsgæði, hér eru tækifæri.  Í þeim liggur okkar framtíð, því á endanum erum við ábyrg fyrir örlögum okkar og þessa sveitarfélags.

 

Sterkar Strandir!

Kveðja
Þorgeir Pálsson
Sveitarsrjóri Strandabyggðar

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón