A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Fjórðungsþing Vestfirðinga 2024

Þorgeir Pálsson | 21. október 2024
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mynd: Vestfjarðastofa
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga. Mynd: Vestfjarðastofa

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Nú um helgina, dagana 18 og 19 október, var haldið Fjórðungsþing Vestfirðinga á Laugarhóli í Bjarnarfirði.  Þetta var að mörgu leyti gott þing og það er alltaf gaman að hittast og ræða málin.  Umræðan litaðist svolítið af stöðunni í landsmálapólitíkinni og kosningum framundan og voru ýmsar kenningar á lofti.  Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður, kom á þingið á föstudeginum og fór yfir stöðuna.  Það er ljóst að framundan er mikil óvissa og því miður verður að teljast líklegt að mörg þeirra mála sem voru til umfjöllunar og afgreiðslu hjá ríkisstjórn, verði ekki kláruð og í raun er allt óljóst um afdrif þeirra.  Eitt þeirra verkefna eru tillögur Strandanefndarinnar.  En, við verðum engu að síður að halda baráttunni áfram og koma okkar áherslum á framfæri.


Strandabyggð lagði fram fimm tillögur að ályktunum. Tillögur að ályktunum koma frá sveitarfélögunum og stjórn og nefndum Fjórðungssambandsins og eru síðan ræddar og kláraðar í nefndum þingsins. Á seinni degi þingsins eru þær síðan samþykktar sem ályktanir Fjórðungsþings. Tillögur Strandabyggðar voru eftirfarandi, í stuttu máli: 1) að Álftafjarðargöng  yrðu næstu göng á Vestfjörðum, 2) aukið námsmat í grunnskólum, 3) aukin kynning á Vestfjörðum fyrir erlendum fjárfestum og fyrirtækjum, 4) að ríkisstjórn Íslands taki jákvætt í tillögur Strandanefndarinnar og 5) um mikilvægi þess að heitavatnsleit á Gálmaströnd ljúki.  Einni tillögu var vísað til nefndar Fjórðungssambandsins, en það var tillagan um aukið námsmat.  Aðrar tillögur fóru til afgreiðslu, sumar óbreyttar en aðrar með orðalags- og áherslubreytingum.  Niðurstaðan var síðan sú að allar þær sem lagðar voru fyrir þingið voru samþykktar, nema ályktun um Álftafjarðargöng.

 

Því miður náðist ekki samstaða um að taka af skarið í áralangri umræðu um forgangsröðun í gangagerð á Vestfjörðum.  Tillaga um svokallaða Vestfjarðalínu náði fram að ganga en þar eru stjórnvöld hvött til að leita nýrra leiða í fjármögnun gangagerðar á Vestfjörðum og er einnig talið mikilvægt að stjórnvöld gangi til samstarfs við nýlega stofnað Innviðafélag Vestfirðinga, undir forystu Guðmundar Fertrams. Þá gengur tillagan einnig út á að halda í ályktun frá síðasta Fjórðungsþingi, en þar er talað um að vinna að rannsóknum og hönnun á Álftafjarðargöngum og Suðurfjarðagöngum (um Mikladal og Hálfdán) samtímis. Fjórðungsþing sker því ekki í gegn hvað forgangsröðun varðar og er það miður og að mínu mati veikleikamerki.  Það geta aldrei verið tvenn göng í fyrsta sæti.  Ákyktunin frá síðasta Fjórðungsþingi var málamiðlun þess tíma.  En, þetta er niðurstaðan og við lútum henni og munum taka virkan þátt í þeirri vinnu sem nú er framundan í samgöngumálum á Vestfjörðum.

Ný stjórn var kosin og jafnframt nýr formaður, sem nú er Gylfi Ólafsson frá Ísafjarðarbæ.  Ný stjórn er eftirfarandi: Gylfi Ólafsson, Tryggvi Bjarnason, Dagný Finnbjörnsdóttir, Magnús Ingi Jónsson og Hildur Aradóttir.  Við óskum þeim öllum til hamingju með kjörið og um leið þökkum við Jóhönnu Ösp Einarsdóttur, Reykhólahreppi, kærlega fyrir hennar störf undanfarin ár sem formaður Fjórðungssambandsins.

Kveðja
Þorgeir Pálsson
oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón