Hamingjan í hávegum höfð
Hamingjudagar eru líka kjörið tækifæri til að hitta gamla félaga, brottflutta Hólmvíkinga og Strandamenn sem heimsækja Hólmavík í þeim tilgangi að brosa, gleðjast og jafnvel fíflast aðeins á Furðuleikum í Sævangi. Tækifæri til að skreyta sveitarfélagið okkar, hlúa að því og rækta okkur sjálf í leiðinni. Tækifæri til að eyða gefandi tíma með fjölskyldunni í fjölbreyttri afþreyingu. Ég hvet ykkur til að skoða dagskrána á vef hátíðarinnar, hamingjudagar.is. Þar geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi.
Að lokum vil ég gera lokaorð hamingjusamþykktar Strandabyggðar að mínum:
"Ræktum hamingjuna innra með okkur og stuðlum að aukinni gleði og lífsfyllingu hjá okkar nánustu, vinum og samferðamönnum, með orðum okkar og gjörðum. Munum að bros í amstri hversdagsins getur gert kraftaverk, það getur dimmu í dagsljós breytt. Hið sama gildir um hrós og þakklæti fyrir það sem vel er gert. Jákvæð og uppbyggileg hvatning til góðra verka er varða sem vísar veginn í átt að betra samfélagi. Gleðjumst saman, höfum hamingjuna í hávegum. Gerum alla daga að hamingjudögum."
Verið öll hjartanlega velkomin á Hamingjudaga!