A A A

Valmynd

Fréttir

Skólastarf

Grunnskólinn á Hólmavík opnar að nýju

Þorgeir Pálsson | 22. ágúst 2024
« 1 af 4 »

Kæru íbúar Strandabyggðar,

Í dag er mikill gleðidagur fyrir okkur öll.  Eins konar upprisa úr margra mánaða leiðindum, erfiðleikum og flækjustigi, sem allir hafa þó unnið vel úr.  Þetta er upprisa í þeim skilningi, að við sýnum með þessari framkvæmd, að við látum ekki buga okkur eða stoppa okkur umfram það sem nauðsynlegt er.  Það var aldrei efi í hugum okkar í Strandabandalaginu um að við myndum endurbyggja skólann okkar. Það kom aldrei annað til greina.  Vissulega voru skiptar skoðanir manna í milli og efasemdir um framkvæmdina, enda óvissan talsverð og verkefnið stórt.  En, á endanum erum við nú með nýjan skóla í gömlu húsnæði.  Staðreynd, sem minnir okkur á að það má aldrei gefast upp.

 

Þetta endureisnarferli spannar nú rúma 20 mánuði, næstum tvö ár.  Þetta hefur ekki verið einfalt enda ótrúlega margt sem þarf að smella.  Það sem hvað helst reyndist okkur erfitt, fyrir utan álagið á nemendur og starfsfólk, var að finna iðnaðarmenn og halda í þá. Kaupa inn efni, en oft var biðtíminn 6-8 vikur.  Ná að stilla saman verkþætti og aðkomu iðnaðarmanna, því svona uppbyggingu er eins og keðjuverkun, það þarf eitt að klárast til að annað geti hafist o.s.frv.  Það komu upp ýmsar breytingar, við bættum við verkþáttum, breyttum öðrum, tókum stórar ákvarðanir og smáar, sumar hratt, aðrar fengu að malla.  En við tókum alltaf ákvarðanir.  Og þess vegna hafðist þetta á endanum.  Enn er nokkur vinna eftir við hluta skólans og eins verður skólalóðin hönnuð og vonandi endurgerð næsta sumar, en í dag sameinast starfsfólk skólans og nemendur á sama stað.  Því ber að fagna!

 

Við hönnun skólans var það haft að leiðarljósi, að hafa líflega liti, skapa ferskleika og gleði innanhúss.  Einhverjum kann að þykja litagleðin nokkur, en þá er rétt að hafa í huga að þetta er skóli fyrir börnin okkar.  Þau eru lífleg og litaglöð.  Þetta er þeirra umhverfi og þar á að ríkja gleði og ferskleiki.  Að auki erum við að gleðjast og fagna upprisu þessa skóla og það gerum við með litagleði.  Litirnir eru í regnboganum, í loftinu, augunum, og allt í kring um okkur.  Leyfum okkur að njóta og gleðjast, því þessi gleðidagur á að vara lengi.

 

Það eru svo ótal margir sem eiga endalausar þakkir skildar fyrir þennan árangur og þennan mikilvæga áfanga í sögu Strandabyggðar; nemendur, starfsmenn skólans og sveitarfélagsins, verktakar, foreldrar, íbúar og margir aðrir.  Þetta er án efa með allra stærstu og umfangsmestu verkefnum þessa sveitarfélags ef ekki það stærsta.  Við skulum vera stolt yfir því að hafa komið að þessu verkefni.  Þessi dagur er skrifaður í söguna og við með.

 
Áfram Strandabyggð!

Þorgeir Pálsson
oddviti

 

Könnun

Facebook

Atburðadagatal

Næstu atburðir

Vefumsjón