Gæludýrahald í Strandabyggð
Daníel Haraldsson sinnir hreinsun á hundum og köttum mánudaginn 28. nóvember n.k. í Áhaldahúsinu milli kl. 16:00 og 18:00.
Gott væri ef hundaeigendur gætu komið á milli 16:00 og 17:00 kattaeigendur á milli 17:00 og 18:00. Hundar þurfa að vera í taumi og kettir í búri en einnig er í boði að sækja lyfin fyrir kettina á auglýstum tíma til Daníels.
Hunda og kattaeigendur í Strandabyggð, bæði þéttbýli og dreifbýli eru hvattir til að mæta og nýta sér þjónustuna.
Allir hundar og kettir innan þéttbýlis skulu skráðir og bera merkingar skv. reglugerð um hunda- og kattahald sem finna má hér neðar. Skylt er að færa hunda og ketti til hreinsunar árlega.
Þeir sem óska eftir annari dýralæknisþjónustu eða upplýsingum er velkomið að hafa samband við Daníel í síma 434-1122 á milli 9 og 11 alla virka daga eða á netfangið dannidyralaeknir@gmail.com
Ný reglugerð um gæludýrahald í Strandabyggð
Umsóknareyðublöð varðandi skráningu hunda er hér, katta hér og listi yfir skráða hunda og ketti er hér. Ef þú sérð þitt dýr ekki skráð, þá er hægt fylla út eyðublaðið og senda til okkar ásamt mynd af dýrinu en í nýju reglugerðinni er farið fram á örmerkingu og mynd.
Skv. reglugerð og gjaldskrá er nú innheimt skráningargjald við skráningu dýrsins og síðan eftirlitsgjald árlega. Innifalið er lyf v. ormahreinsunar, hópvátrygging eins og kemur fram í grein 5 í reglugerðinni.
Hunda- og kattahald í Strandabyggð er háð leyfi og bundið þeim skilyrðum sem nánar eru tilgreind í samþykkt þessari og ber umráðamönnum þessara dýra að fara að fyrirmælum samþykktarinnar. Umráðamanni ber að hlíta lögum og reglum sem varða gæludýrahald sem og fyrirmælum sem heilbrigðisnefnd setur. Umráðamanni dýrs ber að sjá til þess að umhirða dýrsins sé í samræmi við ákvæði laga nr. 55/2013 um velferð dýra og að gæludýrahaldið valdi ekki óþrifnaði, hávaða, ónæði eða smiti fyrir íbúa. Taki sveitarfélagið, að höfðu samráði við Matvælastofnun, ákvörðun um að framkvæma skuli ormahreinsun hunda og katta upplýsir sveitarfélagið umráðamenn hunda og katta um það hvenær ormahreinsun fer fram. Umráðamönnum er skylt að mæta á tilsettum tíma með dýr sín og er sú ormahreinsun innifalin í eftirlitsgjaldi ef hún er framkvæmd. Geti umráðamaður af einhverjum ástæðum ekki mætt með dýr sitt á tilsettum tíma skal hann afhenda sveitarfélaginu staðfestingu frá dýralækni um að ormahreinsun hafi farið fram. Umráðamenn skulu árlega greiða eftirlitsgjald fyrir hunda sína og ketti samkvæmt gjaldskrá sem sveitarfélagið setur í samræmi við ákvæði 59. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Gestahundar og kettir skv. grein 6 og 12.
Vinsamlegast athugið að ef hundur eða köttur dveljast tímabundið í sveitarfélaginu skal skrá þá hjá skrifstofu Strandabyggðar. Slík skráning skal þó ekki gilda lengur en þrjá mánuði. Skráning skal fara fram sem fyrst og ekki seinna en innan tveggja vikna frá því að köttur kom inn í sveitarfélagið. Um gestkomandi ketti sem skráðir eru tímabundið sem og óskráða ketti gilda öll ákvæði þessarar samþykkta.