Gögn frá íbúafundi um sameiningarvalkosti Strandabyggðar
Fyrr í mánuðinum var haldinn vel sóttur íbúafundur í Strandabyggð til að leita eftir sjónarmiðum íbúa og kynna vinnu við greiningu valkosta í sambandi við hugsanlega sameiningu sveitarfélagsins við önnur. Spurt var hvort Strandabyggð ætti að hefja sameiningarviðræður og hver ættu að vera áhersluatriði Strandabyggðar í slíkum viðræðum.
Það var RR-ráðgjöf sem tók að sér vinnu við valkostagreininguna og kynntu þeir niðurstöður sínar. Einnig kom Gauti Jóhannesson forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fyrrum sveitarstjóri Djúpavogshrepps á íbúafundinn og sagði frá reynslu Djúpavogshrepps við uppbyggingu og reynslu sveitarfélagsins af sameiningarviðræðum á Austurlandi og sameiningu í nýtt Múlaþing.
Nokkrar fyrirspurnir hafa borist um niðurstöður skoðunarkönnunar á fundinum, um hvernig þátttakendur röðuðu þeim valkostum sem voru í boði. 33 tóku þátt í þeirri röðun, en um það bil helmingi fleiri voru á fundinum í eigin persónu eða fylgdust með í streymi. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi varðandi að fundarmenn vildu hefja sameiningarviðræður við nálæg sveitarfélög, en skiptar skoðanir um hversu stórtæk hún ætti að vera.
Eins er ekki búið að fá afstöðu nágrannasveitarfélaga til málsins, en á síðasta sveitarstjórnarfundi Strandabyggðar var samþykkt að senda öllum sveitarfélaginum sem nefnd voru til sögu í valkostagreiningu erindi og spyrjast fyrir um afstöðu þeirra til að hefja viðræður við Strandabyggð um sameiningu. Slíkt bréf hefur þegar verið sent til Reykhólahrepps, Dalabyggðar, Árneshrepps, Kaldrananeshrepps og Húnaþings vestra.
Tenglar:
Glærur sem kynntar voru á fundinum
Samantekt á niðurstöðum fundarins