Framkvæmdastjórar sveitarfélaga á Vestfjörðum funduðu í dag
| 04. febrúar 2011
Oddvitar, sveitarstjórar og bæjarstjórar á Vestfjörðum áttu góðan fund í dag í húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga Í Reykjavík. Á fundinum var farið yfir 20/20, sóknaráætlun Vestfjarða. Fyrirtækið Alta hélt kynningu á hugmyndum sínum um svæðisgarða auk þess sem Þóroddur Bjarnason, Háskólanum á Akureyri, var með erindi um byggðarþróun og tækifæri á Vestfjörðum. Á fundinum var einnig rætt um brýnustu hagsmunamál sveitarfélaganna. Segir það nokkuð um samgöngumál á Vestfjörðum að auðveldast reyndist að ná flestum framkvæmdarstjórum sveitarfélaga á Vestfjörðum saman á fund í Reykjavík en þangað gátu allir mætt fyrir utan oddvita Árneshrepps, Oddnýju Þórðardóttur þar sem ófært er í hreppinn. Framkvæmdastjórarnir stefna á að hittast aftur á fundi á Hólmavík í lok febrúar ef veður og færð leyfa.