A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Greinargerð með fjárhagsáætlun

Salbjörg Engilbertsdóttir | 13. desember 2024


Kæru íbúar Strandabyggðar,

Á sveitarstjórnar fundi 1371 þann 10.12 sl. samþykkti sveitarstjórn í seinni umræðu, fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 og næstu þrjú ár þar á eftir, eða fram til 2028. Slóð á greinargerð vegna fjárhagsáætlunar.

Síðast liðið ár einkenndist af miklum framkvæmdum við endurbætur á Grunnskólanum á Hólmavík. Viðgerðir og endurbætur hafa staðið yfir í um tvö ár, eða frá því veruleg mygla greindist þar í nóvember 2022. Kostnaður vegna þessa hefur óneytanlega reynst sveitarfélaginu erfiður og er því lagt upp með miklu minni fjárfestingu í verkefnum og viðhaldi á árinu 2025 en eðlilegt þætti. Innviðaskuld Strandabyggðar er mikil og það hefur legið fyrir frá því núverandi sveitarstjórn tók við, að sveitarfélagið yrði að gefa sér nokkur ár í að vinna á þeirri skuld. Það er ljóst að róðurinn verður erfiður árið 2025, en þó verður reynt að framkvæma það sem nauðsynlegt þykir.

Sveitarstjórn samþykkti að nýta þá lagalegu tekjumöguleika sem fyrir eru hverju sinni og eru helstu forsendur tekjuöflunar því eftirfarandi:

  • Útsvarshlutfall árið 2025 er 14,97% frá 1. janúar 2025, eða lögbundið hámark
  • Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði hækkar úr 0,5% í 0,625% og skattur á atvinnuhúsnæði úr 1,32% í 1,65%
  • Almennar gjaldskrárhækkarnir verða 3,9%, sem er í takt við verðbólguspá Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hvað aðrar forsendur varðar, er stuðst við ýmis gögn við gerð fjárhagsáætlunar. Þar má nefna: Samantekt Sambands íslenskra sveitarfélaga um forsendur við fjárhagsáætlanagerð, áætlanir forstöðumanna, minnisblöð sveitarstjóra og skrifstofustjóra og umræðu á vinnufundum sveitarstjórnar.


Gert er ráð fyrir að rekstarafkoma A hluta árið 2025 verði jákvæð um kr. 28.731.000. Samanlögð afkoma A og B hluta er áætluð jákvæð kr. 28.384.000. Gert er ráð fyrir lántöku kr. 150.000.000 og framkvæmdir ársins eru áætlaðar kr. 127.140.000.

Hvað áherslur í framkvæmdum varðar er lagt upp með lágmarks fjárfestingar á flestum sviðum. Sú megin regla gildir þó, að fjárfestingar sem; a) forða eign frá skemmdum og b) koma í veg fyrir slysahættu, hafa vissan forgang. Helstu verkefni eru:

  • Lóðaframkvæmdir við leikskólann Lækjarbrekku. Um er að ræða heildarendurbætur á lóðinni, þ.e. jarðvegsvinnu, drenlögn, tyrfingu, jarðvegsskipti á leiksvæði, lagningu á nýju efni, grasi og tartan og ný leiktæki
  • Grunnskólinn. Það liggur fyrir að yngri hlutinn er að mestu frágenginn en ganga þarf frá lóð og sprungum í veggjum utanhúss. Ekki eru fyrirhugaðar neinar framkvæmdir við eldri hluta grunnskólans á árinu 2025
  • Hönnun lóða í Brandskjólum og við Íþróttamiðstöðina/hótelbyggingu. Framundan er talsverið innviðauppbygging á Hólmavík. Annars vegar er um að ræða uppbyggingu íbúðahverfis í Brandskjólum, sem hefur lengi verið á hugmyndastigi, en verður nú að veruleika. Drög að deiliskipulagi liggja fyrir og gert er ráð fyrir að þarna verði fjölbreytt byggð, allt að 20 íbúðir. Hins vegar er um að ræða svæðið við Íþróttamiðstöðina og félagsheimilið, en það svæði þarf að endurhanna m.t.t. hótelbyggingar á bjarginu sem snýr út fjörðinn. Á fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir kostnaði við hönnun þessara svæða. Gera þarf lóðateikningar og myndir af svæðinu, hanna götur og staðsetningar mannvirkja.

Það er ljóst að sveitafélagið mun ekki geta ráðist í ýmsar framkvæmdir eins og t.d. malbikun gatna, á árinu 2025. Er því lagt til að slíkar framkvæmdir færist til ársins 2026. Sama gildir um hönnun og gerð göngustíga, varnargarða og gangstétta.

Áhaldahúsið er komið til ára sinna og þarfnast mikils viðhalds. Ekki er talið forsvaranlegt að ráðast í neinar endurbætur á húsinu þar sem það er bæði of lítið fyrir núverandi starfsemi og eins þar sem kostnaður við endurbætur er álitinn of mikill. Vænlegra þykir að íhuga nýbyggingu eða flutning í húsnæði Sorpsamlagsins, sem þarf á stærra húsnæði að halda. Þörf er á að skoða þessa valkosti m.t.t. hagræðingar og kostnaðar. Strandabyggð er lang stærsti hluthafi Sorpsamlags Strandasýslu, með hátt í 80% eignarhlut, á móti Kaldrananeshreppi og Árneshreppi.

Aðrar fasteignir sveitarfélagsins þarfnast einnig viðhalds. Þar má nefna Þróunarsetrið, sem hýsir mikilvæga starfsemi Rannsóknasetur Háskóla Íslands í þjóðfræði, Vestfjarðastofu og Ásgarðs. Ljóst er að húsið þarfnast viðhalds, sem verður sett á dagskrá á árinu 2026. Þarfagreining og ástandsskoðun fer fram á árinu 2025. Þörf er á viðhaldi á íbúðum í eigu sveitarfélagsins og verður ekki hjá því komist á árinu 2025.


Gerð fjárhagsáætlunar kallar á þor sveitarstjórnarfulltrúa til að taka ákvarðanir. Ráðstöfun fjármagns sveitarfélagsins, er gjarnan ákvörðun sem flestir hafa skoðun á. Þegar fjármagn er af skornum skammti, líkt og nú er, verður þessi ákvörðun enn flóknari og erfiðari. Hana þarf engu að síður að taka. Sveitarstjórn stendur frammi fyrir fáum valkostum öðrum en að leita til Lánasjóðs sveitarfélaga þegar kemur að fjármögnun verkefna, þar sem reksturinn skilar litu til framkvæmda. Þetta er umhugsunarefni og er Strandabyggð alls ekki eina sveitarfélagið í þeirri stöðu að glíma við þröngan fjárhag. Yfir helmingur sveitarfélaga á landinu glímir t.d. við mygluvanda í grunnskólum. Framlag Jöfnunarsjóðs er háð flóknum útreikningum sem sérstaklega litast af fólksfjöldaþróun sveitarfélaga á vissu tímabili og er óvissa með framtíðar greiðslur.


Sú fjárhagsáætlun sem hér er lögð fram, er lituð þeirri erfiðu fjárhagsstöðu sem sveitarfélagið er í, sem stafar m.a. af miklum kostnaði við endurbætur á grunnskólanum. Þessi erfiða staða stafar líka af þeirri innviðaskuld sem hefur byggðst upp í sveitarfélaginu á liðunum árum og áratugum. Það er því ljóst að Strandabyggð þarf enn um sinn að herða ólina, leita leiða til sparnaðar og huga að öllum mælikvörðum og viðvörunarljósum þegar kemur að lántökum og skuldsetningu. Einnig þarf að fullnýta heimildir til álagningar skatta og gjalda, a.m.k tímabundið, til að auka tekjur sveitarfélagsins. Að öðrum kosti viðhelst hér veruleg innviðaskuld og svigrúm sveitarfélagsins til vaxtar og sóknar verður lítið sem ekkert.


Sveitarstjórn er samtstíga í þeirri vinnu að efla hér búsetukosti og hagsæld íbúa, þó menn greini stunum á um leiðir.  Stóra markmiðið er að okkur líði áfram vel í Strandabyggð, hér eflist mannlíf og atvinnulíf og að því vinnur sveitarstjórn Strandabyggðar.

 

Þorgeir Pálsson

oddviti

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón