A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjölbreyttar listsýningar á Hamingjudögum

| 28. júní 2011
Undir áhrifum náttúrunnar - Erna Björk Antonsdóttir
Undir áhrifum náttúrunnar - Erna Björk Antonsdóttir
« 1 af 3 »
Þrjár glæsilegar listsýningar koma til með að prýða Hamingjudaga í ár. Það er skipuleggjendum hátíðarinnar mikill heiður að stuðla að því að listamenn geti komið til Hólmavíkur og sýnt listaverk, málverk og ljósmyndir sem auðga anda, bæta geð og hlýja hjörtum. Listamennirnir eru Erna Björk Antonsdóttir, Tinna Hrund Kristinsdóttir Schram, Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir. Hér fyrir neðan gefur að líta ítarlega umfjöllun um þessa listamenn og sýningar þeirra. Verið velkomin á Hamingjudaga!



UNDIR ÁHRIFUM NÁTTÚRUNNAR - ERNA BJÖRK ANTONSDÓTTIR

Erna Björk Antonsdóttir sýnir mósaikverk sín á neðstu hæð Þróunarsetursins (í gamla kaupfélaginu) um Hamingjudaga. Erna  nam í Mosaic Art School í Ravenna á Ítalíu, en verk hennar hafa sterkar tengingar í íslenska náttúru. Nýtir hún m.a.steina og skeljar í myndverkin og hefur undanfarið unnið verk af fiskum og skelfiskum úr smalti. Lítið sjávarþorp eins og Hólmavík hæfir því vel sem umgjörð um verk Ernu Bjarkar. 

Listakonan mun einnig vinna verk á meðan á sýningunni stendur. Gestir og gangandi fá því gullið tækifæri til að að sjá handtökin sem skapa þessi einstöku listaverk. Nánar má fræðast um þau á vefnum www.mosaic.is.

Sýningin verður staðsett í Þróunarsetrinu 1.-3. júlí og hægt verður að skoða hana milli kl. 10:00 og 18:00 alla hátíðardagana.



LJÓSMYNDASÝNINGIN UNA -TINNA SCHRAM

Una er ljósmyndasýning eftir reykvíska ljósmyndarann með Strandahjartað, Tinnu Schram. Tinna útskrifaðist úr Tækniskólanum síðastliðið vor með burtfararpróf í ljósmyndun. Sýningin sem hún  setur nú upp á Hólmakaffi var áður uppi á kaffihúsinu Öndinni í Ráðhúsi Reykjavíkur.    

Myndirnar á sýningunni eru 9 talsins og eru allar af Unu Gíslrúnu Kristinsdóttur Schram, ungri blómarós sem er einmitt búsett á Hólmavík.  Myndirnar eru allar teknar á einni kvöldstund í leik, gleði og hamingju.

Sýningin verður uppi í Hólmakaffi 1.-3. júlí og hægt verður að skoða hana milli kl. 10:00 og 18:00 alla dagana.



LISTVERKASÝNING ELFARS OG VALGERÐAR

Feðginin Elfar Guðni Þórðarson og Valgerður Þóra Elfarsdóttir frá Stokkseyri verða með samsýningu í Ráðaleysinu á Hamingjudögum.

Elfar Guðni Þórðarson er sjálfmenntaður í myndlist og hefur verið að mála síðan 1974. Hann málar olíumálverk í öllum stærðum og gerðum og hefur einnig t.d. málað á möppur sem eru nýttar sem gestabækur. Elfar hefur haldið margar sýningar víða um land og vakið athygli, m.a. fyrir geysistórt verk, Brennið þið vitar, sem hann málaði og útbjó í minningu Páls Ísólfssonar tónskálds. Hann er með vinnustofu og gallerí í Menningarverstöðinni Hólmaröst á Stokkseyri.  

Valgerður Þóra Elfarsdóttir byrjaði að vinna mósaikverk fyrir ellefu árum. Hún hefur síðan þá unnið fjölbreytt verk og notar gjarnan efni úr náttúrunni til sköpunar; t.d. rekavið, grjót og sand úr fjörum landsins. Því má segja að hún sé á heimavelli í fjörunum á Ströndum. Valgerður hefur þróað listaverk sín í gegnum tíðina og prófað nýjan efnivið á borð við fjöruugler, kuðunga, skeljar og fjörusand. Eins og Elfar er hún með vinnuaðstöðu í Menningarverstöðinni á Stokkseyri.

Sýning þeirra Elfars og Valgerðar verður staðsett í Ráðaleysinu og verður opin frá kl. 13:00-18:00 dagana 1.-3. júlí.
 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón