| 06. febrúar 2011
Kjartan Ólafsson fer yfir tilgátu sína um 18 dagleiðir Eyvindar og Höllu frá Skjaldabjarnarvík suður undir Hofsjökul. Mynd: IV
Fjölmenni var á fyrirlestri Kjartans Ólafssonar, fv. þingmanns og ritstjóra, um Fjalla-Eyvind og Höllu í Skelinni á Hólmavík í gær. Fyrirlesturinn sem bar yfirskriftina ,,Nýjar fréttir af Fjalla-Eyvindi á Ströndum" byggði Kjartan á upplýsingum sem Björk Ingimundardóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafninu, fann í skjölum um yfirheyrslur yfir þeim hjónum sem fram fóru í Árnesi í Trékyllisvík og á Hrófbergi við Steingrímsfjörð vorið 1763. Rannsókn Bjarkar hefur m.a. leitt í ljós að Eyvindur og Halla eignuðust barn í útilegubæli í Drangavíkurfjalli á Ströndum í mars árið 1763 en barnið lifði aðeins í tvo daga. Þetta var skömmu áður en hjónin voru handtekin fyrir sauðaþjófnað og dæmd til ævilangrar refsivistar.
Kjartan Ólafsson leiddi gesti á eftirminnilegan hátt inn í lífshlaup Eyvindar og Höllu og sýndi skemmtilegar myndir frá ferð hans á slóðir þeirra hjóna norður í Drangavík og Bjarnafjörð s.l. sumar. Björk Ingimundardóttir vinnur nú að grein um þessar nýju upplýsingar til birtingar í Strandapóstinum, tímariti Strandamannafélagi Reykjavíkur.
Sveitarfélagið Strandabyggð styrkir Skelina, lista- og fræðimannadvöl á vegum Þjóðfræðistofu.